Afgreiðsla frumvarps umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð strandaði á Alþingi í dag og hefur nú verið vísað til ríkisstjórnarinnar aftur og er því ljóst að ekki náist að skapa sátt um frumvarpið á þessu kjörtímabili.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sagði í ræðu sinni um málið að hann hafi viljað sjá frumvarpið verða að lögum í vor en tók þó fram að með því að vísa málinu aftur til ríkisstjórnarinnar hafi verið gefin skýr skilaboð um að unnið verði að málinu áfram og frumvarp lagt til að nýju.
„Núna er verkefnið að sameinast um að ná meiri sátt um málið og koma hálendisþjóðgarði á koppinn á næsta kjörtímabili. Og af hverju? Vegna þess að hálendis þjóðgarður er fyrir náttúruna okkar, er fyrir víðernin okkar, og er fyrir okkur fólkið í samtímanum, og síðast en ekki síst fyrir framtíðina,“ sagði Guðmundur.
Þingmenn drepnir í heyrandi hljóði
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata og fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna, var meðal þeirra sem mótmæltu framgöngu ríkisstjórnarflokkanna í tengslum við málið og sagði það vera með ólíkindum að hugmynd eins og hálendisþjóðgarður gæti farið „svo rækilega í skrúfuna,“ eins og rainin var. „Vegna ágreinings milli stjórnarflokkanna var þetta frumvarp náttúrlega svo gott sem dautt áður en það kom til þingsins,“ sagði Andrés í ræðu sinni og beindi spjótum sínum að ríkisstjórninni.
„Stjórnarliðar hefðu síðan átt að láta sér nægja að drepa málið bara í nefnd eins og venjulegt fólk, en í staðinn er það dregið hingað inn í þingsal til að verða drepið í heyranda hljóði af okkur 63. Til að kóróna allt saman mætir síðan umhverfisráðherra til að kasta rekunum yfir hræið,“ sagði Andrés. „Þetta er skrípaleikur sem ég tek ekki þátt í.“
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna, beindi einnig spjótum sínum að umhverfisráðherra og orðum hans um hvaða skilaboð það sendi að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar. „[Þetta eru] skýr skilaboð til þjóðarinnar um að þessi ríkisstjórn ræður ekki við verkið vegna innbyrðis deilna og ágreinings. Það er öllum ljóst,“ sagði Rósa.
Munu vinna áfram að málinu
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í samtali við RÚV fyrr í dag að um hafi verið að ræða umdeilt mál þar sem þurfti að vinna úr á annað hundrað umsögnum. „Ég lít ekki svo á að við séum hætt með þetta mál og við munum áfram vinna í því á næsta kjörtímabili,“ sagði Katrín.
Aðspurð um hvort málið verði rætt í komandi stjórnarmyndunarviðræðum sagði Katrín málið hafa verið á stefnu þeirra lengi. „Ég hafði sjálf flutt nokkrar þingsályktanir um hálendisþjóðgarð áður en þetta varð hluti af stjórnarsáttmála. Þannig að ég vænti þess að við munum áfram leggja mikla áherslu á þetta mál eins og önnur náttúru- og umhverfisverndarmál.“
Mál hálendisþjóðgarðsins var aðeins eitt af fjölmörgum sem voru til umræðu á þingfundi dagsins en Alþingi mun ljúka störfum í dag.