For­eldrar barna á leik­skólanum Granda­borg, sem nú eru vistuð í Kringlunni, fengu póst í morgun þar sem þeim var greint frá því að bæði börn og starfs­fólk væru að veikjast og að sumir gætu ekki farið inn í rýmið án þess að finna fyrir veikindum. Starf­semi leik­skólans var flutt í Kringluna vegna myglu í hús­næði skólans í Vestur­bæ.

Karen Björg Jóhanns­dóttir er ein þeirra sem á börn á leik­skólanum. Hún segist hafa sýnt þessum að­stæðum fullan skilning og að reynt sé að vinna með það sem er í boði. Hún segir samt sem áður að þessi vinnu­brögð séu ekki á­kjósan­leg og að henni, og öðrum for­eldrum, sé ekki skemmt.

„Börn eru sem sagt tekin úr mygluðu hús­næði (Granda­borg) og færð í annað myglað hús­næði (Kringlan). Starfs­fólk og börn halda á­fram að veikjast,“ segir Karen Björg sem kallar eftir því að þessu sé komið í lag.

„Við for­eldrar greiðum full dag­vistar­gjöld núna í marga mánuði, með miklum skilning. Þetta er orðið að einum risa­stórum farsa sem ég á erfitt með að átta mig á að taki annan endi en svo að ég missi vinnuna sökum þess hversu skert mín starfs­geta er með til­liti til þessa brandara. Þetta er blá­köld stað­reynd mín,“ segir Karen Björg og bendir á að í þá mánuði sem þessi ó­vissa hefur staðið hafi for­eldrar í­trekað verið beðnir um að sækja börnin fyrr, deildum lokað og starf­semi tak­mörkuð en gjöldin ekki breyst.

Ekki allt með felldu

Í póstinum sem foreldrar fengu kom fram að fljótlega eftir að starfsemin var flutt hafi komið í ljós að ekki væri allt með felldu.

„Við fengum seint um síðir að vita að samþykki fyrir þessu rými hefði verið gefið ef aðgangur að efri hæðum hússins væru lokaðar. Hurð sem er í anddyri og er inngangur fyrir efri hæðir hefur verið opin allt fram á síðasta þriðjudag. Það sem við vitum er að mygla er á efri hæðunum og í rýmum sem tilheyra Umboðsmanni skuldara,“ segir í pósti til foreldra í morgun og að loft sem hefur borist þaðan hafi áhrif á bæði börn og starfsfólk með þeim afleiðingum að þau eru orðin veik.

„Samviska okkar, stjórnenda í Grandaborg, leyfir okkur ekki lengur að liggja á okkar skoðunum og höfum við miklar áhyggjur af heilsufari þeirra sem eru í þessu rými og ekki síst áhyggjur okkar gagnavart börnunum eru mjög miklar. Við erum að upplifa meiri veikindi hjá þeim eftir að við komum inn í þetta rými,“ segir enn fremur í póstinum en samkvæmt nýjum upplýsingum sem foreldrar fengu eftir hádegi í dag er búið að óska þess að starfsfólk frá verkfræðistofunni Eflu taki úr aðstæður og geri mælingar en þar er þó bent á að veikindi barna og starfsfólks hafi verið svipað og hjá öðrum leikskólaum á svæðinu. Erfitt sé því að slá því föstu að það megi rekja til húsnæðisins.

Til stendur að færa starfsemi skólans í nýtt húsnæði Hagaborgar og samkvæmt upplýsingum sem foreldrar fengu í dag mun sá flutningur fara fram í byrjun desember.