Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Föstudagur 17. desember 2021
22.49 GMT

Það var flóknara en ég gerði mér í hugarlund að finna tíma til að hitta Kristbjörgu. Nú standa yfir stífar æfingar á verkinu Ein komst undan, í Borgarleikhúsinu, en verkið verður frumsýnt snemma á nýju ári og þar fer Kristbjörg með hlutverk einnar fjögurra kvenna. Eftir vinnudaginn þarf svo að sinna ýmsu eins og að fara í Covid-próf fyrir jólahádegisverð leikhússins þar sem Kristbjörg lætur sig auðvitað ekki vanta.

Við mælum okkur mót á heimili Kristbjargar í Skuggahverfinu þar sem hún er ein frumbyggja í háhýsunum sem þar risu fyrir nokkru. Hér líður henni vel, með útsýni yfir hafið sem augljóslega skiptir hana máli enda alin upp í nálægð við sjóinn, í Innri-Njarðvík og Hafnarfirði.


Ekki hægt að dæma gamla tíma

Verkið, Er ég mamma mín? eftir Maríu Reyndal, er byggt á minningum höfundar um uppreisn móður sinnar gegn fastmótuðum hlutverkum húsmóðurinnar á áttunda áratug síðustu aldar. Kristbjörg fer með hlutverk móðurinnar á efri árum og hlaut fyrir það Grímuverðlaunin árið 2020.

Á sviðinu birtist heimilislíf íslenskrar fjölskyldu á áttunda áratugnum ljóslifandi og hefst spjall okkar Kristbjargar á verkinu og þeim breytingum sem orðið hafa á samfélaginu á ekki lengri tíma.

„Það er bara ekki hægt að dæma gamla tíma út frá því sem er í dag eins og mikið er gert,“ segir hún.

„María notaði svo sniðuga aðferð við skrifin, en hún var enn að klára að semja leikritið þegar við hófum æfingar, svo hlutverkið er nánast skraddarasniðið á mann.“

Verkið fjallar töluvert um hlutverk kynjanna sem voru önnur á þeim tíma sem verkið gerist á og eru fjölmörg atriðin grátbrosleg.

„Sagan er svo sönn, þess vegna hlæjum við. Það sem kemur í útvarpinu, þetta er satt, er þetta ekki magnað?“ segir Kristbjörg og er þá að tala um brot úr útvarpsþáttum þessa tíma sem leikin eru í verkinu. Brotin eru úr þáttunum Forvitin Rauð, femínískum þáttum sem voru á dagskrá RÚV upp úr 1970.
„Þetta með borðstofustólana, það var ótrúlegt,“ segir Kristbjörg, en í útvarpsþáttunum var rifjað upp hvernig á þeim tíma hefði kona ekki þótt nægilega merkileg til þess að líftryggja, en væri oft bætt sem andvirði tveggja borðstofustóla félli hún frá eða yrði varanlegur öryrki.
„Þetta er svo yfirgengilegt!“ segir hún og hlær.

Kristbjörg hér í hlutverki sínu í verkinu Er ég mamma mín? Mynd/Jorri

Langar alltaf að verða betri


Kristbjörg sem er fædd árið 1935 hefur sannarlega upplifað tímana tvenna en er augljóslega ekki föst í gömlu fari, hún lifir í núinu.

„Maður er bara lifandi og einhvern veginn fylgir straumnum. Ég get ekki fráskilið einhvern tíma sem var svona og hinsegin. Þetta bara þróast áfram og maður þróast með.

Eins og ég segi stundum við yngri vinkonur mínar: „Ég er ekkert eldri en þið – við erum bara að tala saman, ég og þú, og ég er bara hér og nú! Með ykkur,“ segir hún með áherslu.

„Nei, í alvöru, ef maður væri alltaf að tala um hvað maður væri gamall? Ég bara get það ekki. Það er bara ekki í mér.

Leikhúsið kennir manni líka ýmislegt og það að vinna með þessu frábæra unga fólki, það er svo gaman. Það er svo flinkt þetta unga fólk í dag, svo gott. Það getur sungið og það getur dansað.“

Það er augljóst að Kristbjörg er enn að stækka og þroskast.

„Mann langar alltaf að verða betri, þetta er eilífðarverkefni, að ég held í öllum störfum, alla vega skapandi störfum. Að vera í núinu og bæta við sig. Annars væri þetta náttúrulega ekki gaman. Þetta er bara áskorun.“


„Nei, í alvöru, ef maður væri alltaf að tala um hvað maður væri gamall? Ég bara get það ekki. Það er bara ekki í mér.


Þorkelína í höfuðið á ömmu


Kristbjörg tekur upp bók sem legið hefur fyrir framan okkur á borðinu og reynist vera nýútkomin ævisaga eldri systur hennar, Hönnu Kjeld.

„Hún hefur átt svolítið sniðuga ævi, henni finnst þó erfitt að þetta komi út í bók og ég skil það svo vel,“ segir hún í léttum tón og flettir bókinni en hana prýða fjölmargar myndir, af þeim systrum sem börnum og forfeðrum þeirra.

„Þetta er móðuramma mín, Þorkelína,“ segir hún og bendir á ljósmynd.

„Ég heiti Kristbjörg Þorkelína eftir henni. Ég er eina barnabarnið sem heitir í höfuðið á henni og ég naut þess. Mér þótti ógurlega vænt um hana ömmu mína, hún var svo góð kona, einstök.“

Kristbjörg er ættuð frá Færeyjum og bjó þar í eitt ár sem barn, en faðir hennar var færeyskur.

„Hann kom hingað sem ungur maður til Njarðvíkur þar sem hann kynntist mömmu. Ég skil alveg að hún hafi orðið skotin í honum enda ægilega laglegur maður,“ segir Kristbjörg og þegar hún flettir upp á mynd af foreldrum sínum er ekki annað hægt en að samsinna því.

Þegar Kristbjörg lét af störfum við Þjóðleikhúsið vegna aldurs, grínaðist hún með að nú yrði hún frílans leikkona, það hefur svo sannarlega ræst. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Sviðsskrekkur í sjötíu ár

Aðspurð segist Kristbjörg í raun hafa verið með viðvarandi sviðsskrekk í þau sjötíu ár sem hún hefur starfað sem leikkona.

„Ég er alltaf drullustressuð fyrir sýningar og það hefur ekkert lagast með tímanum. Svo nú þegar maður eldist bætist við óttinn við að gleyma textanum. Ég er þó ekki eins og sumir sem hreinlega kasta upp af stressi.

Stressið kemur áður en maður fer inn á sviðið en svo er það búið þegar maður er þangað kominn. En vinnan gefur manni svo mikið, annars væri maður ekki að þessu, maður er ekki bara að pína sig. Það gefur manni líka mikið að sigrast á áskorunum.“


„Ég er alltaf drullustressuð fyrir sýningar og það hefur ekkert lagast með tímanum. Svo nú þegar maður eldist bætist við óttinn við að gleyma textanum."


Það eru tvö og hálft ár frá því að Kristbjörg tók að sér hlutverk móðurinnar í verkinu Er ég mamma mín? og þá var lagt upp með að hún væri í tveimur til fjórum senum, en þegar æfingar hófust stækkaði hlutverkið sífellt.

„Ég man að ég sagðist ætla að prufa en tók af Maríu loforð um að láta mig vita ef henni litist ekki á þetta.“


Næg verkefni á eftirlaunum


Árið 2005 lauk Kristbjörg formlega störfum hjá Þjóðleikhúsinu, fór af samningi eins og það kallast, en hún hafði verið fastráðin við húsið frá árinu 1956. Síðan eru liðin 16 ár og Kristbjörg langt frá því að vera sest í helgan stein.

„Það hefur bara verið svo mikið að gera síðan þá. Ég man að þegar ég var að hætta í Þjóðleikhúsinu var ég spurð út í tilfinninguna og ég svaraði galvösk: „Þetta er bara dásamlegt, nú er ég frílans,“ rifjar hún upp hlæjandi og segir einhverjum hafa þótt þetta djarft svar. „Ég segi ekki hrokafullt, en dálítið mikil bjartsýni.“

Þó svo að Kristbjörg hafi á sínum tíma svarað á þennan hátt meira í gríni en alvöru, þá hefur verkefnin ekki vantað. Til að mynda þurfti að fresta æfingum í Borgarleikhúsinu í sumar þar sem Kristbjörg var upptekin við tökur á óútkominni kvikmynd Hilmars Oddssonar.

„Það var skemmtileg upplifun enda myndin öll tekin upp á ófæruvegum mestmegnis í Arnarfirðinum og Dýrafirðinum. Náttúran þar er svo fögur að hún situr enn í manni.“

Lengur að læra texta


Eins og fyrr segir er Kristbjörg þessa stundina ekki aðeins að leika í verkinu Er ég mamma mín? heldur standa einnig yfir æfingar á verkinu Ein komst undan.

„Þar leik ég ásamt Eddu Björgvins, Margréti Áka og Margréti Guðmundsdóttur. Verkið er eftir Caryl Churchill, í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur og þar er einfaldlega skilyrði frá höfundarins hendi að allar séu þær yfir sjötugu,“ segir Kristbjörg, um leið og hún dregur handritið upp úr veskinu og sýnir að á fyrstu síðu segir: „Þær eru allar að minnsta kosti sjötugar.“

Sólveig Guðmundsdóttir og Kristbjörb í hlutverkum mæðgnanna í verkinu Er ég mamma mín? Mynd/Jorri

Aðspurð hvernig gangi að læra heilu hlutverkin utanbókar svarar hún hreinskilin:

„Það hefst, en ég er miklu lengur að læra texta en ég var. Þetta síaðist bara inn í mann í gamla daga án þess að maður hefði áhyggjur af þessu. Núna þarf maður að setjast svolítið niður og læra. Svo þegar maður er búinn að læra textann þá situr hann, sem betur fer.“


Frumsýndu fjórum sinnum

Covid reyndist sýningunni Er ég mamma mín? erfitt, enda sífellt verið að loka leikhúsinu og opna á ný, en sýningar eru ætlaðar alla vega fram í febrúar.

„Þetta hefur auðvitað farið bölvanlega í mann. Sérstaklega þetta með leikhúsið, við erum búin að frumsýna þetta hvað, fjórum sinnum?“ segir Kristbjörg, aðspurð um það hvernig heims­faraldur og aðgerðir gegn honum hafi lagst í hana.

„Ég finn þó ekki fyrir einangrun, ég er vön að vera hérna ein og umgengst bara mitt nánasta lið.“


„Ég finn þó ekki fyrir einangrun, ég er vön að vera hérna ein og umgengst bara mitt nánasta lið.“


Maður þurfti að standa sig


Það er augljóst að Kristbjörg er ósérhlífin og lítið fyrir að berja sér á brjóst, en hún segir vinnusemi hafa verið hluta af uppeldinu.

„Maður þurfti að standa sig og var farinn að sjá fyrir sér um fermingu. Við Hanna systir vorum sendar frá Njarðvík í gagnfræðinám við Flensborg í Hafnarfirði því mamma hafði verið þar. Fyrir henni var þetta mikil menntastofnun. Þá þurftum við að sjá svolítið fyrir okkur sjálfar.“

Aðspurð hvort þær hafi þá búið á heimavist hristir Kristbjörg höfuðið. „Heimavist? Nei, nei, leiguherbergjum, misjafnlega góðum, fyrir nútímafólk þætti þetta ómögulegt, en þetta gerði maður. Eftir það fór maður svo að vinna og sá fyrir sér algjörlega. Ég fór í Þjóðleikhús­skólann og vann alltaf með. Það kom aldrei annað til greina en að standa undir sér.“


„Maður þurfti að standa sig og var farinn að sjá fyrir sér um fermingu."


Kristbjörg fór í gegnum leiklistarskólann sem einstæð móðir en segir foreldra sína hafa hjálpað sér mikið. „Ég var sjálfrar mín þá, ég var ekki komin með mann, en ég átti Jens og fékk mikla hjálp frá mínum foreldrum með það.“

Hún var 19 ára þegar hann kom í heiminn og flosnað hafði upp úr sambandi hennar við barnsföðurinn.


Ættleiddu dóttur frá Kólumbíu


Kristbjörg kvæntist leikskáldinu Guðmundi Steinssyni árið 1962 og eignuðust þau eina dóttur, Þórunni, sem þau ættleiddu fimm ára gamla frá Kólumbíu árið 1979 þegar Kristbjörg var rúmlega fertug.

„Ég fékk þessa hugmynd þegar við vorum að ferðast með Ínúk, verk sem við fórum með um allan heim. Þegar við vorum í Suður-Ameríku sá maður börnin á götunni og þá læddist að mér þessi hugmynd, að ættleiða barn sem ætti engan að. Guðmundur fór svo aftur til Kólumbíu þar sem hann þekkti fólk og komst í samband við munaðarleysingjaheimili.

Í framhaldi fórum við svo að sækja hana til Bógóta. Við þurftum að dvelja þar í dágóðan tíma en á endanum fór ég heim á undan því ég fór með hlutverk í Stundarfriði sem var verið að sýna. Þau komu svo saman heim.“


„Þegar við vorum í Suður-Ameríku sá maður börnin á götunni og þá læddist að mér þessi hugmynd, að ættleiða barn sem ætti engan að."


Aðspurð hvort það hafi ekki verið áskorun að taka við fimm ára gömlu barni, svarar Kristbjörg:

„Mér fannst það ekki á þeim tíma en sé það þegar ég lít til baka að auðvitað var það svolítið erfitt, enda fimm ára barn orðið svolítið stálpað og með skrítna reynslu innra með sér. En það gekk samt allt saman vel. Guðmundur talaði spænsku svo þau gátu talað saman frá upphafi.

Þórunn á í dag einn son sem á sjálfur þrjú börn, svo ég á þrjú langömmubörn, Jens á svo tvær dætur sem eru barnlausar í háskólanum í mastersnámi.“

Það er augljóst að fjölskyldan er Kristbjörgu kær og aðspurð út í jólahefðirnar svarar hún:
„Ég er alltaf hjá syni mínum á aðfangadagskvöld og á nýárinu líka og þau eru alveg einstök að nenna að sinna mér svona vel. Svo kemur mitt fólk í hangikjöt til mín á jóladag og grjónagraut með möndlu.“

Kristbjörg hefur gaman af því að skora á sjálfa sig og settist til að mynda á skólabekk sextug. Fréttablaðið/­Sigtryggur Ari

Verkið sem María Reyndal hefur samið við Kristbjörgu um að fara með aðalhlutverkið í fer á fjalirnar 2023. „Ég lofaði Maríu að tóra fram að því,“ segir Kristbjörg og hlær.

„Ég treysti Maríu alveg 100 prósent."

Ferill Kristbjargar hefur sannarlega verið farsæll og langur og spannar nú heila sjö áratugi.

„Ég byrjaði bara í amatöraleikhúsinu í Hafnarfirði 15 ára og lék fyrst í Þjóðleikhúsinu 1957 og var alltaf þar, fyrir utan einhver einstaka hopp, smá framhjáhöld,“ segir hún og hlær.

Settist á skólabekk sextug


Þegar Kristbjörg var sextug ákvað hún að næla sér í kennsluréttindi og lauk námi í uppeldis- og kennslufræðum frá Kennaraháskóla Íslands.

„Í framhaldi tók ég aðeins að mér að kenna niðri í leiklistarskóla. Það fannst mér pínulítið erfitt og man að þegar ég fór aftur að leika eftir það fannst mér það svo rosalega létt.“

En hvers vegna að setjast á skólabekk sextug?

„Mig langaði að ögra mér og fannst ég þurfa að vera með einhverja háskólagráðu. Það var skrítið að setjast á skólabekk sextug og sérstaklega fyrsta prófið, ég held að það hafi verið í sálfræði og þá hugsaði ég með mér: Hvurn andskotann er ég að gera hérna? Hvað er ég búin að koma mér í?


„Það var skrítið að setjast á skólabekk sextug og sérstaklega fyrsta prófið, ég held að það hafi verið í sálfræði og þá hugsaði ég með mér: Hvurn andskotann er ég að gera hérna? Hvað er ég búin að koma mér í?"


Ég hafði verið hikandi við að gera þetta en átti svo dásamlega systur sem er nú farin. Hún örvaði alla svo mikið og hvatti – svo þegar ég var búin að sækja um og fór að efast, sagði hún: „Byrjaðu – þú getur alltaf hætt.“ Svo byrjar maður og ég man eftir að hafa hugsað að mér væri alveg sama um einkunnir. En svo verður maður allt í einu svo metnaðargjarn og ég varð að klára þetta.“

En þó að það lægi ekki fyrir Kristbjörgu að færa sig yfir í kennsluna segir hún reynsluna hafa nýst sér vel í leiklistinni.

„Maður lærir mikið af því að kenna. Eins prófaði ég smávegis að leikstýra, en hugsaði með mér að ég ætlaði ekki að leggja það fyrir mig. En ég lærði þó rosalega mikið á því að vera hinum megin við borðið. Ég fattaði ansi margt, til að mynda hversu viðkvæmur leikarinn getur verið. En það er vandi að leikstýra og láta fólk blómstra.“


Þetta er náttúrulega lán


Talandi um viðkvæmni leikarans, það hlýtur að vera svolítið sérstakt að vera allt ævistarfið í sviðsljósinu.

„Ég sagði stundum við Guðmund að þetta væri eins og að setja holdrosann út. Það er skrítið að vera alltaf undir mælikeri. Maður fær svolítinn skráp, en til að byrja með var maður viðkvæmur fyrir gagnrýni. En það venst og maður veit meira hvernig maður hefur staðið sig og treystir meira á sitt.“

Kristbjörg er ekki bara ung í anda heldur í líkamlega góðu formi, sem gerir henni kleift að leika heilar leiksýningar eftir strangt æfingaferli. Hún segir hreyfingu gera sér gott þó að hún gangi ekki jafn mikið og í gamla daga.

„En ég hef lengi verið í þjálfun í Nordica spa, það hefur reyndar setið á hakanum í smá tíma og ég finn það og þarf að fara að gera bragarbót á hvað það snertir. Maður er svo alltaf að hreyfa sig í vinnunni og í Borgarleikhúsinu þarf maður að fara upp og niður stiga alla daga.

En það er rosalega gott að vera í einhverri þjálfun. Ég hugsa líka um að næra mig almennilega en ég fæ mér alveg rauðvín og súkkulaði. Eins og sagt er: „Neyttu á meðan á nefinu stendur.“ Ætli ég geri það ekki bara?

Maður er heppinn að vera kominn á þennan aldur og hafa fulla heilsu og geðið í lagi. Þetta er náttúrlega lán og maður getur verið alveg rosalega þakklátur. Maður á að vera þakklátur á hverjum einasta degi fyrir það,“ segir Kristbjörg að lokum. n

Athugasemdir