Hálfgert kviksyndi hefur myndast í Þingeyjarsveit eftir aurskriður sem féllu síðustu helgi.

Bændur í Kinn og Útkinn í Þingeyjarsveit hafa nú snúið aftur á heimahaga sína eftir að rýmingu var aflétt og geta nú virt fyrir sér túnin og skurðina. Nú þegar rykið hefur sest verður hægt að meta tjónið og ákveða næstu skref.

Enn er hættustig á svæðinu vegna skriðuhættu þrátt fyrir vatn í hlíðum hefur sjatnað mikið síðan á sunnudag.

Dagbjörg Jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, segir fyrsta mál á dagskrá að veita vatninu ákveðinn farveg, létta á bleytunni á vegum og túnum. Aur og leðja hafa stíflað skurðina og eru því túnin við bæina Björg og Nípá umflotin.

Hér má sjá stærstu skriðurnar á milli Nípár og Bjarga.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Ljóst er að stórt hreinsunarstarf sé framundan fyrir bæði ríki og sveitarfélag. Dagbjört hefur óskað eftir fundi í dag með Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Íslands, og þingmönnum eftir helgi til að fara yfir stöðuna og fá leiðbeiningar um hvernig sé best að snúa sér í þessu máli.

„Þetta eru ekki moldarhaugar heldur kviksyndi. Þetta er svo mikil bleyta að það er ekki hægt að keyra yfir þetta. Menn keyra bara inn í leðjuna,“ segir Dagbjört sem hefur rætt við bændur í Kinn og Útkinn.

Ekki er hægt að meta tjónið á túnum og vegum fyrr en búið er að drena svæðið. Aðspurð um tjónið segir Dagbjört að í einhverjum tilfellum verði að græða upp túnin og opna skurðina. Ljósleiðari fór í sundur og vegir eru sennilega eitthvað skemmdir eftir skriðurnar. „Þetta er risa verkefni.“

Dagbjört segist þakklát fyrir starf Almannavarna. Síðustu dagar hafa eflaust fyrir óvenjulegir fyrir bændur í sveitinni en björgunarsveitir, sérsveit og náttúruvásérfræðingar hafa verið við störf á á svæðinu með bíla, þyrlur og dróna.

„Það sem var svo mikilvægt er að Almannavarnir lýstu yfir hættustigi og þá fór þetta í ákeðið ferli. Aðgerðarstjórn og lögreglustjóri tóku ákvarðanir um hvað ætti að gera og í kjölfarið mættu björungarsveitir til að aðstoða við rýmingar og þyrla sótti þau sem urðu innlyksa. Við erum þakklát fyrir að eiga Almannavarnir.“