Breytingar á skipu­lagi og fram­kvæmd leg­háls­skimana voru til um­ræðu á Al­þingi í dag en að­gerðar­hópurinn Að­för að heilsu kvenna sendi frá sér yfir­lýsingu um málið fyrr í dag þar sem ferlið í kringum greiningu sýnanna voru harð­lega gagn­rýnd. Heilsu­gæslan tók við skimununum um ára­mótin en sýnin eru send til Dan­merkur til greiningar.

„Þegar fyrstu sýnin voru send til Dan­merkur var aug­ljós­lega ekki búið að sam­ræma og skipu­leggja þá ferla sem eiga að vera til staðar til þess að skimunin og miðlun niður­staðna gangi snurðu­laust fyrir sig. Nú að mörgum mánuðum liðnum hefur lítið skýrst í þeim efnum og í mörgum til­vikum eru konur og fag­aðilar jafn­vel enn ekki búin að fá upp­lýsingar um niður­stöður rann­sókna,“ segir í yfir­lýsingu hópsins.

Að sögn hópsins hefur Heilsu­gæslan miðlað upp­lýsingum seint og illa og hefur það leitt til mikillar ó­vissu og ó­þæginda fyrir þær sem stóla á þjónustuna. Sumar konur sem fóru í skimun í nóvember í fyrra hafa ekki enn fengið niður­stöður og aðrar fá þær niður­stöður að þær þurfi að fara í frekari rann­sóknir.

„Slík fram­kvæmd er með öllu ó­boð­leg, bæði konum og að­stand­endum þeirra sem og læknum þeirra nú í sumar­byrjun 2021,“ segir í yfir­lýsingunni og því bætt við að miklum fjár­hæðum hafi þegar verið eytt í ó­full­nægjandi kerfi .„Ó­hætt er að full­yrða að nú­verandi staða er með öllu ó­við­unandi og tryggir hvorki öryggi né gæði sem á­skilin eru í starf­semi af þessu tagi.“

„Biðin eftir niður­stöðum úr sýna­töku er allt of löng og komið hefur í ljós að ef kona þarf í frekari rann­sóknir eða að­gerð eftir að niður­stöður berast er biðin einnig allt of löng. Ljóst er að hvorki heil­brigðis­ráðu­neytið né heilsu­gæslan hafa metið á­hættuna af þeim breytingum sem hafa verið gerðar og staða verk­efnisins er því miður enn í al­gjörum molum,“ segir að lokum í yfir­lýsingunni.

Vantar allt samtal

Meðal þeirra þing­manna sem gagn­rýndu ferlið á Al­þingi í dag voru Þor­björg Sig­ríður Gunn­laugs­dóttir, þing­maður Við­reisnar, og Helga Vala Helga­dóttir og Rósa Björk Brynjólfs­dóttir, þing­menn Sam­fylkingarinnar.

Þor­björg vísaði til þess að í upp­hafi mars­mánaðar hafi hún, á­samt öðrum þing­mönnum, óskað eftir að skýrsla yrði gerð um breytingarnar en ekkert hafi enn sem komið er heyrst af vinnu við slíka skýrslu, nú átta vikum síðar. „Það vantar allt sam­tal, sam­tal við konur sem eiga allt undir þessari þjónustu að þakka og sam­tal við kerfið sjálf,“ sagði Þor­björg á Al­þingi í dag.

Rósa Björk sagði enn fremur að „ó­fremdar­á­stand“ hafi ríkt í kringum skimanirnar. „Fram­kvæmdin hefur verið klúðurs­leg og illa skipu­lögð og um­fram allt illa kynnt fyrir konum sem hefur valdið ó­öryggi meðal þeirra og van­trausti þeirra á kerfið sem á að þjóna konum og þeirra heil­brigði.“

„Þetta klúður hefur reynst af­drifa­ríkt og nú er svo komið að að­gerða­hópur rúm­lega fjór­tán þúsund kvenna og að­stand­enda þeirra, sem hóf undir­skrifta­söfnun fyrir rúmum tveimur mánuðum, sendir frá sér frétta­til­kynningu í dag vegna þess að konur voru enn ekki búin að fá niður­stöður í sínum rann­sóknum á þessu ári,“ sagði Rósa.

Helga Vala tók í svipaða strengi en hún sagði að sí­fellt fleiri konur séu í full­kominni ó­vissu. „Að fjöl­margar konur séu ekki búnar að fá nein svör nánast allt þetta ár, eftir sýna­tökur í janúar eða febrúar, er af­leit þjónusta í boði ríkis­stjórnarinnar sem getur ekki skorast undan á­byrgð. Að svör berist seint og illa til kvenna sem bíða niður­stöðu leiðir til mikillar van­líðunar hjá þessum konum.“