„Ég fékk fréttir af honum í gær, eftir að ég birti þessa færslu, og mér skilst að hann sé við á­gætis heilsu en hruflaður og eitt­hvað skaddaður á hné og and­liti,“ sagði Her­mann Guð­munds­son, for­stjóri heild­sölunnar Kemi, í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Her­mann skrifaði færslu á Face­book-síðu sína í gær sem vakti tals­verða at­hygli um að­stæður á Kefla­víkur­flug­velli. Her­mann segir að það hafi verið hressandi að koma til landsins í frostinu á laugar­dag eftir að hafa dvalið í nokkrar vikur í sólinni á Flórída. Skugga hafi þó borið á heim­komuna varðandi það hvernig staðið var að af­fermingu í fluginu.

Skall með andlitið í planið

„Vélin var sett á úti­stæði og þrátt fyrir að það væri vitað með góðum fyrir­vara þá var engin rúta mætt til að sækja far­þega, eftir langt flug þá er öllum far­þegum mikið í mun að komast frá borði enda þreyta í mann­skapnum eftir að hafa flogið alla nóttina,“ sagði Her­mann.

Rúta kom loks á svæðið og þá var búið að keyra tröppurnar að hurðinni og hún opnuð.

„Fólk sem var fyrir aftan okkur fór fyrst frá borði, hér var um að ræða öldruð hjón sem áttu erfitt með gang,“ lýsti Her­mann í færslu sinni. Hann sagði að konan hafi verið með göngu­staf og ríg­haldið í hand­riðið en maðurinn verið með sitt hvora hand­töskuna í höndunum og gengið á undan henni. Þegar tvö þrep voru eftir sást að snjór og bleyta voru í þrepunum.

„Það næsta sem gerist er að gamli maðurinn missir fótanna í bleytunni og fellur fram­fyrir sig og skellur með and­litið í flug­planið enda með báðar hendur bundnar við töskurnar. Far­þegar þustu niður tröppurnar til að hlúa að manninum sem var illa brugðið og hafði greini­lega fengið tals­vert höfuð­högg,“ sagði Her­mann í færslunni. Hann bætti við að aðrir far­þegar hafi tekið konuna að sér og séð til þess að hún kæmist klakk­laust niður á jafn­sléttu.

Mildi að maðurinn skildi ekki stórslasast

„Punkturinn er sá að þessar að­stæður henta afar illa þeim sem erfitt eiga með gang eða nota hjóla­stóla. Þar til úr verður bætt þá þarf starfs­fólk til að sinna far­þegum og tryggja þeim örugga leið frá borði,“ sagði Her­mann í færslunni.

Í við­talinu í Bítinu í morgun sagði Her­mann að það hafi vakið at­hygli hans að enginn starfs­maður hefði verið á svæðinu til að­stoðar eða sjá til þess að allt gengi eðli­lega fyrir sig. „Þarna þurfti far­þega til að hlúa að manninum og koma honum á fætur,“ sagði Her­mann sem sagði mikil mildi að maðurinn skuli ekki hafa stór­slasast. „Þetta hefði getað verið ban­vænt ef því er að skipta.“

Hann bætti við þessar úti­að­staða sé ekki boð­leg í þeirri veðráttu sem við eigum að venjast hér á landi á veturna. „Ef við þetta hefði bæst það vonsku­veður sem var í gær þá hefði ég ekki boðið í það.“

Hér má hlusta á við­talið við Her­mann. Færslu hans á Face­book má lesa hér að neðan.