„Nóttin er ung og tölurnar geta breyst hratt. Ég vona auðvitað að Hilda Jana endi inni fyrir NA-kjördæmi, hún á svo sannarlega erindi á þing. Gott að sjá líka að Oddný Harðardóttir er inni í Suðurkjördæmi og Valgarður í Norðvestur. Bæði mjög öflugir jafnaðarmenn. En þetta eru eiginlega of skringilegar tölur í Suðvestur til að taka mark á þeim í augnablikinu.” Segir Logi Einarsson um gengi Samfylkingarinnar það sem af er kvöldi.

Tölurnar hljóti að vera af afmörkum svæðum

„Þetta eru einhverjar fríktölur sem ég trúi ekki,“ segir Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar um fyrstu tölur í Suðurvesturkjördæmi sem færa Samfylkingunni 4,3 prósent.

Flokkurinn fékk 12,2 prósent í kraganum í síðustu kosningum. Þá leiddi Guðmundur Andri listann en uppstillingarnefnd flokksins ákvað að þessu sinni að bjóða honum 2. sæti og gera Þórunni Sveinbjarnardóttur, fyrrverandi ráðherra og formann BHM að oddvita í flokknum.

„Þannig að þessar tölur eru af einhverjum mjög afmörkuðum svæðum í kjördæminu og allt og snemmt að leggja eitthvað út af þessu.“

Guðmundur bendir á að Viðreisn var spáð mjög góðum árangri í kjördæminu en er að missa fylgi samkvæmt þessum fyrstu tölum. „Bara það eitt er mjög tortryggilegt. Þannig að þessar tölur eru af einhverjum mjög afmörkum svæðum í kjördæminu og allt og snemmt að leggja eitthvað út af þessu,“ segir Guðmundur. Hann segist ekki vilja spá frekar fyrr en Reykjavík kemur með tölur og það koma marktækar tölur úr Suðurvesturkjördæmi.

Um stöðu sína á lista flokksins segist Guðmundur Andri hafa gert uppstillinganefnd ljóst að hann væri reiðubúinn að halda áfram þingmennsku og myndi þiggja hvort heldur er 1. eða 2. sæti á listanum.“ Hann segir að þessi nálgun hans hafi komið mörgum á óvart. „En mér fannst bara siðlegt og eðlilegt að gera það,“ segir Guðmundur Andri inntur eftir því hvort hann sjái eftir því að hafa gefið eftir oddvitasætið í kjördæminu.