Guð­mundur Ingi Kristins­son, þing­maður Flokk fólksins, spurði Bjarna Bene­dikts­son, fjár­mála­ráð­herra, af hverju það er ekki hægt að bjóða fólki sem býr við sára fá­tækt hér­lendis að fá fimm daga gistingu á hóteli og fæði líkt og ferða­menn.

„Ein­stætt for­eldri sagði við mig ný­lega, hafra­grautur á morgnana og hafra­grautur seinni partinn eftir 15. hvers mánaðar þá eru fjár­munirnir búnir og þá getur við­komandi eftir að borga leigu og önnur út­gjöld ekki haft efni á öðru fæði,“ sagði Guð­mundur og bætti við að sá hinn sami borðar líka hafra­graut um helgar en þá fær hann sér þurrkaða á­vexti, rúsínur og kanil „til þess að fá til­breytingu og lúxus.“

„Þessi ein­stak­lingur og fleiri getum við ekki bara boðið þeim fimm daga hótel­vist og fæði vegna þess að við gerum það með ferða­menn,“ sagði Guð­mundur og bætti við að fimm dagar væru ekki nóg heldur ætti þetta fólk helst að fá að vera á hóteli helst fram yfir kosningarnar í haust.

Guð­mundur Ingi Kristins­son, þing­maður Flokk fólksins.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Bjarni svaraði á þá leið að það væri dá­lítið snúið að svara fyrir ein­stök dæmi þar sem maður veit ekki hverjar eru tekjurnar, tekju­straumarnir og hvort við­komandi hafi verið virkur á at­vinnu­markaði eða ekki.

„En ég get nefnt eitt dæmi hér að fyrir ein­stætt for­eldri með tvö börn þá hafa breytingar á barna­bótum í tíð þessarar ríkis­stjórnar styrkt stöðu ein­stæðs for­eldris með 300.000 kr. tekjur á mánuði um meira en 100.000 kr. á ári,“ sagði Bjarni.

„Það eru 100.000 kr. við­bótar barna­bætur á ári bara vegna breytinganna sem við í þessari ríkis­stjórn hefur verið að gera. Þetta skiptir máli. Ef hátt­virtur þing­maður vill mæla það í hafra­grauts­skálum þá eru þetta margar hafra­grauts­skálar.“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra
Fréttablaðið/Anton Brink

Guð­mundur undraði sig á því hvar fé hafi fengist til að standa að baki stuðnings­greiðslum og sótt­varnar­að­gerðum á síðusta ári og velti því upp af hverju slíkt fé hafi ekki verið tækt til að út­rýma sára fá­tækt. Bjarni sagði svarið vera ein­falt: „Við auð­vitað tókum lán.“

Bjarni sagði það væri hins vegar hár­rétt hjá Guð­mundi Inga að of margir ná ekki endum saman í ís­lensku sam­fé­lagi.

„En við höfum verið að styðja betur við bakið á þessum hópum. Við höfum gert það með ýmsum hætti. Við getum nefnt sem dæmi 4 milljarða sem við tókum sér­stak­lega til hliðar í þessari ríkis­stjórn í þessum til­gangi á þessu kjör­tíma­bili,“ sagði Bjarni og bætti við að aldrei hefur verið eytt jafn háum fjár­hæðum í þessa mála­flokka.