Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, segir mikið áhyggjuefni að heróín sé að ryðja sér til rúms á Íslandi og segir nauðsynlegt að auka fræðslu í þeim málum.

„Þetta er mjög alvarlegt og við þurfum að bregðast við með fræðslu og eftirliti og stoppa innflutning eða framleiðslu, eftir því hvaðan þetta kemur. Þegar ég var í lögreglunni þá fannst heróín nánast aldrei og ef það fannst þá var það í einstaka tilfellum,“ segir Karl Gauti í samtali við Fréttablaðið.

Hann sendi á dögunum fyrirspurn á Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um hversu mikið heróín hefur verið lagt hald á hér á landi árlega frá árinu 2010 þar til nú og hversu mörg mál sé um að ræða ár hvert og hversu mikið sé lagt hald á við landamæri.

Heróínneysla virðist hafa færst í aukana í kórónufaraldrinum í kjölfar þess að minna framboð er af lyfseðilsskyldum lyfjum, eða ópíóðum, vegna stórminnkandi flugs. Elísabet Brynjarsdóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar ræddi um stöðuna í samtali við Stöð 2 í síðustu viku.

„Fólk kannski áttar sig ekki á því en við höfum verið að tala um þetta mjög lengi, áratugum saman, hvað við erum heppin að vera laus við heróín meðan þetta grasserar meðal mjög langt leiddra fíkla erlendis. Þetta hefur mjög alvarlegar afleiðingar, dauðsföll og nýjar tegundir af afbrotum. Fólk verður líkamlega háð þessum efnum og þá stoppar það ekki neitt til að ná í næsta skammt. Það verður algjörlega stjórnlaust til að ná sér í næsta skammt.“