Stór hluti vopnanna sem lög­reglan lagði hald á vegna rann­sóknar sinnar á saka­máli þar sem tveir eru grunaðir um hryðju­verk var lög­lega skráður. Þetta er meðal þess sem fram kom á blaða­manna­fundi lög­reglu.

Þar voru til svara yfir­lög­reglu­þjónarnir Grímur Gríms­son og Sveinn Ingi­berg Magnús­son. Stað­festi Grímur meðal annars að stærsti hluti vopnanna væri lög­lega skráður. Lögregla hafði til sýnis hluta vopnanna á blaðamannafundinum og má sjá myndir af þeim hér fyrir neðan.

„Það eru ekkert svo margar þrí­vídda­prentaðar byssur sem við höfum höndlað. Þær eru ör­fáar. Stór hluti vopnanna eru verk­smiðju­fram­leidd,“ segir Grímur.

Þá hafi lög­regla fram­kvæmt sau­tján hús­leitir. „Við þessar hús­leitir hafa fundist tugir skot­vopna. Sum vopnanna voru sett saman með þrí­víddar­prentuðum í­hlutum,“ segir Grímur.

„Sumum vopnanna var búið að breyta þannig að sumar voru orðnar hálf­sjálf­virkar. Slík skot­vopn eru mun hættu­legri en eins skota byssur.“

Hvatti lögregla að loknum blaðamannafundi almenning til að láta vita, sé hann með vitneskju um slík vopn. „Við viljum hvetja almenning til að veita upplýsingar til lögreglu vitið þið af slíkum vopnum í samfélaginu. Vitið þið af heimatilbúnum þrívíddarprentuðum vopnum, að þá setja sig í samband við lögreglu,“ segir Sveinn.

„Fréttir af svona máli virka stuðandi í okkar samfélagi, við eigum ekki þessu að venjast. Við vljum líka biðja fólk um að huga að því hvernig það ræðir þessi mál og gæta varkárni í því.“'

Mun taka lögreglu tíma

Sveinn segir umfang málsins þannig að það muni taka lögreglu nokkurn tíma að fara í gegnum gögn sem hafa verið haldlögð vegna málsins.

„Við erum með átta teymi sem eru að vinna í málinu. Skoða þarf þrívíddarprentarana, rafræn gögn og vopnin sem hafa verið haldlögð,“ segir Sveinn.

„Rannsóknin snýr meðal annars að því að finna magnið af íhlutum sem hafa verið prentaðir í þessum þrívíddaprenturum,“ segir Sveinn. „Það þarf enginn að efast um það að hægt er að framleiða hættuleg vopn með þessum hætti.“

Fréttablaðið/Valli
Fréttablaðið/Valli
Fréttablaðið/Valli
Fréttablaðið/Valli
Fréttablaðið/Valli