Allir íbúar Grímseyjar fóru í sóttkví eftir að Covid-19 nam þar land í fyrsta sinn í síðustu viku. Fyrstu tvö smitin greindust í síðustu viku, nú hafa alls fimm smit greinst á eyjunni. Íbúar fóru ýmist í sjálfskipaða sóttkví en nú eru þónokkrir í formlegri sóttkví.

Halla Ingólfsdóttir, sem rekur fyrirtækið Arctic Trip í Grímsey, segir í samtali við Fréttablaðið að flestir séu nú lausir úr sóttkví. Það hafi myndast sérstök stemning þegar allir íbúar fóru í sóttkví.

„Ég fór í bíltúr, keyrði einn hring. Þetta var eins og draugabær,“ segir Halla. „Við er búin að vera svo heppin, veiran hefur ekkert komið og við héldum að við myndum jafnvel sleppa, en maður er hvergi varinn fyrir þessu.“

Fleiri ferðamenn hafi komið nú í ár en í fyrra. „Það er búið að vera mjög gott ferðamannasumar, bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn. Mikið líf og fjör.“

Erfitt að komast í skimun

Kar­en Nótt Hall­dórs­dótt­ir, ritari hverf­is­ráðs Gríms­eyj­ar, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að versluninni og veitingastaðnum hefði verið lokað í eyjunni í nokkra daga.

„Við losnuðum úr sóttkví í gær. Við vorum skimuð á sunnudag en það kemur hingað læknir frá Akureyri á þriggja vikna fresti og hann var að koma með örvunarskammtinn fyrir okkur sem fengum Janssen-bóluefnið. Hann kom þá líka með græjur til að skima í leiðinni,“ sagði Karen Nótt.

Karen sagði í samtali við MBLað snúið væri að bregðast við þegar Grímseyingar þurfa að fara í skimun. „Þetta er svo­lítið erfið staða sem við erum í á eyju úti í Atlants­hafi. Það er vand­kvæðum bundið að flytja okk­ur í land í skimun því þá þurf­um við að fara í al­menn­ings­sam­göng­ur. Það er senni­lega minna vesen að koma með græj­ur til þess að skima fólk held­ur en að flytja okk­ur í land.“