Af­greiðsla frum­varps um­hverfis­ráð­herra um há­lendis­þjóð­garð strandaði á Al­þingi í dag og hefur nú verið vísað til ríkis­stjórnarinnar aftur og er því ljóst að ekki náist að skapa sátt um frum­varpið á þessu kjör­tíma­bili.

Guð­mundur Ingi Guð­brands­son, um­hverfis- og auð­linda­ráð­herra, sagði í ræðu sinni um málið að hann hafi viljað sjá frum­varpið verða að lögum í vor en tók þó fram að með því að vísa málinu aftur til ríkis­stjórnarinnar hafi verið gefin skýr skila­boð um að unnið verði að málinu á­fram og frum­varp lagt til að nýju.

„Núna er verk­efnið að sam­einast um að ná meiri sátt um málið og koma há­lendis­þjóð­garði á koppinn á næsta kjör­tíma­bili. Og af hverju? Vegna þess að há­lendis þjóð­garður er fyrir náttúruna okkar, er fyrir víð­ernin okkar, og er fyrir okkur fólkið í sam­tímanum, og síðast en ekki síst fyrir fram­tíðina,“ sagði Guð­mundur.

Þingmenn drepnir í heyrandi hljóði

Andrés Ingi Jóns­son, þing­maður Pírata og fyrr­verandi þing­maður Vinstri grænna, var meðal þeirra sem mótmæltu framgöngu ríkisstjórnarflokkanna í tengslum við málið og sagði það vera með ó­líkindum að hug­mynd eins og há­lendis­þjóð­garður gæti farið „svo ræki­lega í skrúfuna,“ eins og rainin var. „Vegna á­greinings milli stjórnar­flokkanna var þetta frum­varp náttúr­lega svo gott sem dautt áður en það kom til þingsins,“ sagði Andrés í ræðu sinni og beindi spjótum sínum að ríkis­stjórninni.

„Stjórnar­liðar hefðu síðan átt að láta sér nægja að drepa málið bara í nefnd eins og venju­legt fólk, en í staðinn er það dregið hingað inn í þing­sal til að verða drepið í heyranda hljóði af okkur 63. Til að kóróna allt saman mætir síðan um­hverfis­ráð­herra til að kasta rekunum yfir hræið,“ sagði Andrés. „Þetta er skrípa­leikur sem ég tek ekki þátt í.“

Rósa Björk Brynjólfs­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar og fyrr­verandi þing­maður Vinstri grænna, beindi einnig spjótum sínum að um­hverfis­ráð­herra og orðum hans um hvaða skila­boð það sendi að vísa málinu til ríkis­stjórnarinnar. „[Þetta eru] skýr skila­boð til þjóðarinnar um að þessi ríkis­stjórn ræður ekki við verkið vegna inn­byrðis deilna og á­greinings. Það er öllum ljóst,“ sagði Rósa.

Munu vinna áfram að málinu

Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra, sagði í sam­tali við RÚV fyrr í dag að um hafi verið að ræða um­deilt mál þar sem þurfti að vinna úr á annað hundrað um­sögnum. „Ég lít ekki svo á að við séum hætt með þetta mál og við munum á­fram vinna í því á næsta kjör­tíma­bili,“ sagði Katrín.

Að­spurð um hvort málið verði rætt í komandi stjórnar­myndunar­við­ræðum sagði Katrín málið hafa verið á stefnu þeirra lengi. „Ég hafði sjálf flutt nokkrar þings­á­lyktanir um há­lendis­þjóð­garð áður en þetta varð hluti af stjórnar­sátt­mála. Þannig að ég vænti þess að við munum á­fram leggja mikla á­herslu á þetta mál eins og önnur náttúru- og um­hverfis­verndar­mál.“

Mál há­lendis­þjóð­garðsins var að­eins eitt af fjöl­mörgum sem voru til um­ræðu á þing­fundi dagsins en Al­þingi mun ljúka störfum í dag.