Berglind hefur lengi haldið úti vefsíðunni Gotterí og gersemar þar sem hún birtir reglulega girnilegar uppskriftir. Hún er jafnframt þriggja barna móðir og segist leyfa dætrunum að taka þátt í eldamennsku og bakstri allt frá því að þær geti staðið uppi á stól og sýni því áhuga að taka þátt.

„Það er pínu þannig að maður þarf að velja hvenær hentar að leyfa börnunum að taka þátt. Stundum er maður auðvitað bara á síðustu stundu að græja kvöldmatinn, í veisluundirbúningi eða öðru og ekki endilega það besta að fá litlar hendur með til að aðstoða þá, nema þær séu þá aðeins komnar með reynslu,“ segir Berglind, aðspurð hvenær sé helst tími til að leyfa litlum höndum að taka þátt.

Það þarf að gefa sér tíma til að kenna þeim og vera tilbúinn í sóðaskapinn með þolinmæðina að vopni þegar þau eru ung,“ segir hún í léttum tón.

„Því er gott að ákveða einfaldar uppskriftir til að byrja með og leyfa þeim að gera það sem þau geta sjálf og aðstoða við annað og velja tíma sem hentar öllum til að eiga slíkar gæðastundir.“


Lúxus þegar þau geta bakað sjálf


„Síðan eldast þau og verða meira sjálfbjarga, eins og Elín Heiða er orðin núna og þá er svo mikill lúxus að leyfa þeim að baka og elda fyrir sig og finna það að hægt er að treysta þeim í eldhúsinu,“ segir Berglind, en bætir við að stundum séu bökuð vandræði og uppskriftir misheppnist. „Það er allt partur af prógramminu en öðruvísi lærum við víst ekki og þá gengur bara betur næst.“

Elín Heiða bakar með móður sinni í nýútkominni bókinni og þegar þær eru spurðar hvað þeim finnist skemmtilegast að baka saman, svarar Elín Heiða piparkökur án þess að blikna, enda svo gaman að skreyta þær.


„Við höfum prófað nokkur mismunandi piparkökudeig en síðan má líka alveg kaupa bara tilbúið deig og fletja það beint út fyrir þá sem hafa minni tíma. Þetta snýst fyrst og fremst um samveruna og skreytingarnar, stelpurnar mínar elska að skreyta með glassúr,“ segir Berglind.

„þetta snýst fyrst og fremst um samveruna og skreytingarnar, stelpurnar mínar elska að skreyta með glassúr."

Þær mæðgur baka nokkuð oft og koma brauðbollur fyrst í hugann þegar þær eru spurðar hvað sé algengast.

„Við gerum þær oft um helgar þegar tíminn er nægur og kósí að byrja daginn á því að dúllast í því og bjóða síðan upp á dásamlegheitin í hádegismatnum.“

Berglind segir dæturnar hafa gaman af því að útbúa einhverjar fígúrur úr bollunum og raði þeim oftar en ekki í snák, blóm eða eitthvað annað sniðugt.

Snákabollur

Einfaldar brauðbollur verða klárlega meira spennandi fyrir börn í snákalíki. Þeim finnst líka skemmtilegra að fá að baka þegar það má leika sér aðeins með hráefnið. Á þessu heimili eru oft búin til blóm, jólatré eða snákar úr bolludeigi og útkoman er alltaf jafn dásamleg.

18-20 stykki

120 g smjör

350 ml nýmjólk

1 poki þurrger (11,8 g)

100 g sykur

670 g hveiti

1 tsk. salt

1 pískað egg

Rúsínur

Ávaxtalengja

Sesamfræ og matarlitur

Bræðið smjörið í potti og hellið mjólkinni saman við þegar bráðið. Hitið saman við vægan hita þar til ylvolgt (hægt er að setja fingurinn ofan í án þess að finnast blandan heit).

Hellið mjólkurblöndunni þá yfir í skál/könnu og hrærið þurrgerinu saman við, leyfið að standa á meðan annað er undirbúið.

Setjið hveiti, salt og sykur í hrærivélarskálina, gott að nota krókinn til að hnoða.

Hellið mjólkurblöndunni varlega saman við og hnoðið þar til slétt og fín deigkúla hefur myndast.

Gott er að hafa deigið eins klístrað og þið komist upp með, án þess þó að það festist við alla fingur og fleti. Stundum þarf að bæta smá hveiti við en reynið að sleppa við það.

Smyrjið stóra skál að innan með matarolíu, hnoðið deigið stutta stund í höndunum og veltið næst upp úr olíunni í skálinni, plastið skálina og leyfið að hefast í 1 klukkustund.

Skiptið deiginu þá niður í 18-20 einingar, rúllið í bollur og mótið snák á bökunarpappír á bökunarplötu, gott að hafa um ½ cm á milli bollanna.

Hefið aftur í um 30 mínútur og hitið ofninn á meðan í 210°C.

Penslið með pískuðu eggi, stráið sesemfræjum yfir og stingið rúsínum hingað og þangað til að skreyta snákinn. Hægt er að nota ávaxtastöng til að skera út fyrir tungu.

Til þess að lita sesamfræ má setja nokkra dropa af matarlit í bolla og hella sesamfræjum ofan í og hræra saman með skeið. Passa bara að hafa mjög lítinn lit svo þau verði ekki blaut. Gott að hella þeim síðan á pappír og leyfa þeim að þorna þannig áður en þau eru notuð.

Bakið í um 10-12 mínútur eða þar til bollurnar gyllast.