Héraðsdómur hefur frestað máli Neytendasamtakanna gegn helstu bönkum landsins varðandi lán með breytilega vexti þangað til niðurstaða liggur fyrir á EFTA dómstólnum. Formaður neytendasamtakanna segir þetta stórt skref.
Neytendasamtökin stefndu Arion banka, Landsbankanum og Íslandsbanka vegna þess að samtökin telja að skilmálar lána með breytilegum vöxtum séu ólögleg og að ákvarðanir um vaxtabreytingar séu verulega matskenndar og byggjast á óskýrum skilmálum. Því ekki hægt að sannreyna hvort þær séu réttmætar.
Lögmenn Neytendasamtakanna óskuðu eftir því að leitað væri ráðgefandi álit EFTA dómstólsins og féllst Héraðsdómur á þá ósk að hluta, í einu máli af þremur. Málinu hefur því verið frestað hjá héraðsdóm þar til niðurstaða EFTA liggur fyrir, en málsmeðferðin fyrir EFTA gæti tekið allt að níu mánuði.
„Þetta er stórt skref í þá átt að fá kröfur okkar viðurkenndar, en á undanförnum árum hafa fallið dómar sem gefa skýrar vísbendingar um að skilmálarnir séu ólöglegir, meðal annars hjá Evrópudómstólnum. Hann komst að því að óskýrir skilmálar og einhliða vaxtabreytingar er fyrirkomulag sem ekki stenst lög þegar um er að ræða lán til neytenda með breytilegum vöxtum“ segir Breki Karlsson formaður neytendasamtakanna.