Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Laugardagur 26. febrúar 2022
06.00 GMT

Ég póstaði á Twitter að umræddur maður hefði haldið mér í heljargreipum frá fyrsta ári í menntaskóla.“ Elísabet segir að á þeim tímapunkti hafi sambandið verið orðið þráhyggjukennt en það hafi þó hafist fyrr, áður en hún útskrifaðist úr grunnskóla.

„Ég tók viðtal við hann og annan kollega úr tónlistinni sem hluta útskriftarverkefnis úr grunnskóla,“ rifjar Elísabet upp aðspurð um upphaf sambands sem átti eftir að halda henni í heljargreipum næsta áratuginn.

Í kjölfar sendinganna fara þau að spjalla í gegnum Facebook.

„Hann segir síðar að hann hafi ekki vitað hversu ung ég var, en fæðingarár mitt var alltaf skráð á Facebook. Það er heldur ekki erfitt að komast að því,“ segir Elísabet sem eins og fyrr segir tekur viðtalið sem hluta af útskriftarverkefni úr grunnskóla svo aldurinn var þar uppi á borðum.

Hafði aldrei átt kærasta


Hún lýsir því að athyglin sem hún fékk þarna, 16 ára gömul, hafi kitlað.

„Ég hafði aldrei átt kærasta en vinkonur mínar höfðu aðeins verið að slá sér upp með jafnöldrum okkar. Ég varð rosalega upp með mér yfir því að maður sem var þekktur og hvað þá í tónlist, sem var eitthvað sem mig langaði að fara út í, sýndi mér áhuga.“

Elísabet rifjar upp að hann hafi boðist til að skutla henni heim eftir að hún tók viðtalið fyrir lokaverkefnið. „Þegar ég hugsa til baka þá er þetta svakalega óviðeigandi því hann býður mér upp á ís, skutlar mér svo heim og kyssir mig fyrir utan heimili mitt.“


„Þegar ég hugsa til baka þá er þetta svakalega óviðeigandi því hann býður mér upp á ís, skutlar mér svo heim og kyssir mig fyrir utan heimili mitt.“


Elísabet sem þarna var 16 ára bjó enn hjá móður sinni, söngkonunni Helgu Möller, og hann, sem var 38 ára, starfaði sem tónlistarmaður.

„Hann virtist ekkert kippa sér sérstaklega upp við aldursmuninn,“ segir Elísabet sem var spennt yfir kossinum en sagði þó engum frá honum á þessum tímapunkti.

Um sumarið starfaði Elísabet í verslun í miðbænum og fór gjarnan heim til hans eftir vinnu.

„Hann var enn að drekka á þessum tíma og ég fór einu sinni niður í bæ með honum að hitta vini hans, kollega mína í dag. Ég veit alveg að þeim fannst þetta skrítið en enginn sagði þó neitt. Þeir vissu alveg hvað ég var gömul en hann náði að sannfæra þá eins og mig um að þetta væri saklaust.“


Laug á hverjum degi

Elísabet segir leynimakkið hafa byrjað strax, hún hafi verið risa stórt leyndarmál.

„Þar af leiðandi hófust jafnframt lygarnar. Hann bjó einn og var nýhættur með kærustu sinni.“

Eðli málsins samkvæmt þurfti hann ekki að svara neinum um hvað hann væri að gera eða með hverjum, annað en hin 16 ára Elísabet.

Elísabet kynntist umræddum tónlistarmanni þegar hún tók viðtal við hann sem hluta lokaverkefnis hennar í grunnskóla. Eftir viðtalið bauðst hann til að aka henni heim og kyssti hana. Fréttablaðið/Anton Brink

„Á hverjum einasta degi þurfti ég að ljúga að einhverjum,“ segir Elísabet sem einangraðist mikið frá vinum.

„Vinahópurinn var vanur að hanga mikið saman en allt í einu hvarf ég. Ég laug að foreldrum mínum og vinkonum og fann alltaf nýjar afsakanir.“

Elísabet var með 9,3 í meðaleinkunn úr grunnskóla og segist hafa flogið inn í Verslunarskólann. Þar hafi gamall draumur ræst en mjög fljótt farið að halla undan fæti.

„Ég var alltaf góður námsmaður en í Versló hafði ég ekkert athyglisspan til að stunda námið. Ég fór að skrópa til að fara heim til hans og hann sótti mig í skólann á morgnana,“ útskýrir Elísabet en hann vann mest á kvöldin og var í fríi á daginn.

„Ég fór að falla í prófum enda fékk ég mig ekki til að læra undir þau, þetta var of spennandi og átti hug minn allan.“


„Ég fór að falla í prófum enda fékk ég mig ekki til að læra undir þau, þetta var of spennandi og átti hug minn allan.“


Elísabet segir rauðu flöggin snemma hafa birst og margir hafi varað hana við því að hann ætti við áfengisvandamál að stríða.

„Afneitunin kom snemma upp hjá mér og þótt hann væri iðulega þunnur þegar ég kom til hans afsakaði ég það með því að hann hefði bara verið að skemmta sér kvöldið áður.“


Mamma reyndi að tala við hann


Foreldrar Elísabetar fóru að hafa áhyggjur þegar illa var farið að ganga í náminu.

„Þegar ég skildi eitt sinn símann minn eftir á meðan ég stökk út í búð, fann mamma skilaboð okkar á milli. Hún titraði af reiði þegar ég kom til baka. Ég skildi alveg að hún sýndi þessu ekki skilning, en ekki að hún væri svona rosalega reið. Hún reyndi að leita leiða til að kæra hann og langaði helst að drepa hann,“ lýsir Elísabet og segir viðbrögð föður hennar hafa verið á svipuðum nótum.

„Mamma reyndi svo að tala við manninn sem lofaði öllu fögru sem ekki gekk eftir.“


„Mamma reyndi svo að tala við manninn sem lofaði öllu fögru sem ekki gekk eftir.“


Elísabet segist hafa upplifað að foreldrar sínir væru eða eyðileggja fyrir sér enda hafi hún haldið að hún væri búin að finna manninn sinn. Hún hafi því farið í uppreisn gegn þeim.

„Ég fer að ljúga meira, vera varkárari og búa til fjarvistarsannanir til þess að geta hitt hann.“

Ekki reyndist hægt að kæra manninn enda Elísabet orðin 16 ára. Sjálf segist hún í dag ekki skilja hvernig slíkt samband geti verið löglegt.

„Hvernig á 16 ára barn að hafa þroska og vitsmuni til að geta greint hvort þetta sé rétt eða séð stóru myndina, hversu mikið þetta getur skaðað?“


Þroskuð miðað við aldur


Með manninum stundaði Elísabet kynlíf í fyrsta sinn.

„Þar komum við einmitt að þessu valdaójafnvægi. Hann hafði verið í fjölda sambanda og gengið í gegnum svo margt. Ég vissi ekki hvernig það væri að vera í ástarsambandi og hafði í raun ekkert til að miða við og hélt því að framkoma hans við mig væri eðlileg.

Hann til dæmis sagði snemma við mig að hann langaði ekki að fara aftur í samband en það þýddi þó ekki að hann vildi sleppa mér. Ég túlkaði það þannig að hann vildi mig en vildi bara ekki opinbera það strax því ég væri svo ung.

Hann sagði að það mætti enginn komast að þessu vegna aldurs míns því hann yrði þá dæmdur og myndi mögulega missa vinnuna. Ég var því snemma sett í það hlutverk að passa upp á hann,“ segir Elísabet sem gætti leyndarmáls þeirra vel.


„Hann sagði að það mætti enginn komast að þessu vegna aldurs míns því hann yrði þá dæmdur og myndi mögulega missa vinnuna."


Alla tíð hef ég fengið að heyra að ég sé þroskuð miðað við aldur. Í þessum aðstæðum er þessi setning stórhættuleg. Því þarna heyrði ég:

„Þú ert fullorðinslegri en jafnaldrar þínir, svo þú getur alveg verið með eldri manni.“

Mér fannst það hrós. Þetta kveikti á þeirri tilfinningu að ég væri fullorðin enda væri ég ekki með strák heldur með manni.“


Mátti ekki gera athugasemdir


„Hann hætti að drekka seinni hluta ársins sem sambandið hófst. Ég hafði aldrei séð vesenið en komst að því að hann hefði líka verið í einhverjum efnum.

Ég sá það aldrei, ég var náttúrlega bara með blöðkur fyrir augunum. Hann sagði að ég hefði verið ein ástæðnanna fyrir því að hann hætti að drekka. En hann hafði líka eyðilagt milljón ástarsambönd með drykkju og framhjáhaldi.


„Ég sá það aldrei, ég var náttúrlega bara með blöðkur fyrir augunum."


Hann var mikið að umgangast og hitta fyrrverandi kærustu sína sem hann hafði hætt með rétt áður en hann kynntist mér,“ segir Elísabet og bætir við að hann hafi æst sig upp úr öllu valdi ef hún vogaði sér að gera athugasemdir við það.

„Þar byrjaði þessi heift og reiði. Þessi rifrildi sem svo stigmögnuðust með hverju árinu sem leið. Ég reyndi að standa uppi í hárinu á honum en hann náði alltaf að drekkja mér. Svo notaði hann reynsluleysi mitt gegn mér. Sagði: „Þú hefur ­aldrei áður verið í ástarsambandi.“ Hann vissi hvað ég var reynslulaus og notaði það gegn mér til þess að geta gert ákveðna hluti.“


Lagið Elísabet


Hann byrjar svo aftur með téðri fyrrverandi kærustu.

„Ég var náttúrlega bara miður mín í ástarsorg en hann hélt áfram að senda mér skilaboð og endar svo á að fara að hitta mig á bak við hana.

Það eru margar stórar eftirsjár í þessu ferli og þetta er ein þeirra. Að hann hafi náð að sannfæra mig um að það væri í raun allt í lagi að hann hitti mig á daginn á meðan hún var í vinnunni. Svo bara skutlaði hann mér heim og fór og sótti hana. Mig hefur alltaf langað að biðja hana afsökunar síðan þetta allt rann upp fyrir mér.“

Elísabet segir hann hafa gert lítið úr því sambandi og hún hafi trúað því að hún þyrfti bara að bíða aðeins, þá kæmi hann aftur til hennar.

„Þau hættu svo saman enda komst hún að því að hann væri líka að hitta mig,“ segir Elísabet en á meðan hann var enn í hinu sambandinu kom út lag með honum.

„Þegar ég var 17 ára samdi hann til mín þetta lag og sendi mér það þegar ég hafði lokað á hann eftir eitt rifrildið. Ég auðvitað bara bráðnaði og fannst þetta krúttlegt,“ segir Elísabet en titill lagsins er nafnið hennar og textinn á vel við lýsingar hennar á sambandinu.


„Þegar ég var 17 ára samdi hann til mín þetta lag og sendi mér það þegar ég hafði lokað á hann eftir eitt rifrildið."


Árið eftir, eða 2011, kom lagið svo út en Elísabet segist hafa verið alfarið á móti því.

„Ég benti honum á að bransinn væri búinn að frétta af sambandinu og myndi gera tenginguna,“ segir hún og bætir við að fjölmargir hafi gert það.

„En það vissi enginn hversu alvarlegt þetta var enda töluðum við hvorugt um sambandið við neinn. Ég bæði vildi passa upp á hann og skammaðist mín fyrir að sætta mig við allan þennan skít og þessa vitleysu.“

Elísabet varaði manninn við að gefa út lag um hana enda sagði hún bransann vera búinn að frétta af sambandinu og myndu gera tenginguna. Fréttablaðið/Anton Brink

Sambandið var stundum gloppótt en alltaf kom það upp aftur og aftur.

„Á þessum tíma var ég farin að heyra sögur um að hann væri að sofa hjá öðrum konum en hann náði alltaf að sannfæra mig um að það væri allt í lagi, því við værum ekki par. Hann sagði að ég skildi þetta ekki vegna reynsluleysis míns og aldurs.“


Dramatísk rifrildi og sáttir

Elísabet lýsir rifrildunum og sáttunum í framhaldi sem ávanabindandi.

„Eftir rifrildin var algjört frost. Hann blokkaði öll samskipti, númerið mitt og alla samfélagsmiðla svo ég gæti ekki náð í hann. Þannig hélt hann mér.

Það helltist yfir mig örvænting í hvert sinn og hann fór að nota sér þetta.

Ég þurfti þá að biðjast afsökunar og bakka með allt mitt þó að ég hefði allan rétt til að vera reið eða sár.

Stundum sendi hann mér skilaboð þar sem hann ýjaði að því að hann ætlaði að svipta sig lífi og slökkti svo á símanum til að gera mig hrædda.

Eitt sinn hringdi ég meira að segja á lögregluna í kjölfar slíkra skilaboða sem svo mætti heim til hans og hann varð svo snælduvitlaus við mig yfir því.“


„Stundum sendi hann mér skilaboð þar sem hann ýjaði að því að hann ætlaði að svipta sig lífi og slökkti svo á símanum til að gera mig hrædda."


Innst inni segist hún hafa vitað að framkoma hans væri ekki eðlileg.

„Ég var bara í hlekkjum. Hann náði alltaf að tæla mig upp á nýtt með því að segja fallegustu hluti í heiminum. Þetta var vítahringur sem endurtók sig í mörg ár.“


Ég varð skel af manneskju


Hann hætti með kærustunni en Elísabet hélt áfram að heyra sögur af öðrum konum sem hann alltaf þrætti fyrir.

„Þarna er ég enn alltaf að ljúga. Að ljúga á hverjum einasta degi er mannskemmandi og slítandi. Ég varð skel af manneskju. Ég var ekki að upplifa sömu hluti og jafnaldrar mínir. Ég hætti í skóla og enginn skildi hvað hefði orðið um þennan frábæra námsmann,“ segir Elísabet sem var þá búin að sannfæra sjálfa sig um að hún væri hreinlega orðin heimsk.

Elísabet segir lygarnar hafa þróast yfir í lygasýki.

„Ég laug svo mikið út af þessu að ég fór að ljúga öllu öðru líka. Ég missti vinnu, ég missti vini, allt út af lygum enda var hugsun mín brengluð.“

Elísabet segir vonina hafa legið í orðum hans: „Ef ég færi aftur í samband þá væri það með þér.“

„Það gef mér veika von um að við myndum enda saman. Hann gat bæði látið mér líða sem ég væri eina konan í heiminum eða að ég væri einskis virði, oftar hið síðara. Þetta var eins og heróín. Ég varð að fá fixið mitt og hann líka.

Þetta var bara þráhyggja, þetta var aldrei ást. Ég get alveg sagt það í dag, þetta var engin andskotans ást, þótt ég hafi haldið það á sínum tíma.“


„Ég get alveg sagt það í dag, þetta var engin andskotans ást, þótt ég hafi haldið það á sínum tíma.“


Logandi hrædd við karlmenn


Elísabet sleit ítrekað sambandinu sem varði í yfir áratug í einhverri mynd.

„Þá reyndi ég að opna fyrir eitthvað annað en það var enginn séns. Ég var alveg með öðrum mönnum en það var bara til að fá viðurkenningu, svo ég var bara að vanvirða líkama minn og sjálfa mig. Ég gaf engum séns,“ segir Elísabet og bætir við að margir hafi furðað sig á því að hún væri aldrei í sambandi við karlmenn.

Elísabet og Sindri, sambýlismaður hennar og barnsfaðir, tóku saman fyrir einu og hálfu ári en höfðu kynnst mörgum árum fyrr.

„Ég var logandi hrædd við karlmenn og vildi ekki sjá samband við þá. En það gerðist eitthvað varðandi hjarta mitt árið 2020. Ég veit ekki hvort það var Covid-einangrunin,“ segir Elísabet og hlær.

„En ég man eftir augnablikinu þegar ég fann að mig langaði bæði að taka á móti og gefa af mér. Um leið og ég kynntist Sindra fann ég að hann var allt sem ég bað um.“

Á meðan Elísabet var föst í sjúku sambandi hafði hún sannfært sig um annað.

„Ég hélt að þetta yrði líf mitt, þar til hann myndi drepast. Ég myndi aldrei eignast börn, aldrei gifta mig né eiga vinafólk til að fara í mat til eða bjóða í mat. Ég myndi aldrei búa með honum, aldrei halda heimili né eiga maka til að deila lífi mínu með.“


Ástin opnaði augun


Elísabet segir sambandið við Sindra, sem hófst árið 2020, hafa opnað augu hennar endanlega fyrir því í hversu sjúkum samskiptum hún hafði verið, rúman áratuginn á undan.

„Ég skildi ekki að hann kom fram við mig eins og ég væri drottning alheimsins og það væri engin önnur en ég.“

Elísabet segist hafa verið logandi hrædd við karlmenn þar til hún kynntist Sindra, manninum sínum og þeirra samband hafi opnað augu hennar. Fréttablaðið/Anton Brink

Elísabet fór að sækja Al-Anon fundi árið 2015 en foreldrar hennar höfðu áður sent hana á fundi með sálfræðingum.

„Ég var þá enn að vona að þetta yrði einhvern tíma eðlilegt og fallegt eins og allir í kringum mig voru að upplifa. Ég horfði á aðra eignast kærasta, útskrifast úr menntaskóla, ég fékk það aldrei. Hann vildi ekki kynna mig fyrir foreldrum sínum og ég náttúrlega var ekkert að koma með hann heim til mín þar sem allir hötuðu hann.

Ég syrgði þetta allt lengi og sagði það við hann: „Þú ert búinn að ræna mig svo mörgu sem allir í kringum mig – og þú sjálfur – upplifðu.“ En hann hélt samt alltaf áfram.“

Elísabet segir erfiðar tilfinningar hafa fylgt því þegar vinir hennar útskrifuðust úr menntaskóla. „Ég var orðin förðunarfræðingur og málaði nokkrar vinkonur mínar fyrir stóra daginn en var sjálf ekki að útskrifast, það var svo vont.“


Varð barnshafandi


Sama ár og Elísabet byrjaði að sækja Al-Anon fundi, 2015, komst hún að því að hún væri barnshafandi.


„Ég uppgötvaði það ekki fyrr en ég var komin átta vikur á leið. Þegar ég hringdi í hann og sagði honum fréttirnar var það fyrsta sem kom frá honum: „Ætlarðu ekki örugglega í fóstureyðingu?“ Það var allur stuðningurinn,“ segir Elísabet sem lýsir áfallinu sem hún var í og hvernig hún hafi farið ein í gegnum erfitt þungunarrof.


„Þegar ég hringdi í hann og sagði honum fréttirnar var það fyrsta sem kom frá honum: „Ætlarðu ekki örugglega í fóstureyðingu?“"


„Þarna var ég þó orðin meðvituð um að þetta yrði ekki maðurinn minn og ég ætlaði ekki að eignast barn með honum. En ég náði þó ekki að losa mig fyrr en löngu síðar.“

Al-Anon reyndist hjálplegt í sjálfsvinnunni.

„Þetta hélt samt eitthvað áfram og ég á pínu erfitt með að útskýra hvers vegna sjálf. Hann hafði bara tök á mér. Ég hafði alist upp í þessu sambandi og talaði ekki við neinn.“

Í dag sækir Elísabet jafnframt sálgæsluaðstoð.

„Þar læri ég að stjórna betur viðbrögðum sem ég hef lært í gegnum tíðina. Triggerarnir sem ég hef þróað með mér í gegnum þetta eru endalausir og ég sé það betur í nýju sambandi.

Ég er heppin að eiga nú skilningsríkan mann sem sýnir mér að ég eigi rétt á mínum tilfinningum. Það átti ég ekki áður. Ég mátti ekki gráta, ef ég gerði það öskraði hann bara hærra eða skellti á mig. Hann skildi mig þannig alltaf eftir eina grátandi.“


„Ég er heppin að eiga nú skilningsríkan mann sem sýnir mér að ég eigi rétt á mínum tilfinningum. Það átti ég ekki áður. Ég mátti ekki gráta, ef ég gerði það öskraði hann bara hærra eða skellti á mig."


Elísabet og sambýlismaðurinn hennar eiga saman tveggja mánaða gamlan son. Fréttablaðið/Anton Brink

Mætir fyrir utan heimili hennar


Það var í vikunni sem Elísabet ákvað að segja í fyrsta sinn þessa sögu.

„Það var þegar ég sá hann hér fyrir utan heimili mitt,“ segir hún en fyrir tveimur vikum flutti hún í nýja íbúð ásamt sambýlismanni sínum, barni þeirra og stjúpdóttur Elísabetar.

Hún er ekki skráð til heimilis á nýja staðnum og segir það hafa komið sér í opna skjöldu þegar hún sá manninn fyrir utan heimili sitt þótt það sé hegðun sem hann hafi stundað í langan tíma.

„Fyrst gerði hann það ef ég svaraði honum ekki í síma eftir rifrildi. Þá mætti hann fyrir utan heima, steig á bensíngjöfina í park til að láta vita: „Ég er hérna!“ Eða hann gaf í og keyrði hratt í burtu. Ég veit ekki hvaða hugsun var á bak við þetta hjá honum en mér leið eins og skilaboðin væru: „Ég er ekki að fara neitt,“ eða „Ég veit að þú ert heima.“


„Ég veit ekki hvaða hugsun var á bak við þetta hjá honum en mér leið eins og skilaboðin væru: „Ég er ekki að fara neitt,“ eða „Ég veit að þú ert heima.“"


Þetta hefur hann gert á fimm stöðum sem ég hef búið á í gegnum tíðina,“ segir Elísabet sem er aðeins nýflutt úr foreldrahúsum.

„Ég spottaði hann þrisvar þegar ég bjó síðast hjá mömmu í Mosfellsbænum. Það var eftir að ég kynntist Sindra og var búin að biðja hann að láta mig alveg í friði. Ég var farin að sjá hversu ógeðslegur hann hafði verið við mig og vildi aldrei tala við hann né sjá aftur,“ segir Elísabet og bætir við að þrátt fyrir að hún hafi blokkað hann á öllum samfélagsmiðlum hafi hún staðfestingu á að hann hafi fylgst með henni í gegnum aðra aðganga.

„Lögreglan sagðist ekkert geta gert nema ég væri með myndband eða myndir. Ég var því ákveðin í að taka hann upp sem ég gerði nú síðast og brotnaði niður í framhaldi. Ég hélt að þetta væri allt saman búið,“ segir Elísabet og það er augljóst að frásögnin tekur á.

„Við vorum búin að búa hérna í tvær vikur, sonur minn er tveggja mánaða og ég í fæðingarorlofi og alltaf heima. Mér datt ekki í hug að þetta yrði fimmti staðurinn sem hann kæmi á.“


„Lögreglan sagðist ekkert geta gert nema ég væri með myndband eða myndir."


Aðspurð segist Elísabet ekki óttast viðbrögð hans í þetta sinn.

„Meðvirkni mín og þolinmæði er gjörsamlega á þrotum. Ég hef oft hugsað um að segja mína sögu en alltaf fundið ástæðu til að gera það ekki.

En núna fékk ég nóg. Hann er ekki bara að mæta fyrir utan hjá mér heldur á ég núna mann og börn.

Eiga börnin mín að alast upp við að mamma eigi eltihrelli sem er með hana á heilanum? Nei,“ segir Elísabet ákveðin og óhrædd.

Athugasemdir