Í verk­efninu Spretti í HÍ fá fram­halds­skóla­nem­endur af er­lendum upp­runa stuðning í gegnum fram­halds­skólann til að undir­búa þau fyrir frekara nám í há­skóla. Þau fá öll sinn eigin mentor sem að­stoðar þau við heima­vinnu og annað sem þau þarfnast að­stoðar við. Nú er leitað að 20 nýjum nem­endum í verk­efnið fyrir næstu fjögur ár.

Síðasta árið hafa tíu nem­endur af er­lendum upp­runa tekið þátt í nýju verk­efni í Há­skóla Ís­lands þar sem þeim er veittur stuðningur í fram­halds­skóla til að undir­búa sig fyrir há­skóla­nám. Nem­endur hittast þrisvar í mánuði og fá öll sinn eigin mentor, eða leið­beinanda.

„Það snýst um að styðja fram­halds­skóla­nem­endur með inn­flytj­enda­bak­grunn til há­skóla­náms. Við viljum stuðla að því að fjöl­breyttari nem­enda­hópur komi í há­skólann og styðja við nem­endur með inn­flytj­enda­bak­grunn,“ segir Rakel Ósk Reynis­dóttir, fjöl­menningar­full­trúi Há­skóla Ís­lands.

Hún segir að verk­efnið sé liður í jafn­réttis­á­ætlun skólans og taki til­lit til hærra hlut­falls inn­flytj­enda í sam­fé­laginu en, árið 2020 voru er­lendir ríkis­borgarar 13,5 prósent mann­fjölda á Ís­landi sam­kvæmt Hag­stofu Ís­lands.

„Þetta snýst í raun um jafn­rétti. Jafna mögu­leika til náms og sam­fé­lags­þátt­töku og at­vinnu­lífs,“ segir Rakel Ósk.

Þær Salvör Ís­berg, verk­fræði­nemi, og Sunn­eva Líf Alberts­dóttir hafa báðar verið leið­bein­endur í Spretti síðasta árið og sjá fram á að halda á­fram þeirri þátt­töku og jafn­vel taka að sér fleiri nem­endur í einu.

„Við vorum valin inn í verk­efnið þannig að við myndum passa vel við einn nemanda. Að á­huga­mál pössuðu saman. Eitt­hvað sem við áttum sam­eigin­legt. Við sjáum svo um sam­veru­stund einu sinni í mánuði þar sem við gerum eitt­hvað skemmti­legt. Þau fá yfir­leitt að velja, krakkarnir. og það er þá ekki eitt­hvað sem tengist náminu,“ segir Sunn­eva Líf.

Flestir muna eftir því í mennta­skóla að hafa fengið mömmu eða pabba til að lesa yfir rit­gerð en þarna ertu með nem­endur þar sem for­eldrar þeirra tala kannski ekki ís­lensku reglu­lega og þá er gott að ein­hver annar geti lesið yfir

Vilja vera já­kvæðar fyri­myndir

Ung­mennin mæta í mál­stofur þar sem þau fá stuðning með námið. Reglu­lega eru heima­vinnu­hópar þar sem þau mæta með það sem þau eru að læra hverju sinni og þurfa að­stoð með.

„Við styðjum þau fé­lags­lega og þetta snýst að miklu leyti um að vera góð fyrir­mynd,“ segir Sunn­eva Líf.

Rakel Ósk tekur undir þetta og segir að það að vera já­kvæð fyrir­mynd sé í raun stór hluti af verk­efninu.

„Þau sjá að mentorunum gengur vel í skólanum, í fé­lags­lífi og þannig sýna þau nem­endunum hvað gæti orðið.“

Spurðar um hvernig verk­efni þær leysi með ung­mennunum segja þær að þau séu alls­kyns. Salvör tekur dæmi um að einn nemandinn hafi mætt með stærð­fræði­dæmi og að stundum komi þau með rit­gerðir. Þær hafi tekið eftir því og heyrt hjá börnunum að þeim finnist stundum ó­þægi­legt að þurfa að leita til kennarans með dæmi eða náms­efni sem þá vantar að­stoð með, fyrir framan hina nem­endurna. Þá sé gott að geta leitað utan skólans til mentorsins.

„Flestir muna eftir því í mennta­skóla að hafa fengið mömmu eða pabba til að lesa yfir rit­gerð en þarna ertu með nem­endur þar sem for­eldrar þeirra tala kannski ekki ís­lensku reglu­lega og þá er gott að ein­hver annar geti lesið yfir,“ segir Salvör.

Rakel Ósk segir að for­eldrar alla þeirra sem taka þátt séu af er­lendu bergi brotnir, að mörg þeirra eigi í vand­ræðum með ís­lensku, hafi ekki gengið í há­skóla og hafi tak­markaða reynslu af ís­lenska skóla­kerfinu. Því geti þau oft ekki að­stoðað börnin sín með heima­vinnuna.

„Þess vegna finnst þeim gott að geta komið til okkar,“ segir Rakel Ósk.

Að­eins 22 prósent út­skrifast

Hluti af verk­efninu eru menningar­legir við­burðir og er því reglu­lega farið á söfn og leik­hús og annað slíkt. Þær segja mis­jafnt hversu mikla reynslu ung­mennin hafa af slíku. Alveg eins og er með önnur ung­menni.

„Þetta snýst líka um að hvetja þau og styðja, bæði náms- og fé­lags­lega,“ segir Rakel Ósk.

Spurðar af hverju þær sóttu um að vera mentorar segir Sunn­eva Líf að hún hafi áður verið mentor í sál­fræðinni, sem hún er að læra, og svo hafi hún farið út sem skipti­nemi til Hollands og upp­lifað sig pínu­lítið utan­gátta en að það hafi hjálpað mikið að vera með mentor sem skildi menninguna.

„Mér fannst mikil­vægt að leggja mig fram um að gefa til baka og hjálpað öðrum. Mér þykir verk­efnið líka mjög mikil­vægt. Af þeim nem­endum af er­lendum upp­runa sem hófu nám í mennta­skóla árið 2010 út­skrifuðust að­eins um 22 prósent sam­kvæmt tölum frá 2017. Þetta er svo lágt hlut­fall,“ segir Sunn­eva Líf.

Salvör hefur áður verið sjálf­boða­liði fyrir Rauða krossinn þar sem hún sinnti heima­náms­að­stoð fyrir bæði ís­lensk börn og börn af er­lendum upp­runa.

„For­eldrarnir eru oft ekki með menntun. Ung­mennin ætla sér kannski bara að klára grunn­skóla og finna sér svo vinnu. Þau sjá bara ekkert annað. Þannig að mig langaði að hafa á­hrif á það. Auk þess sé ég alveg að í verk­fræðinni er hópurinn mjög eins­leitur og því þarf að breyta,“ segir Salvör.

Þær telja allar að það gagnist öllu sam­fé­laginu ef at­vinnu­markaðurinn er fjöl­breyttari og starfs­stéttirnar sem þar eru.

Nemendur fá stuðning síðustu þrjú árin í menntaskóla og fyrsta árið í háskóla.
Fréttablaðið/Anton Brink

Leita að 20 nýjum nem­endum

Nú er verið að leita að 20 nýjum nem­endum til að hefja þátt­töku næsta haust og taka þátt næstu þrjú árin. Ekki var hægt að taka inn alla sem vildu síðast en þá voru að­eins teknir inn tíu nem­endur.
Reynt er að passa í pörun á nem­endum og mentorum að þau eigi sér ein­hver sam­eigin­leg á­huga­mál. Salvör og Sunn­eva Lif segja báðar að það hafi auð­veldað þeim vinnuna í upp­hafi en telja þó að þær gætu lík­lega fundið eitt­hvað til að tala um þótt ekki hefði eins mikið verið lagt í pörun.

Spurðar um á­hrif verk­efnisins á ung­mennin sjálf segja þær þau marg­vís­leg, bæði náms- og fé­lags­leg.

„Mér finnst ég sjá á þeim að þeim finnist þetta skemmti­legt og að þau séu opnari fyrir frekara námi og öðrum mögu­leikum. Þau sjái annað fyrir sér en þegar þau byrjuðu,“ segir Sunn­eva Líf.

Þær segja að þær telji að þetta hafi líka opnað fyrir þeim hvers konar nám er gott að fara í. Margir hafi verið ein­beittir á hefð­bundnar greinar eins og lög­fræði en svo núna líti þau einnig til verk­fræðinnar eða annarra raun­greina.

„Þau fá nýjar hug­myndir og opna hugann. Þetta er svo­lítið eins og bekkur og þau kynnast því líka vel inn­byrðis. Sum eru orðin vinir,“ segir Rakel Ósk.

Nem­endur sem taka þátt eru studdir bæði fé­lags­lega og fjár­hags­lega. Þau geta sótt um sem eru í 10. bekk, ætla í fram­halds­skóla næsta haust, hafa gaman af námi, eru með inn­flytj­enda- eða flótta­manns­bak­grunn eða koma úr fjöl­skyldu þar sem fáir eða enginn er með há­skóla­menntun. Nánari upp­lýsingar er að finna á hi.is/sprettur.

Tuttugu nem­endur verða valin til að taka þátt í fjögur ár, þar af þrjú í fram­halds­skóla og svo fyrsta árið í há­skólanum. Kynja­skipting verður alveg jöfn.