„Það kemur svo sem ekki á ó­vart að hægri­stjórn í Bret­landi skuli sýna þessa þjónkun við Trump-stjórnina í þessari að­för,“ segir Kristinn Hrafns­son, rit­stjóri Wiki­Leaks í sam­tali við Frétta­blaðið.

Sajid Javid, innan­ríkis­ráð­herra í ríkis­stjórn Bret­lands, skrifaði í morgun undir beiðni banda­rískra yfir­valda sem krefjast fram­sals á Juli­an Ass­an­ge, stofnanda Wiki­Leaks, sem hand­tekinn var í Lundúnum í apríl og dvalið hefur í Belmarsh-fangelsinu síðan.

Málið gæti tekið sinn tíma

„Þarna er verið að upp­fylla á­kveðna form­kröfu. Það er skrifað upp á þetta fram­sal, sem er í raun og veru til­raun stjórn­mála­manna til að þvo hendur sínar af þessu og reyna að vísa þessu til dóm­stóla til úr­skurðar,“ segir Kristinn, sem þessa stundina er staddur á árs­þingi Al­þjóða­sam­bands blaða­manna (IFJ) í Túnis.

Fyrsta af­gerandi skref varðandi fram­sals­beiðnina verði stigið á morgun þegar Banda­ríkin leggja fram skjöl til stuðnings kröfunnar. „Þá sjáum við í meiri smá­at­riðum hvernig þeir ætla að rök­styðja þessar á­kærur sínar, sem eru á­tján talsins.“

Ljóst sé að ferlið geti tekið langan tíma og býst hann við því að málið fari í gegnum öll stig breska dóm­kerfisins og jafn­vel Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu. Varnar­aðilum gefist því gott ráð­rúm til að fara yfir hina ýmsu anga málsins.

Uggvænleg þróun

Málið segir Kristinn vera mun meira um­fangs en fólk gerir sér eflaust grein fyrir og að það snúist ekki einungis um Juli­an Ass­an­ge og Wiki­Leaks. „Þarna er verið að setja á­kveðið for­dæmi að það sé hrein­lega í lagi að vega með þessum hætti að blaða­mönnum sem eru að fjalla um þjóðar­öryggis­mál, upp­lýsa um stríðs­glæpi og halda hernaðar­veldum á­byrgum fyrir gjörðum sínum,“ segir hann.

Þróun þessi hafi átt sér langan að­draganda og sé nú í auknum mæli að beinast gegn blaða­mönnum. Hann vísar til þess að áströlsk yfir­völd hafi nýverið ráðist inn á skrif­stofur blaða­manna þar í landi, til að mynda fjöl­miðilsins News Corp.

Julian Assange var handtekinn í Lundúnum í apríl en hann hafði dvalið í sendiráði Ekvador í borginni undanfarin sjö ár.
Fréttablaðið/EPA

„Þetta er þróun sem er ugg­væn­leg og verður að sporna gegn,“ segir hann og hvetur stjórn­völd, blaða­menn og al­menning um að rísa upp og láta í ljós ó­á­nægju sína. Svona sé ein­fald­lega ekki í lagi.

Leggja fram ályktun á ársþingi blaðamanna

„Ég ætlast til þess að ís­lensk stjórn­völd geri það líka, og ef þau gera það ekki að ís­lenskir kjós­endur bregðist við með þeirri kröfu að spornað sé gegn að­för gegn blaða­mönnum í heiminum.“

Á árs­þinginu í Túnis segir hann að borin verði upp á­lyktun um málið verð al­var­lega for­dæmt. „Menn skilja hvað er á ferðinni og ég ætla rétt að vona að þessi á­lyktun verði sam­þykkt ein­róma á þessu þingi.“

Hann kveðst hafa fundið fyrir auknum stuðningi við Wiki­Leaks og Juli­an Ass­an­ge. Það hafi þó ekki alltaf verið raunin.

„Við skulum átta okkur á því að það er búið að vera að grafa undan trú­verðu­legika Juli­an Ass­an­ge og Wiki­Leaks með mark­vissum hætti með ó­hróðri árum saman.“