Samstöðumótmæli vegna George Floyd fara nú fram á Austurvelli. Hópurinn sem skipuleggur mótmælin samanstendur af Bandaríkjamönnum, Bretum og Íslendingum sem segjast ósáttir við hið rótgróna kerfi sem byggir á yfirburðum hvítra þar sem svart fólk er ítrekað myrt.

„Mótmælin eru fyrst og fremst til að sýna samstöðu með svörtu fólki um allan heim, en sérstaklega með svörtu bræðrum okkar og systrum í Bandaríkjunum. George Floyd var myrtur og maðurinn sem drap hann var handtekinn nýlega en við viljum fleiri handtökur og ákærur og Ísland verður að sýna umheiminum hvar þau standa í baráttunni. Að vera þögul er ekki valmöguleiki,“ segir Asantewa Feaster, einn skipuleggjenda mótmælanna, í samtali við Fréttablaðið.

Frá Austurvelli í dag. Mótmælendur héldu á skiltum og klæddust peysum með lokaorðum George Floyd: „Ég get ekki andað.“
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Asantewa er frá Brooklyn í New York. Fjölskylda hennar og vinir vestanhafs mótmæla á götunum úti og segir Asantewa erfitt að vera aðskilin þeim um þessar mundir. Búið er að koma á útgöngubanni í nokkrum ríkjum og geta því mótmælendur ekki verið lengur en til klukkan 20:00 að mótmæla.

„Ég vil bara að fjölskylda mín upplifi öryggi.“

Ofsareiði er eðlilegt viðbragð við óréttlæti

Asantewa segist vonsvikin út í bandarísku ríkisstjórnina og hræðilegt að sjá morðingja leika lausum hala vegna stöðu þeirra innan lögreglunnar.

„Hvítt fólk getur hjálpað með því að hlusta. Með því að nýta forréttindi sín og rétta svörtu fólki hljóðnemann.“

„Bandaríska ríkisstjórnin er að senda út herinn á móti ríkisborgurum sínum. Þetta er hræðileg leið til að bregðast við reiðinni sem hefur blossað upp eftir að maður var myrtur. Þetta er ekki slys, þetta er kerfisbundið ástand og því miður þá leika margir gerendur, margir lögregluþjónar, enn lausum hala,“ segir Asantewa.

„Geor­ge Floyd er ekki fyrsti maðurinn sem var myrtur af lög­reglu­þjóni og þetta er ekki í fyrsta sinn sem fólk hneykslast yfir því að svartur maður hafi verið myrtur. Philando Casti­le var skotinn til dauða af lög­reglu­þjóni sem er enn ekki búið að fangelsa. Breonna Taylor var skotinn átta sinnum meðan hún svaf og manneskjan sem myrti hana er ekki í fangelsi. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem svona gerist. Því miður. Ég vildi óska þess að þetta verði síðasta at­vikið en því miður þá munu þessar sögur endur­taka sig. Við þurfum að mót­mæla meira og þurfum að brenna meira. Þetta eru eðli­leg við­brögð. Ofsa­reiði er eðli­legt við­bragð þegar ein­stak­lingur er myrtur og morðinginn sleppur við hegningu. Þegar enginn er látinn bera á­byrgð.“

„George Floyd er ekki fyrsti maðurinn sem var myrtur af lögregluþjóni og þetta er ekki í fyrsta sinn sem fólk hneykslast yfir því að svartur maður hafi verið myrtur.“
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Kerfisbundið, ekki handahófskennt

Asantewa segir að Íslendingar geti kynnt sér málið með því að ræða við fólk. Margir fái rangar upplýsingar í bergmálsklefa samfélagsmiðla en hægt sé að nálgast réttar upplýsingar ef einstaklingar virkilega vill kynna sér kröfur mótmælenda og stöðu svartra í Bandaríkjunum og víða um allan heim.

„Hvítt fólk verður að hlusta. Ef svart fólk er að segja þér frá reynslu sinni, ekki gera lítið úr þeim. Ekki draga sögur þeirra í efa. Þetta misrétti er kerfisbundið, ekki handahófskennt.“

Aðspurð um stöðuna á Íslandi segir Asantewa að ákveðið útlendingaandúð hafi fest rætur sínar í samfélaginu.

„Hér á Íslandi er meira um útlendingaandúð frekar en kynþáttahatur. Íslendingar vilja skera sig frá öðrum. Það er auðvelt að bera kennsl á svart fólk sem útlendinga vegna litarhafts og þannig verðum við fyrir mismunun. Auðvitað er ekki allir kynþáttahatarar hér á Íslandi en jú, ég hef fundið fyrir mismunun. Og ég er ekki ein um það. Það verður aldrei til fullkomið kerfi en hvítt fólk getur hjálpað með því að hlusta. Með því að nýta forréttindi sín og rétta svörtu fólki hljóðnemann.“