Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir yfirlýsingu Jóns Gunnarssonar, dómsmálaráðherra, um að selja þyrfti eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar í sparnaðarskyni vera pólitískt valdatafl. Með því sé dómsmálaráðherra að reyna að ná í aukið fjármagn. RÚV greinir frá.
Mikil ólga varð í vikunni þegar dómsmálaráðherra greindi frá því að selja þyrfti eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, vegna rekstrarhalla. Lagt var upp með að Landhelgisgæslan skyldi hætta rekstri flugvélarinnar þann 1. febrúar og vélin sett í söluferli.
„Þetta kom mér á óvart. Við trúðum því aldrei að þetta yrði að raunveruleika. Í raun voru þetta bara hugmyndir á blaði. En ef það á að skerða viðbragðsgetu Landhelgisgæslunnar til þess að ná inn einhverjum 600 milljónum þarf að gera eitthvað róttækt,“ sagði Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, í samtali við Fréttablaðið.
Hann segir þrjá kosti hafa verið í stöðunni til þess að rétta hallann af. Sala á flugvélinni væri sá illskásti en þó engan veginn tækur kostur. „Í raun er hann bara hreint og beint galinn,“ sagði hann. Vera flugvélarinnar hér á landi sé brýnt þjóðaröryggismál, sér í lagi vegna breyttrar heimsmyndar.
Í vikunni stigu fjölmargir fram og gagnrýndu ákvörðun dómsmálaráðherra að selja vélina. Síðar kom fram að ráðherra hefur ekki heimild í fjárlögum til að selja hana, auk þess sem samþykki þingmanna á þingi hefði verið nauðsynlegt.
Eftir vinnufund ríkisstjórnar í gærkvöldi tilkynnti dómsmálaráðherra að ekkert yrði af sölu TF-SIF. Flugvélin færi hvergi og nú þyrfti að tryggja að Landhelgisgæslan fengi fjármagn til óbreytts rekstrar.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi atburðarásina í Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Hún segir Jón reyndan þingmann sem kunna allar leikreglur við gerð fjárlaga. Hann hafi kosið að setja ekki inn heimild til að selja vélina TF-SIF þar sem hann hafi metið sem svo að slíkt hefði ekki haft neitt vægi eða fengið neina umfjöllun.
„Svo kemur bomban og þetta útspil er bara pólitískt valdatafl ráðuneyta og ráðherra til að ná í aukið fjármagn til mikilvægra verkefna. Og fyrir ráðherra er það kannski líka pólitískt valdatafl innan flokks,“ segir Ragnheiður.
Þá benti hún á að komið hefði í ljós, um leið og fyrirhuguð sala kom fram, að lagt hefði verið fram minnisblað sem engin virtist hafa lesið. Þá hafi salan hvergi verið kynnt.
„Og síðan fer allt af stað. Það er horfið til baka og dómsmálaráðherra fær pening til að fjármagna vélina út árið og hægt að leita einhverra leiða sem menn hefðu átt að fara í upphafi. Þetta var pólitískt leikrit sem er algjörlega siðlaust,“ segir hún.