Ragn­heiður Rík­harðs­dóttir, fyrr­verandi þing­flokks­for­maður Sjálf­stæðis­flokksins, segir yfir­lýsingu Jóns Gunnars­sonar, dóms­mála­ráð­herra, um að selja þyrfti eftir­lits­flug­vél Land­helgis­gæslunnar í sparnaðar­skyni vera pólitískt valda­tafl. Með því sé dóms­mála­ráð­herra að reyna að ná í aukið fjár­magn. RÚV greinir frá.

Mikil ólga varð í vikunni þegar dóms­mála­ráð­herra greindi frá því að selja þyrfti eftir­lits­flug­vél Land­helgis­gæslunnar, TF-SIF, vegna rekstrar­halla. Lagt var upp með að Land­helgis­gæslan skyldi hætta rekstri flug­vélarinnar þann 1. febrúar og vélin sett í sölu­ferli.

„Þetta kom mér á ó­vart. Við trúðum því aldrei að þetta yrði að raun­veru­­leika. Í raun voru þetta bara hug­­myndir á blaði. En ef það á að skerða við­bragðs­­getu Land­helgis­­gæslunnar til þess að ná inn ein­hverjum 600 milljónum þarf að gera eitt­hvað rót­tækt,“ sagði Georg Kr. Lárus­son, for­stjóri Land­helgis­gæslunnar, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hann segir þrjá kosti hafa verið í stöðunni til þess að rétta hallann af. Sala á flug­vélinni væri sá ill­skásti en þó engan veginn tækur kostur. „Í raun er hann bara hreint og beint galinn,“ sagði hann. Vera flug­vélarinnar hér á landi sé brýnt þjóðar­öryggis­mál, sér í lagi vegna breyttrar heims­myndar.

Í vikunni stigu fjöl­margir fram og gagn­rýndu á­kvörðun dóms­mála­ráð­herra að selja vélina. Síðar kom fram að ráð­herra hefur ekki heimild í fjár­lögum til að selja hana, auk þess sem sam­þykki þing­manna á þingi hefði verið nauð­syn­legt.

Eftir vinnu­fund ríkis­stjórnar í gær­kvöldi til­kynnti dóms­mála­ráð­herra að ekkert yrði af sölu TF-SIF. Flug­vélin færi hvergi og nú þyrfti að tryggja að Land­helgis­gæslan fengi fjár­magn til ó­breytts rekstrar.

Ragn­heiður Rík­harðs­dóttir, fyrr­verandi þing­flokks­for­maður Sjálf­stæðis­flokksins, ræddi at­burða­rásina í Viku­lokunum á Rás 1 í morgun. Hún segir Jón reyndan þingmann sem kunna allar leik­reglur við gerð fjár­laga. Hann hafi kosið að setja ekki inn heimild til að selja vélina TF-SIF þar sem hann hafi metið sem svo að slíkt hefði ekki haft neitt vægi eða fengið neina um­fjöllun.

„Svo kemur bomban og þetta út­spil er bara pólitískt valda­tafl ráðu­neyta og ráð­herra til að ná í aukið fjár­magn til mikil­vægra verk­efna. Og fyrir ráð­herra er það kannski líka pólitískt valda­tafl innan flokks,“ segir Ragn­heiður.

Þá benti hún á að komið hefði í ljós, um leið og fyrirhuguð sala kom fram, að lagt hefði verið fram minnis­blað sem engin virtist hafa lesið. Þá hafi salan hvergi verið kynnt.

„Og síðan fer allt af stað. Það er horfið til baka og dóms­mála­ráð­herra fær pening til að fjár­magna vélina út árið og hægt að leita ein­hverra leiða sem menn hefðu átt að fara í upp­hafi. Þetta var pólitískt leik­rit sem er al­gjör­lega sið­laust,“ segir hún.