Daniel Hoff­man, fyrr­verandi full­trúi banda­rísku leyni­þjónustunnar í mál­efnum Rúss­lands, úti­lokar ekki að nánir banda­menn Vla­dimír Pútíns Rúss­lands­for­seta snúi við honum baki.

Hoff­man var í við­tali viðThe Daily Beast um helgina þar sem hann ræddi stríð Rússa í Úkraínu og stöðu Rúss­lands­for­seta í heima­landi sínu. Fari svo að á­ætlanir Rússa í Úkraínu fari út um þúfur gæti alveg farið svo að Pútín verði steypt af stóli, að sögn Hoff­mans. Með­limir úr innsta hring Pútíns gætu snúist gegn honum.

Hoff­man segir að eðli málsins sam­kvæmt yrði að­gerðin há­leyni­leg og að­eins á fárra vit­orði. Kæmist Pútín að því að til­ræði við hann eða valda­rán væri í upp­siglingu yrði hann fljótur að bregðast við og koma ó­vinum sínum fyrir kattar­nef. „Þetta gæti gerst mjög snögg­lega,“ segir hann.

Ronald Marks, annar fyrr­verandi full­trúi CIA, er ekki jafn viss um að hætta sé á að Pútín missi völdin í bráð. Þannig hafi Pútín tekist að hafa góða stjórn á sínum innsta hring og þegar losað sig við þá sem hann ber ekki fullt traust til.

„Ég held að hann sé öruggur svo lengi sem hann hefur öryggis­lög­regluna á bak við sig,“ segir hann. Marks telur þó að með­limir í innsta hring forsetans bregðist við með einhverjum hætti ef þeir telja að stríðið í Úkraínu tapist eða út­lit sé fyrir að á­tökin stig­magnist og fleiri þjóðir blandi sér beint í stríðs­á­tökin.

„Það er enginn að fara spyrja hann: Hey, Vla­dimír, ertu til í að láta af völdum? Nei, það verður bara hamar í hausinn og hann er dauður.“

Mark bætir við að þó að Pútín njóti enn stuðnings meiri­hluta rúss­nesku þjóðarinnar geti það breyst eins og allt annað. Vestur­veldin hafa beitt Rússa hörðum við­skipta­þvingunum og þær gætu farið að bíta á rúss­neska al­þýðu.

„Þegar fólk getur ekki nálgast mat­vörur á eðli­legan hátt, þegar hlutirnir verða erfiðir á þann veg, þá er hætta á fólk fari út á götur og láti í sér heyra.“