Gylltur platti með mynd af franska þinghúsinu, fjórar pólskar landsliðstreyjur, grænlenskir og indverskir hnífar og fullt af bókum eru á meðal gjafa sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur fengið það sem af er ári.

Í Fréttavaktinni í kvöld brást Katrín við nýrri skýrslu Samtaka ríkja gegn spillingu, GRECO, en í henni kemur fram að Ís­lenska ríkið hefur að­eins brugðist við sex af á­tján tilmælum samtakanna.

Eitt af því sem hefur þó verið uppfyllt eru tilmæli er varða gjafir til æðstu handhafa valds í landinu.

„Okkur ber öllum að skrá gjafirnar og ég hefa bara ákveðið að birta þann lista,“ segir Katrín um gjafirnar.

Hún hefur nú birt lista yfir gjafirnar fyrir þetta ár og árið þar á undan. Auk áðurnefndra muna mætti nefna myndskreyttan disk frá Nancy Pelosi, fyrrverandi forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, og fimm Múmín-bolla frá Sönnu Marin, forsætisráðherra Finnlands.

Árið á undan fékk hún freyðivínsflösku, leikfangabangsa og dagatal frá kínverska sendiráðinu og sjal frá sendiherra Rússlands. Þá fékk hún hleðslusnúrur á þjóðþingi Mónakó.

„Þetta eru nú mjög oft einhvers konar skrautmunir eða bækur, þannig það er bara hægt að kynna sér það,“ segir hún aðspurð um hvort þessir munir séu verðmætir.

Hægt er að sjá nánari umfjöllun um málið úr Fréttavaktinni hér fyrir neðan.

Listi yfir gjafir sem Katrín hefur fengið árið 2022

 • Gylltur platti með mynd af franska þinghúsinu. Gjöf frá vinahópi á franska þinginu, dags. 1. mars 2022.
 • Loftslagsréttur, bók eftir Hrafnhildi Bragadóttur og Aðalheiði Jóhannsdóttur. Gjöf frá höfundum, dags. 2. mars 2022.
 • Sturlunga saga I-III, bækur gefnar út af Hinu íslenzka fornritafélagi. Gjöf frá Halldóri Blöndal og Þórði Inga Guðjónssyni, dags. 29. mars 2022.
 • GO Thermal samfestingur. Gjöf frá Mxia Reykjavík, dags. 29. mars 2022.
 • Dauðinn og mörgæsin, bók eftir Andrej Kúrkov. Gjöf frá Bjarti/Veröld, dags. 29. mars 2022.
 • Allt og sumt, bók eftir Þórarin Eldjárn. Gjöf frá höfundi, dags. 6. apríl 2022.
 • Fjórar pólskar landsliðstreyjur. Gjöf frá Pólverjum, dags. 6. maí 2022.
 • Tveir miðar á leiksýninguna Framúrskarandi vinkona. Gjöf frá Þjóðleikhúsinu, 6. maí 2022.
 • Súkkulaði, bókin 100 Major Events of Hong Kong og mynd með skrautskrifuðu nafni ráðherra. Gjafir frá Annie Suk Ching Wu, dags. 17. maí 2022.
 • Slæða og selskinnsarmband. Gjafir frá grænlenska þinginu, dags. 17. maí 2022.
 • Grænlenskur hnífur. Gjöf frá Háskólanum í Nuuk, dags. 17. maí 2022.
 • Armband. Gjöf frá grænlenskri konu, dags. 17. maí 2022.
 • Stuttermabolur. Gjöf frá UN Women, dags. 30. maí 2022.
 • Ostakarfa. Gjöf frá Mjólkursamsölunni, dags. 2. júní 2022.
 • Gjafabréf í keilu. Gjöf fyrir þátttöku í Kappsmáli á RÚV, dags. 14. júní 2022.
 • Gjafapoki með ritföngum og brúsa. Gjöf frá Nevis Naturally, dags. 14. júní 2022.
 • Innrömmuð mynd og dúkur. Gjöf úr heimsókn til Evrópuráðsins í Strassborg, dags. 22. júní 2022.
 • Mynt slegin í tilefni þess að 275 ár voru liðin frá fæðingu Francisco de Goya. Gjöf frá spænskum stjórnvöldum, dags. 30. júní 2022.
 • Útskornir indverskir hnífar. Gjöf frá forsætisráðherra Indlands, dags. 4. júlí 2022.
 • Bókin Tæknitröll og íseldfjöll. Gjöf frá höfundi, Bryony Mathew, sendiherra Bretlands á Íslandi, dags. 11. ágúst 2022.
 • Blómvöndur. Gjöf frá garðyrkjustöðinni Espiflöt, dags. 17. ágúst 2022.
 • Bók um Edvard Munch. Gjöf frá Munch-safninu í Osló, dags. 18. ágúst 2022.
 • Bókin Sir Joseph Banks, Iceland and the North Atlantic 1772-1820. Gjöf frá Önnu Agnarsdóttur, ritstjóra bókarinnar, dags. 29. ágúst 2022.
 • Bókin Strand í gini gígsins. Gjöf frá höfundi, Ásmundi Friðrikssyni, dags. 30. ágúst 2022.
 • Kerti. Gjöf frá Vestfirðingum, dags. 5. september 2022.
 • Bókin 108 Days & Nights in a KGB Dungeon. Gjöf frá höfundi, Anatol Liabedzka, dags. 5. september 2022.
 • Rauðvínsflaska og mánakökur. Gjöf frá HE Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, dags. 7. september 2022.
 • Myndskreyttur diskur. Gjöf frá Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, dags. 22. september 2022.
 • Bókin Í orðamó. Gjöf frá höfundi, Sigurði Ingólfssyni, dags. 6. október 2022.
 • Vasi. Gjöf frá tékkneskum stjórnvöldum í tengslum við formennsku Tékklands í leiðtogaráði ESB, dags. 10. október 2022.
 • Skál. Gjöf frá þátttakanda á Arctic Circle, dags. 14. október 2022.
 • Glasamottur. Gjöf frá Douglas Elmendorf, rektor Harvard Kennedy School, dags. 14. október 2022.
 • Bókin Xi Jinping – Kínversk stjórnmál. Gjöf frá kínverska sendiráðinu, dags. 17. október 2022.
 • Skál. Gjöf frá Marie-Louise Coleiro Preca, fyrrverandi forseta Möltu, dags. 9. nóvember 2022.
 • Kaffi og te. Gjöf frá Bidya Devi Bhandari, forseta Nepal, dags. 10. nóvember 2022.
 • Bókin Undrabörn. Gjöf frá Steinunni fatahönnuði, dags. 22. nóvember 2022.
 • Fimm Múmín-bollar. Gjöf frá Sönnu Marin, forsætisráðherra Finnlands, dags. 22. nóvember 2022.
 • Slæða. Gjöf frá Tiny Kox, forseta Evrópuráðsþingsins, dags. 25. nóvember 2022. 

Listi yfir gjafir sem Katrín hefur fengið árið 2021

 • Listaverk. Gjöf frá Rakhee Shah, dags. 3. janúar 2021.
 • Bókin The New Systems Reader – Alternatives to a Failed Economy. Gjöf, dags. 25. janúar 2021.
 • Sjal. Afmælisgjöf frá sendiherra Rússlands. Dags. 1. febrúar 2021.
 • Bók með glæpasögum eftir Charles Willeford. Gjöf frá Jim Trupin, dags. 1. febrúar 2021.
 • 10.000 kr. gjafabréf og bökunardót. Gjafir vegna þátttöku í bökunarþætti Evu Laufeyjar Kjaran, dags. 1. mars 2021.
 • 20.000 kr. gjafabréf. Gjöf frá Fjallkonunni, dags. 1. mars 2021.
 • Bókin Engaging Worlds eftir Ruth Esther Gilmore. Gjöf frá höfundi, dags. 17. mars 2021.
 • Bókin Lessons Learned on Bay Street eftir Donald K. Johnson. Gjöf frá höfundi, dags. 3. maí 2021.
 • Bókin Writing in Ice: A Crime Writer‘s Guide to Iceland eftir Michael Ridpath. Gjöf frá höfundi, dags. 14. júní 2021.
 • Bókin Shooting Star of Telepathy eftir Vimal George (rafræn útgáfa). Gjöf frá höfundi, dags. 31. ágúst 2021.
 • Bókin Poetic Flower of Iceland eftir Sachin A. Naik. Gjöf frá höfundi, dags. 6. september 2021.
 • Bókin Áramótaveislan eftir Lucy Foley. Gjöf frá útgefanda, dags. 6. október 2021.
 • Bókin Þú sérð mig ekki eftir Evu Björg Ægisdóttur. Gjöf frá útgefanda, dags. 29. október 2021.
 • Slæða, veski og hleðslusnúrur. Gjafir frá þjóðþingi Mónakó, dags. 9. nóvember 2021.
 • Rauðvínsflaska og súkkulaði. Jólakveðja frá bandaríska sendiráðinu, dags. 12. desember 2021.
 • Sjö tækifæriskort. Gjafir frá Joel Patience, dags. 16. desember 2021.
 • Hvítvínsflaska. Jólagjöf frá kanadíska sendiráðinu, dags. 22. desember 2021.
 • Freyðivínsflaska, leikfangabangsar og dagatal. Jólagjafir frá kínverska sendiráðinu, dags. 2021.
 • Sex bækur úr bókaflokknum Stórir draumar. Gjöf frá útgefendum, dags. 22. desember 2021.