Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður fjárlaganefndar, segir að fundur fjárlaganefndar, Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra og Landhelgisgæslunnar um fyrirhugaða sölu á TF-SIF, einu eftirlits-og björgunarflugvél gæslunnar hafa gengið vel. Hún segir að þetta mál varði öryggi Íslendinga og mikilvægt sé að hlusta á öll sjónarmið.
„Þetta gekk mjög vel og í sjálfu sér má segja að við erum einhverju nær um stöðu Landhelgisgæslunnar og um þetta ferli. En það breytir því ekki að fjárlaganefnd vissi ekki af þessari stöðu þegar hún var að vinna fjárlögin og með þessum framlögum, 600 milljónum, töldum við okkur vera sjá reksturinn óbreyttan,“ segir Bjarkey um stöðu mála.
Bjarkey segir að það sé augljóst að málið hafi verið lengi í ferli innan dómsmálaráðuneytisins.
„Við kvörtuðum kannski aðeins yfir því að dómsmálaráðuneytið hefði ekki komið til okkar og gert okkur grein fyrir þessari stöðu. Þó að einhver samskipti hefðu átt sér stað þann 18. desember og fjárlagafrumvarpið samþykkt 16. desember, þá var augljóst að þetta var búið að vera í ferli innan ráðuneytisins lengi, en upplýsingarnar voru að týnast inn á löngum tíma,“ segir Bjarkey.
Bjarkey segir að dómsmálaráðherra eigi enn eftir að útskýra hvaða áhrif salan mun hafa á öryggi Íslands og alþjóðlega samninga.
„Ég innti dómsmálaráðherra eftir því að það vantar alveg að við sjáum hvernig planið á að líta út og hvaða áhrif salan á eftir að hafa. Bæði á Shengen-samstarfið, varnir innanlands og öryggi og annað slíkt. Það liggur ekki fyrir,“ segir Bjarkey.
„Á meðan það liggur ekki fyrir hvað tekur við og hvernig við vinnum úr stöðunni, þá finnst mér ekki tímabært að taka þá ákvörðun,“ segir Bjarkey, en að hennar sögn þarf dómsmálaráðherra að sækja um heimild til Alþingis.
Fjárlaganefnd mun funda aftur á mánudaginn og segir Bjarkey að aðilar sem salan hefur áhrif á verði kallaðir á fund.
„Þetta varðar landhelgina okkar og öryggi. Við viljum hlusta á öll sjónarmið. Það er alveg ljóst að við þurfum að velta þessari stöðu eitthvað fyrir okkur og skoða Landhelgisgæsluna. Við munum funda aftur eftir helgina með öðrum aðilum sem þetta hefur áhrif á og reynum að mynda okkur einhverja skoðun á hvað við viljum gera og hvernig við viljum bregðast við,“ segir Bjarkey.