Alma Björk Ástþórsdóttir stofnaði á dögunum nýjan hóp á Facebook sem kallast „Sagan okkar“ í samvinnu við Árdísi Rut H. Einarsdóttur, verkefnastjóra fræðslumála hjá ADHD-samtökunum. Þar getur fólk komið fram undir nafni eða nafnlaust með sínar sögur eða sögur af börnum sínum sem eru með einhvers konar sérþarfir, en Alma Björk segir það löngu vitað að „Skóli án aðgreiningar“ hafi ekki virkað sem skyldi og segir að það þurfi að bregðast við því strax.

„Íslenska skólakerfið er byggt þannig upp að öll börn eiga að geta sótt sinn hverfisskóla,“ segir Alma Björk sem telur að það sé þó langt frá því að vera raunin.

Hún hefur síðustu vikur í aðsendum greinum á Vísi fjallað um það hvernig ríkið vanrækir barnið hennar, og önnur börn, sem eru með sérþarfir

„Ég á barn með sérþarfir og yfirvöld eru að vanrækja það með stefnunni „skóli án aðgreiningar“. Þessi pistill er nokkuð stórt ákall á hjálp. Þið hafið kastað barninu mínu út í djúpu laugina…hvenær ætlið þið að láta það fá kútinn?,“ spyr Alma Björkí fyrstu greininni sem var birt 1. maí.

Alma telur að kennarar eigi skilið betra starfsumhverfi og aðrar fag­stéttir verð­skuldi virðingu og viður­kenningu á þeirri þörf sem er á þeirra við­veru í skóla­stofunni og í skóla­sam­fé­laginu.
Fréttablaðið/Ernir

MDE segir fjárskort ekki nægilega afsökun

Hún segir að fjárskortur sé ekki afsökun og bendir á að nýverið hafi Mannréttindadómstóll Evrópu komist að þeirri niðurstöðu í máli ítalskrar stúlku.

„Það kaldhæðnislega í þessu er að nú hafa tveir geðlæknar á BUGL nýlega stigið fram og sagt frá því að við séum í dag að greiða fyrir sparnað síðustu ára í skólakerfinu. Þannig birtist kostnaðurinn bara í heilbrigðiskerfinu í staðinn og það verður aldrei hægt að meta skaðann til fulls því við setjum ekki verðmiða á líf barna eða andlega velferð þeirra. Þetta eru engin geimvísindi og það er með ólíkindum að ráðamenn nái ekki að hugsa fyrir horn í þessum málum“.

Alma Björk hefur gagnrýnt þá umræðu að kennarar séu nægilegir sérfræðingar til að takast á við vandann sem er í skólastofunni en hún telur að slík svör varpi ljósi á „skilningsleysi stjórnvalda og skort á gagnrýnni hugsun.“ Hún telur að það þurfi að hætta slíku tali því það afvegaleiði umræðuna frá því sem raunverulega skipti máli.

Hún biðlar til kennara og skólastjórnenda að taka þátt í umræðunni.

„Þessir einstaklingar hafa unnið lengi við ömurlegar aðstæður og hafa djúpa innsýn í vandann. Að horfa upp á úrræðaleysið og varnarleysi þessara barna alla daga er mannskemmandi. Rödd þessa fólks þarf einnig að heyrast“ segir Alma. Hún telur að það sé ekki endalaust hægt að hlaða ofan á kennara og það þurfi að taka annars konar sérfræðinga inn í skólana til að vandamálið verði leyst.

„Alveg sama hversu miklir sérfræðingar kennarar eru, þá eru þeir mannlegir, með tíu fingur og tíu tær, nákvæmlega eins og allir aðrir. Þeir búa ekki yfir ofurkröftum eða töfrum. Þeir geta ekki látið fisk fljúga eða kanínu tala. Þeir geta heldur ekki komið til móts við alla nemendur í 30 manna bekk þar sem kannski 6 börn eru með sérþarfir, alveg sama hversu mikla trú við höfum á þeim,“ segir Alma Björk í annarri greininni sem var birt 7. maí.

Þar bendir hún einnig á að kennarar eigi skilið betra starfsumhverfi og aðrar fagstéttir verðskuldi virðingu og viðurkenningu á þeirri þörf sem er á þeirra viðveru í skólastofunni og í skólasamfélaginu.

„Já, mér finnst það vanvirðing við aðrar fagstéttir að gera ráð fyrir að kennarar geti stigið inn á þeirra svið“.

Þetta er stefna sem var sett út og henni ekki fylgt eftir með fjármagni og þar af leiðandi hafa verða mörg börnfyrir vanrækslu alla daga og þannig hefur það verið í mörg ár

Óskiljanlegt hversu lengi vanrækslan hefur fengið að þrífast

Skóli án aðgreiningar á sér langa sögu. Í dag eru liðin 27 ár síðan Ísland skrifaði undir Salamanca yfirlýsinguna sem átti upptök sín í réttindabaráttu fatlaðra og er rót stefnunnar um skóla án aðgreiningar. Frá því Ísland skrifaði undir liðu 12 ár þar til stefnan var tekinn inn í Aðalnámskrá grunnskóla, árið 2006, eða fyrir 15 árum síðan. Enn önnur tvö ár liðu þar til stefnan var lögfest í grunnskólalögum  árið 2008 eða fyrir 13 árum síðan.

Hún segir að það sé henni algerlega óskiljanlegt hvernig vanræksla á börnum innan skólakerfisins hafi fengið að þrífast í svo langan tíma og meinar þá að stefnan „Skóli án aðgreiningar“ hafi verið innleidd án þeirra bjargráða sem þarf til þess að uppfylla slíka stefnu. Mörg börn þurfa atferlismótandi umhverfi sem ungir og ófaglærðir starfsmenn eru látnir sinna. 

„Að sjálfsögðu þurfa sérfræðingar að starfa í skóla sem á að koma til móts við náms- og félagslegar þarfir allra barna án tillits til líkamlegs og andlegs atgervis. Stöður þroskaþjálfa, iðjuþjálfa, talmeinafræðniga, sálfræðinga, sjúkraþjálfa og félagsráðgjafa ættu náttúrulega að vera lögbundnar í öllum skólum“.

„Sérskólarnir hafa flestir verið lagðir niður, sumir skólar eru með sérdeildir og aðrir ekki og sumir skólar fá nægt fjármagn til að ráða sérfræðinga og aðrir ekki en samt eiga öll börn að fara í sinn hverfisskóla,“ segir Alma Björk sem furðar sig á því hvernig þetta eigi að ganga upp.

„Þetta er stefna sem var sett út og henni ekki fylgt eftir með fjármagni og þar af leiðandi hafa verða mörg börnfyrir vanrækslu alla daga og þannig hefur það verið í mörg ár,“ segir Alma Björk og bætir við:

„Þú myndir ekki horfa upp á nágranna þína sleppa því að gefa barninu sínu að borða eða henda því ítrekað út á peysunni að vetri til, en við horfum öll einhvern veginn upp á þetta.“

Afleiðingarnar margvíslegar

Hún segir að afleiðingarnar séu margvíslegar fyrir þessi börn. Sum börn verða lítil í sér og láta lítið fyrir sér fara. Þá eigi þessi börn það til að „týnast“ í skólakerfinu og brotna svo iðulega niður þegar þau koma heim. Önnur börn bregðast við í aðstæðunum og þá oft með ofbeldisfullri eða aggressívri hegðun. Hún segir að þessi börn séu snögg að fá á sig stimpil sem þau losna sjaldan við og lendi þá í félagslegri útskúfun. Á mörgum heimilum sé grátið daglega og mörg börn vilja frekar deyja en að fara í skólann.

„Það er sorgleg staðreynd að mörg hafa reynt að fyrirfara sér. Þetta eru óþægilegar sögur en þær eru sannar og samfélagið þarf að hlusta og skilja.“

Hún segir að það sé mjög misjafnt eftir skólum hversu mikið fjármagn er í boði. Börnum er mismunað eftir því hvað hrjáir þau.

„Vegna þess að drengurinn minn er ekki skilgreindur fatlaður heldur glímir „einungis“ við taugaþroskaröskun, þá fær skólinn hans ekki sérstakan fjárstuðning með honum. Því fæ ég að heyra rök á borð við fjárskort þegar ég kalla eftir ákveðnum úrræðum. Ég get ekki sætt mig við slík rök þegar kemur að velferð barnsins míns og ég hreinlega fékk nóg“ segir Alma Björk og bætir við:

„ Þetta er svo erfitt því þetta eru börnin okkar. Það hrynur einhvern veginn allt þegar barninu þínu líður illa. Mér fannst erfitt að stíga fram með okkar reynslu því ég veit ekkert hvaða áhrif það mun hafa á barnið mitt. En við hjónin ákváðum að af tvennu illu þá yrðum við hreinlega að stíga fram. Það er sorglegt að maður telji sig knúinn til þess að berskjalda sig fyrir þjóðinni svo barnið manns fái notið ákveðinna grunnréttinda. En í kjölfarið voru margir foreldrar sem höfðu samband við mig sem voru í nákvæmlega sömu stöðu en þorðu ekki að koma fram með það undir nafni. Þöggun á vandamálinu hefur fengið að viðgangast vegna þess hversu erfitt er að koma fram með sína reynslu. Þess vegna settum við síðuna í loftið svo þessar ljótu og sorglegu sögur heyrist. Fólk þarf að vita hvað er raunverulega að gerast í skólakerfinu.“

Öll börn eiga að njóta sömu réttinda.

Fara með málið fyrir dómstóla

Hún segir að í kjölfarið á því að hún og maður hennar stigu fram hafi einstaklingar frá ÖBÍ, ADHD samtökunum og réttindagæslumönnum fatlaðra hafa haft samband við sig og vilja leggja baráttu hennar lið.

„Það er mikill baráttuvilji hjá fólki sem kemur að þessum börnum og við erum vongóð um að fá góðan stuðning við að fara í dómsmál. Það verður farið fram á flýtimeðferð enda velferð barna í húfi. Við erum því að vonast til þess að fá niðurstöðu fyrir haustið. Það er auðvitað sorglegt að það þurfi að fara fyrir dómstóla til þess að sækja réttindi sem þessi börn eiga sannarlega skilið og mikil skömm fyrir velferðarsamfélagið og hið barnvæna Ísland sem ráðamenn stefna stoltir að. En þetta virðist vera það eina sem gæti mögulega virkað því yfirvöld hafa kosið að hunsa vandann í mörg ár. Þar sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur nýlega dæmt barni með sérþarfir í vil, þá leyfi ég mér að vera bjartsýn“ segir Alma Björk.

Síðan er öllum opin og er hægt að lesa og senda inn sögur hér.

Viðtalið hefur verið uppfært klukkan 14:13, 14:17 og 14:31.