Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, segir þróunina undanfarna daga minna á upphaf faraldurs.

Sé staðan borin saman við þá sem uppi var í byrjun mars þegar kórónaveiran hóf fyrst útbreiðslu hér á landi blasi við ófögur mynd.

„Þetta lítur ekkert vel út og kannski verr en ég átti von á,“ segir Thor í samtali við Fréttablaðið en hann var hluti af hópi vísindamanna sem útbjó spálíkan fyrir heilbrigðisyfirvöld í vor.

Thor áréttar að enn sé of snemmt að segja til um hvort að önnur bylgja faraldursins sé hafin hér á landi. Til þess þurfi frekari gögn og ætti myndin að skýrast á næstu 7 til 14 dögum. Nú sé þó mjög mikilvægt að vakta stöðuna vel.

„Maður er farinn að hafa áhyggjur af því hvort þetta sé að fara að breiðast út.“

Myndin sem Thor tók saman í gær til að bera saman stöðuna frá 4. mars annars vegar (bylgja 1) og 23. júlí hins vegar (bylgja 2). Á efri myndinni eru einungis talin innanlandssmit en á þerri neðri eru smit að utan talin með í bylgju 1.
Mynd/Thor Aspelund

Útbúa nýtt spálíkan

Á mynd sem Thor birti í gær er fjölda nýrra innanlandssmita frá 23. júlí (þegar þeim tók aftur að fjölga til muna) stillt upp við þróunina frá 4. mars (þegar fyrsta innanlandssmitið var dagsett). Hann segir fólk þó þurfa í bíða í um tvær vikur áður en hægt er að úrskurða hvert faraldurinn stefnir.

„Ég er búinn að vera að horfa á tölurnar og það komu alveg dagar í júlíbyrjun þar sem nokkrir voru að greinast og svo kom ekkert í kjölfarið. Ég hélt kannski að það væri að koma annar svona kafli en núna er það ekki þannig, þetta heldur bara áfram.“

Rannsóknarteymið sem útbjó spálíkanið fyrr á árinu er byrjað að bera saman bækur sínar á ný að beiðni sóttvarnalæknis. Er stefnt að því að birta nýtt spálíkan á næstunni en hið fyrra reyndist vera mjög sannspátt í vor.

Sumt líkt og annað ólíkt

Að sögn Thors er það líkt núna með þróuninni í mars að einnig sé verið að glíma við hópsmit.

„Núna er kannski ólíkt, eins og Kári [Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar] hefur verið að hamra svolítið á, að það er fullt af smitum sem eru ótengd. Þannig að það er kannski fyrr núna en það var síðast.“

Slíkt vekur upp spurningar um það hvort veiran sé útbreiddari en við séum búin að gera okkur grein fyrir

„Þá hljóta að vera einhverjar manneskjur þarna á milli sem eru veikar og við vitum ekki um þær. Þetta er frekar erfitt ástand núna og við þurfum að fara svolítið varlega.“

Einnig sé áhyggjuefni að færri séu að greinast í sóttkví núna en í mars.

„Síðast gátum við gripið fólkið í tengslum við þessar ferðir en núna eru þetta aðeins öðruvísi aðstæður.“

„Það kæmi mér samt ekkert á óvart að það myndi snúast við fljótlega, ég hef alveg trú á því,“ sagði Thor stuttu áður en tilkynnt var að fimm af þeim átta sem greindust með innanlandssmit í gær hafi verið í sóttkví.