Pólverjar og samfélög þeirra víða um heim hafa síðastliðnar vikur mótmælt stanslaust frá því að hertar reglur um þungunarrof voru kynntar en stjórnarskrárdómstóll Póllands samþykkti að eingöngu yrði heimilt að framkvæma þungunarrof ef líf móður væri í hættu eða ef kona yrði barnshafandi eftir nauðgun eða sifjaspell. Ríkisstjórn Póllands ákvað þó að birta ekki dóminn strax og þar með fresta gildistöku reglanna.

Hér á landi hafa kvenréttindasamtökin Dziewuchy Islandia mótmælt aðgerðunum nokkrum sinnum en Justyna Sajja Grosel, einn af skipuleggjendum hópsins, segir að mótmælin hafi verið alls konar. Það sem hefur þó kannski vakið mesta athygli er þegar borði var settur upp á móti húsi sendiherra Póllands á Íslandi, Gerard Pokruszyński, en á borðanum stóð: „Pólskar konur eru í hættu. Hvar ert þú?“

Sendiherrann brást illa við og hringdi á lögreglu til þess að láta fjarlægja borðann. Hann hefur ekki svarað ákalli pólskra kvenna hér á landi opinberlega en Justyna segir í samtali við Fréttablaðið að viðbrögðin hafi ekki komið hópnum á óvart. „Þegar við ræddum þetta inni í hópnum okkar vorum við ekki hissa að sjá viðbrögðin, við vissum að þetta myndi gerast.“

Justyna segir stöðuna í Póllandi vera verulega slæma þegar kemur að stöðu kvenna og að á hverjum degi sé mótmælt, bæði í stórum og litlum borgum. Hún segir helsta markmið íslenska hópsins að styðja við mótmælin í Póllandi og gefa konum þar í landi þau skilaboð um að þau séu til staðar.

Íslendingar styðja við pólskar konur

Viðbrögðin við hreyfingunni hér á landi hafa verið mjög góð að sögn Justynu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lýsti því meðal annars yfir á Twitter að hún hefði áhyggjur á þróuninni í Póllandi og að nauðsynlegt væri að standa vörð um jafnrétti kynjanna og kvenréttindi.

Þá lagði þingmaðurinn Rósa Björk Brynjólfsdóttir fram þingsályktunartillögu á Alþingi fyrr í vikunni um að heilbrigðisráðherra verði falið að tryggja að einstaklingar sem ferðast til landsins til að gangast undir þungunarrof fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Átján þingmenn úr fjórum flokkum voru skrifuð fyrir ályktuninni.

Rósa sagði í samtali við Fréttablaðið um málið að það væri gleðilegt að sjá breiðan stuðning um málið á þingi. Hún sagði mikilvægt að ganga lengur en bara yfirlýsingar á Twitter en ef ályktunin yrði samþykkt myndi Ísland taka skýra afstöðu með konum og réttindum þeirra á alþjóðlegum vettvangi. „Það er okkar skylda,“ sagði Rósa.

Frábær stuðningur

„Þetta er ótrúlegur stuðningur,“ segir Justyna og bætir við að þeirra fyrstu viðbrögð hafi verið þakklæti. Það sé frábært að Íslendingar séu tilbúnir til að taka afstöðu með þeim. Það sé aftur á móti hræðilegt að það þurfi að koma til svona hugmyndar og ömurlegt að pólskar konur séu í þessari stöðu. „En þess vegna vona ég að þessi eldmóður og þessi mótmæli muni ekki deyja niður og að breytingar verði gerðar.“

Justyna ítrekar þó að það sem er að gerast núna sé frábært og þakkar meðal annars Rósu fyrir að láta í sér heyra. Aðspurð um hvað hún myndi vilja sjá gerast næst minnist hún þess þegar ríkisstjórnin sendi yfirlýsingu til pólsku ríkisstjórnarinnar um stuðning við pólskar konur sem voru að mótmæla. Ef slíkt væri hægt aftur væri það magnað.

Hún tekur sem dæmi að það yrði mjög kröftugt ef Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Eliza Reid gætu gefið út yfirlýsingu um málið auk þess sem aðrir hátt settir aðilar myndu tjá sig um málið. „Ég er nokkuð viss um að það sem er að gerast hér á Íslandi, og það sem pólskar konur á Íslandi upplifa, sé frábært.“

Faraldurinn gert stöðuna enn verri

Að sögn Justynu hefur COVID-19 faraldurinn gert slæmt ástand enn verra þegar kemur að stöðu kvenna í Póllandi. Hún segir ríkisstjórnina notfæra sér Covid til að stjórna fólki og breyta lögum og að staðan hér á Íslandi líkist ákveðinni paradís samanborið við stöðuna í Póllandi. Hægt og smátt sé verið að umturna öllu í landinu.

Mótmæli eru nú enn í gangi víða í Póllandi en umfjöllun um þau hefur aðeins minnkað frá því að nokkrir lykilaðilar í mótmælunum komu sér saman ásamt sérfræðingum og hófu vinnu við að taka saman grundvallaratriði þess sem barist er um og koma þeim í framkvæmd. „Þau eru að reyna að fara einu skrefi lengra,“ segir Justyna.

Mikilvægt að halda umræðunni gangandi

„Fólkið í Póllandi þarfnast stuðnings og að halda umræðunni á lofti. Það er enn þá alls konar að gerast á hverjum degi,“ segir Justyna en hún tekur dæmi frá sinni borg þar sem mótmælendur hafa verið að stöðva umferð. Hún segist hafa heyrt í tengdamóður sinni sem var með krampa í fótunum eftir að hafa þurft að ganga í gegnum borgina en hafi verið svo hamingjusöm því fólk var að gera eitthvað.

„Þetta eru bara litlir hlutir sem ég er að heyra frá fólki, að jafnvel þótt að lífið sé mögulega aðeins erfiðara þá er stuðningurinn svo mikill,“ segir hún en bætir við að hún sé spennt að sjá hvað gerist á miðvikudaginn, þegar þjóðhátíðardagur í Póllandi rennur upp. Í Varsjá til að mynda sé búið að skipuleggja mótmæli fyrir réttindum kvenna.

Þrátt fyrir að umræðan snúist nú að mestu um Pólland segir Justyna það vera mikilvægt að muna að það sé ekki aðeins verið að tala um stöðu kvenna í Póllandi heldur einnig kvenna um allan heim. „Þetta er enn martröð víða en við erum að taka lítil skref til að verða raunverulega hluti af samfélaginu, ekki bara einhver tilviljanakenndur hlutur í húsinu, heldur raunverulegar lifandi manneskjur.“

Kvenréttindasamtökin Dziewuchy Islandia hafa nokkrum sinnum staðið fyrir mótmælum vegna stöðunnar í Póllandi. Myndin er frá mótmælum í lok október.
Fréttablaðið/Valgarður Gíslason