Kristján Þór Júlíus­son, sjávar­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra, segir að tíu milljarða króna skaða­bóta­krafan sem sjö út­gerðar­fé­lög krefja nú ís­lenska ríkið um, vegna út­hlutunar makríl­kvóta, sé takt­laus. Hann skorar á út­gerðar­fé­lögin til að draga kröfurnar til baka. Kröfur útgerðarfélagnna hafa verið harðlega gagnrýndar.

„Það er ó­um­deilt að fyrir­tækin eiga ó­skoraðan rétt að lögum að fylgja eftir niður­stöðu Hæsta­réttar og krefjast skaða­bóta. Hins vegar hefði verið fullt til­efni fyrir for­svars­menn þessara fyrir­tækja að taka önnur og mikil­vægari sjónar­mið til at­hugunar. Meðal annars þá stað­reynd að öll hafa fyrir­tækin fengið út­hlutað afla­hlut­deild í makríl með lögum sem Al­þingi sam­þykkti sl. sumar,“ segir Kristján Þór í sam­tali við Frétta­blaðið.

Út­gerðar­fé­lögin krefja ríkið um bætur vegna fjár­tjóns sem þau telja hafa orðið fyrir vegna út­hlutun á makríl­kvóta á árunum 2011 til 2018. Sam­tals nema kröfurnar 10,2 milljarðar króna auk þess sem krafist er hæstu mögu­legu vaxta. Skaða­bóta­skyldan var stað­fest í í Hæsta­rétti í desember 2018 gagn­vart tveimur út­gerðar­fé­lögum vegna þess að rang­lega hefði verið staðið að út­hlutun kvótann á árunum 2011 til 2013.

„Á sama tíma og þessi sjö fyrir­tæki hafa fengið rétt til veiða á makríl, sem sam­kvæmt lögum er sam­eign ís­lensku þjóðarinnar líkt og aðrir nytja­stofnar á Ís­lands­miðum, ætla þau að senda ís­lensku þjóðinni skaða­bóta­kröfu upp á milljarða eða tug milljarða. Þetta fram­ferði er að minni hyggju takt­laust og ber vitni um al­geran skort á auð­mýkt gagn­vart þeim réttindum sem fyrir­tækin hafa fengið út­hlutað og um leið gagn­vart al­menningi. Því er ég þeirrar skoðunar að þessi fyrir­tæki ættu að draga þessar kröfur til baka og skora raunar á þau að gera það,“ segir Kristján enn fremur.

Gylfi Magnússon fyrrverandi viðskiptaráðherra benti á að útgerðarfélögin hefðu fengið gefins kvóta sem metinn var á 65 til 100 milljarða króna í fyrra og væri að krefjast rúmra 10 milljarða af skatt­­fé auk hæstu mögu­­legra vaxta. Kallaði Gylfi Ís­lands­­met í græðgi. Bubbi Morthens var ósáttur við að á sama tíma og ís­lensk þjóð væri að takast á við kóróna­veiruna og eftir­köst hennar á efna­hags­lífið væri út­gerðar­auð­valdið að stinga þjóðina í bakið. Kristján Þór segir um milljarðakröfur útgerðarfélagana:

Spurður um hvort ríkis­stjórnin muni bregðast við þessum kröfum með ein­hverjum hætti segir Kristján það mál vera á for­ræði ríkis­lög­manns. „Ég ætla ekki að út­tala mig um við­brögð fyrr en endan­lega niður­staða í þessum málum liggur fyrir,“ segir Kristján.