Bandaríska geimferðarstofnunin (NASA) og Geimvísindastofnun Evrópu (ESA) ætla að birta fyrstu ljós­myndirnar frá James Webb geim­sjón­aukanum klukkan hálf þrjú í dag að ís­lenskum tíma.

Að sögn Sæ­vars Helga Braga­sonar, betur þekktur sem Stjörnu-Sæ­var, eru myndirnar gríðar­lega glæsi­legar.

„Þetta er sögu­leg stund því hún markar upp­haf nýrra tíma í stjarn­vísindum,“ segir Sæ­var.

Þau fyrir­bæri sem um ræðir eru eftir­farandi:

Kjalar­þokan: Ein stærsta og bjartasta geim­þokan á nætur­himninum. Hana er að finna á suður­hveli himins í stjörnu­merkinu Kilinum (Carina) í 7600 ljós­ára fjar­lægð frá Jörðu. Kjalar­þokan er stjörnu­myndunar­svæði sem er staður þar sem stjörnur og sól­kerfi eru að verða til. Þar er að finna sumar af efnis­mestu stjörnum sem þekkjast.

Stjörnumyndunarsvæðið Kjalarþokan í stjörnumerkinu Kilinum.
Mynd/NASA/ESA

Suður­hring­þokan: NGC 3132 eða Suður­hring­þokan er leifar dáinnar stjörnu sem var svipað stór og þung og sólin okkar. Þetta er hring­þoka sem sýnir hvernig sólin okkar deyr eftir rúma fimm milljarða ára.

Hringþokan NGC 3132 í stjörnumerkinu Stórabirni.
Mynd/NASA/ESA

WASP-93b: Er reiki­stjarna utan okkar eigin sól­kerfis og fjar­reiki­stjarna. Reiki­stjarnan er gas­risi eins og Júpíter, um helmingi minni samt sem áður og miklu heitari. Hjá henni er eitt ár að­eins 3,4 dagar. WASP-93b er í 1150 ljós­ára fjar­lægð frá Jörðinni. Hér fáum við að sjá lit­róf sem gefur okkur upp­lýsingar um efna­sam­setningu and­rúms­loftsins.

Svona hafa geimvísindamenn ímyndað sér að reikistjarnan líti út, en hún er í eittþúsund eitthundrað og fimmtíu ljósára fjarlægð frá Jörðu.
Mynd/NASA

Kvintett-Stephans: Hópur vetrar­brauta í 290 milljón ljós­ára fjar­lægð frá Jörðu í stjörnu­merkinu Pegasusi. Gríðar­lega fal­legur og þéttur hópur

Kort af stjörnumerki Pegasus.
Mynd/Stjörnufræðivefurinn

SMACS 0723: Vetrar­brauta­þyrping sem er svo efnis­mikil að hún sveigir og beygir ljós frá enn fjar­lægari vetrar­brautum fyrir aftan hana. Svæðið á myndinni er á­líka stórt á himninum og sand­korn í út­réttri hendi. Á henni sjást þúsundir vetrar­brauta, hver með tugi eða hundruð milljarða stjarna hið minnsta.

Hér ber að líta fyrstu myndina úr Webb sjónaukanum sem birt var í gærkvöldi, en hún sýnir vetrarbrautarþyrpinguna SMACS 0723 eins og hún leit út fyrir 4.6 milljörðum ára.
Mynd/Getty