„Danmörk varð fyrir grimmilegri árás. Nokkrir voru drepnir. Og enn fleiri særðir. Saklausar fjölskyldur sem voru við innkaup eða úti að borða. Börn, unglingar og fullorðnir,“ segir í yfirlýsingu sem forsætisráðherra Danmerkur, Mette Frederiksen, gaf út í kvöld vegna skotárásarinnar í verslunarmiðstöðinni Field's í dag.
„Ég sendi þeim sem misst hafa ástvini mína dýpstu samúð. Til hinna særðu og aðstandendur þeirra. Og til allra Dana sem voru viðstaddir þennan hræðilega atburð,“ segir Frederiksen, og hvetur Dani til að standa saman og styðja hvern annan á þessum erfiða tíma.
„Við höfum öll verið rifin á hrottalegan hátt út úr bjarta sumrinu sem var nýbyrjað. Þetta er óskiljanlegt. Sker mann í hjartað. Tilgangslaust,“ segir Frederiksen.