Leit að skiptverjanum sem féll útbyrðis af fiskiskipi í Faxaflóa síðdegis á laugardag er hafin að nýju segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.

Leitarsvæðið hefur verið stækkað frá því gær að sögn Ásgeirs. „Í gær vorum við að vinna með svæði sem var um 10x10 sjómílur, staðsetningin er 25 sjómílur norðvestur af Garðskaga en í dag erum við stærra svæði. Vegna tímalengdar frá atburðinum þá erum við að vinna með svæði sem erum 18x18 sjómílur.“

Skipverjinn féll frá borði línuskips í eigu Vísis hf. og greinir Morgunblaðið frá því að lögregla og rannsóknarnefnd sjóslysa hafi þegar hafið rannsókn á slysinu.

Ásgeir segir varðskipið Þór halda áfram leit í dag ásamt björgunarskipinu Oddi V. Gíslasyni frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. „Síðan munum við kalla út þyrlu til leitar núna rétt fyrir hádegi. Við verðum því með björgunarsveit, varðskip og þyrlu við leit í dag,“ segir Ásgeir og bætir við að stefnan sé sett á að leita þar til fer að dimma.

Leitað hefur verið alla helgina án árangurs og segir Ásgeir aðspurður töluverðan mannskap hafa komið að leitinni.

„Þegar mest var á laugardaginn þá voru fimmtán skip við leit og það eru töluvert margir um borð í hverju skipi. Sömuleiðis voru tvær þyrlur og það er fimm manna áhöfn í hvorri þeirra. Sem dæmi er átján manna áhöfn í varðskipinu Þór. Í gær voru þrettán skip við leit þegar mest var auk þyrlu gæslunnar,“ segir Ásgeir og bætir við að þá sé ótalið þeir sem stýri aðgerðum á stjórnstöð.

Erfitt sé að skjóta á tölu en ljóst sé að margir hafi komið að leitinni með einum eða öðrum hætti. „Þetta er mjög umfangsmikil leit sem hefur farið fram,“ segir Ásgeir.

Spáin í dag sé góð, bæði veðurfarslega og sjólega, það séu góðar aðstæður til leitar í dag. „Við munum einbeita að því að leita í dag og tökum svo stöðuna að því búnu,“ segir Ásgeir að síðustu.