Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segir forstjóra Útlendingastofnunar, Ríkislögreglustjóra og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra, skýla sér bak við það að eindregin tilmæli ljósmæðra, um að hún ætti erfitt með langt flug, hafi ekki verið nógu skýr til þess að senda hana ekki í 19 klukkutíma ferðalag. Tekist var á um málefni innflytjenda í sérstakri umræðu á Alþingi í dag.

„Þetta kalla ég algjöran fyrirslátt og frekar fyrirlitlegt. Ég held að það sé hver maður sem getur skilið það að 19 tíma ferðalag geti kallast langt flug,“ sagði Þórhildur.

Útlendingastofnun sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem fram kom að stoðdeild Ríkislögreglustjóra, sem sér um að flytja fók frá landi, hafi ekki aðgang að sjúkraskrám og reiði sig því á útgefin vottorð lækna.

„Það er reynsla stofnunarinnar hingað til að þegar læknar telji óráðlegt af heilbrigðisástæðum að einstaklingur sé fluttur úr landi með flugi þá sé kveðið á um það með skýrum hætti í vottorði og er framkvæmd flutnings frestað í slíkum tilvikum,“ segir í tilkynningunni.

Töldu hana ekki vera í hættu

Stofnunin telur að vottorð lækna hafi ekki sýnt fram á að brottvísun konunnar myndi stefna öryggi hennar í hættu; ljóst hafi verið fyrir lögreglumönnum að fyrirhugaður flutningur væri hvorki „óráðlegur“ né myndi stefna öryggi hennar í hættu og var því ákveðið að fresta flutningum ekki.

Samtökin No Borders birtu hins vegar mynd af vottorði albönsku konunnar en þar kemur fram að konan sé slæm af verkjum og að hún ætti erfitt með langt flug.

Stofnunin ítrekar að framkvæmd málsins hafi verið í samræmi við stefnu stjórnvalda um mannúðlega og skjóta afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd.

Heil­brigðis­yfir­völd í Albaníu undir­búa nú mögu­lega fyrir­bura­fæðingu konunnar en hún hefur verið með mikla samdrætti eftir langt ferðalag.

Hvaða hagsmunir voru í fyrirrúmi?

Þórhildur Sunna velti upp spurningum hvort lögreglumennirnir á vettvangi, sem fluttu fjölskylduna, hafi verið með munn.

„Hefðu þeir ekki spurt? Hefðu þeir ekki beðið um skýringar ef hagsmunir hennar væru virkilega í fyrirrúmi?“ spurði Þórhildur Sunna á sérstakri umræðu um málefni innflytjenda á þingfundi í dag.

Stofnunin hefur óskað eftir fundi með embætti landlæknis til að fara yfir málið sem og almennt um það með hvaða hætti skuli standa að öflun læknisvottorða vegna slíkra mála.