Árásarmaðurinn sem hóf skotárás á tveimur stöðum í verslunarmiðstöðinni Field‘s á Amager í Danmörku á sunnudaginn síðastliðinn á sér sögu um geðrænan vanda, ásamt því að hafa komið við sögu lögreglu.

Saga um andleg veikindi

Maðurinn sem er 22 ára danskur ríkisborgari og hélt úti YouTube-rás. Daginn fyrir árásina þann 2. Júli, hafði hann sett inn myndband með titlinum, I don‘t care, eða mér er sama. Myndböndunum hefur þó verið eytt.

Í myndböndunum má sjá mann beina riffli og byssu að höfði sér og munni.Þetta kemur fram á vef danska fréttamiðilsins TV 2.

Geðlyfin virka ekki

Í lýsingum á myndböndunum stóð Quetiapin doesn‘t work, eða Quetiapin virkar ekki.

Samkvæmt vef Læknablaðsins segir að Quetíapín sé annarrar kynslóðar geðlyf sem ætlað er til meðferðar á geðklofa og geðhvarfasýki.

Að auki deildi hann nokkrum lögum með titlum sem gefa vísbendingar um vanlíðan. Titlar á borð við, Feeling sad ( ég er leiður), Killer music (dráps tónlist) og Last thing to listen to ( Það síðasta til að leggja hlustir við).

Einn að verki

Hinn grunaði var handtekinn á sunnudagskvöld fyrir utan Field‘s eftir 13 mínútna árás, vopnaður riffli og hníf. Þá hefur lögreglan einnig vitneskju um að hann hafi aðgengi að skammbyssu.

Á blaðamannafundi greindi Søren Thomassen, yfirlögregluþjónn lögreglunnar í Kaupmannahöfn, i gærkvöldi að ekkert bendi til þess að árásarmaðurinn hafi fengið aðstoð frá öðrum við verknaðinn.

Lögreglan í Kaupmannahöfn telur að fórnarlömbin hafi verið að handahófi. Þá hafi hvorki verið miðað að kynnum né öðru sérstöku. Enn fremur telur lögreglan að ekki sé um hryðjuverkaárás að ræða.

Minnast fórnarlamba árásarinnar

Minningarathöfn um þá sem létust í árásinni, fer fram fyrir utan Field‘s klukkan átta að staðartíma í kvöld. Þar mun Kórinn Ungklang syngja nokkur lög sem og danski tónlitarmaðurinn, Andreas Odbjerg.

Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur og Sophie Hæstorp Andersen borgarstjóri Kaupmannahafnar segja nokkur orð.