Um síðustu helgi hélt tónlistarmaðurinn Aron Can tónleika í Hörpu, þangað mættu 1.300 manns. Hann segir það hafa verið ótrúlega tilfinningu að sjá fullan sal af fólki sem allt var komið til að berja hann augum. „Þetta var tryllt,“ segir hann.

„Mig hefur svo lengi langað að gera þetta, hef hugsað um þetta í mörg ár, svo ég setti standardinn mjög hátt og vildi hafa þetta eins flott og ég gat,“ segir Aron.

„Það er sturluð tilfinning að standa uppi á sviði og heyra þrettán hundruð manns syngja lögin þín. Þetta er það skemmtilegasta sem ég hef gert,“ segir hann.

„Ég bara trúði því ekki þegar það seldist í alvörunni upp, ég hugsaði bara með mér: Hvað er að gerast? Hvar er ég núna? Þetta var svo súrrealískt. Að þrettán hundruð manns séu til í að borga peninga til þess að koma og hlusta á mig á tónleikum í tvo klukkutíma er ótrúlegur sigur og ég er fullur þakklætis.“