María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands tilkynnir Félag sjúkraþjálfara til Samkeppniseftirlitsins vegna gruns um ólögmætt verðsamráð. Frá og með deginum í dag starfa sjúkraþjálfarar ekki lengur eftir samningi við Sjúkratryggingar Íslands.

Sjúkraþjálfarar verði dregnir til ábyrgðar

Í bréfi sem Sjúkratryggingar sendu á Félag sjúkraþjálfara kemur fram að þeir sjúkraþjálfarar sem hundsi ákvæði samningsins verði dregnir til ábyrgðar og að SÍ líti það mjög alvarlegum augum, reynist það rétt vera að Félag sjúkraþjálfara hafi sent félagsmönnum sínum gjaldskrá til að starfa eftir.

„Er SÍ því nauðugur sá kostur að tilkynna Samkeppniseftirlitinu grun um hugsanlegt brot á reglum samkeppnislaga er varða ólögmætt verðsamráð,“ segir í tilkynningu frá SÍ til Félags sjúkraþjálfara.

Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara, vísar þessum ásökunum á bug.

„Þetta er alveg nýr vinkill og í rauninni bætir um betur í þá hugmyndaauðgi sem þessi stofnun sýnir í því hvernig þau taka á málum. Það er ekkert verðsamráð hjá sjúkraþjálfurum svo ég veit ekki hvaðan þau fá þessa hugmynd,“ segir Unnur í samtali við Fréttablaðið.

Starfsemi fer fram með eðlilegum hætti í dag

Unnur segir að starfsemi sjúkraþjálfara fari fram með eðlilegum hættu í dag en sjúklingar þurfi nú að greiða fullt gjald og sækja sjálfir niðurgreiðslu til Sjúkratrygginga Íslands.

Stofnunin hafi ekki gert neinar ráðstafanir til að gera aðilum kleift að vera í rafrænum samskiptum um endurgreiðsluhluta sjúklinga. Hún trúi ekki öðru en að SÍ endurgreiði hluta af kostnaði sjúklinga þrátt fyrir stöðu mála.

„Það eru lög í landinu um rétt hins sjúkratryggða til niðurgreiddrar þjónustu sjúkraþjálfara,“ segir Unnur.

Vilja endurskoða kerfið frá grunni

„Þetta er óvissuferð sem sjúkraþjálfarar hvorki vilja né geta tekið þátt í.“

„Hvert ætla yfirvöld og sjúkratryggingar að fara með þjónustu sjúkraþjálfara í landinu? Af því höfum við sjúkraþjálfarar miklar áhyggjur. Það útboð sem Sjúkratryggingar hafa kynnt teljum við vera skaðlegt fyrir sjúkraþjálfun í landinu. Ljóst er að allt sem heitir gæði verður ekki metið. Það verður skert framboð á þjónustu, þar sem fjármagnið sem ætlað er til þjónustunnar dugir ekki einu sinni til að halda núverandi þjónustustigi,“ segir Unnur. Hún segir sjúkraþjálfara ekki vilja taka þátt í óvissuferð stjórnvalda.

„Menntun verður ekki metin til launa í þessu umhverfi, þar sem ekkert svigrúm er til þess þegar allt er metið eingöngu út frá verði. Það er óvíst hvort svigrúm gefist til að sinna kennslu og þjálfun. Þjónustan sem rekin er á öldrunarheimilum verður í uppnámi. Þetta er óvissuferð sem sjúkraþjálfarar hvorki vilja né geta tekið þátt í. Við skorum á stjórnvöld og heilbrigðisyfirvöld að marka stefnuna til framtíðar, hvernig þeir vilja hafa þessum málum háttað og hvetjum þá til að endurskoða það allt frá grunni og við kjósum að stíga til hliðar á meðan.“