Bátur fyrirtækisins Borea Adventures á Ísafirði skemmdist töluvert eftir árekstur við hval á Ísafjarðardjúpi á leið sinni til Hesteyrar í gær.

„Hann er töluvert tjónaður og siglir ekkert meira þetta sumarið,“ upplýsir Rúnar Karlsson, annar eigandi Borea Adventures, í samtali við Fréttablaðið í morgun um ástand bátarins.

Aðspurður segir Rúnar þó ekki vita um afdrif hvalsins, en segir að upplýsingar um málið hafa verið sendar á Hafrannsóknarstofnun. „Það er það eina sem við getum gert og það fer inn í alþjóðlegan gagnabanka um hvali hjá þeim“ segir Rúnar.

„Við sjáum ekki hvert ástandið er á honum, við sáum hann aldrei,“ upplýsir Rúnar sem telur að hvalurinn hafi verið hnúfubakur.

„Það hefur verið mikil hnúfubakagengd í Ísafjarðardjúpi í sumar,“ segir hann. „Þetta var jafn mikið kjaftshögg fyrir okkur og fyrir hvalinn, en við vonum að hann hafi lifað þetta af greyið.“

Halda starfseminni áfram

Farþegar voru um borð í bátnum sem heyrðu töluverðan dynk við áreksturinn. Við það kom örlítill leki á bátinn og skemmdi aðra vélina. Farþegarnir virtust ekki mikið kvektir að sögn Rúnars, þar sem þeir fóru yfir í annan bát og héldu ferðinni áfram.

Aðspurður segir Rúnar að þau geri sitt besta til að halda starfseminni áfram, „Við erum búin að leigja annan bát til að klára árið og eigum annan sem er töluvert minni, en hann dugar ekki til,“ segir Rúnar.

Báturinn sem um ræðir ber nafnið Sif og tekur 48 farþega, og er 17 metrar að lengd.

Fyrirtækið býður upp á styttri og lengri leiðsöguferðir, sérferðir sem og að ferja fólk fram og til baka frá Ísafirði til Aðalvíkur, Veiðileysufjarðar, Hesteyrar, Grunnavíkur og Hornvíkur.