Bólu­setning fyrir fram­línu­starfs­fólk Land­spítala hófst í skrif­stofu­hús­næði spítalans í Skafta­hlíð 24 klukkan 10 í morgun. Stemmningin var nánast á­þreifan­leg á svæðinu enda marka þessar fyrstu bólu­setningar fyrir Co­vid-19 á landinu þátta­skil í bar­áttunni við far­aldurinn. „Það er heil­mikil spenna í loftinu. Það hefur verið mikil til­hlökkun meðal okkar starfs­mannanna og nú er loksins komið að þessu,“ segir Fríða Björg Leifs­dóttir, hjúkrunar­fræðingur hjá Land­spítala í sam­tali við Frétta­blaðið. Hún fær sjálf ekki bólu­setningu strax, enda ekki í fyrsta for­gangs­hópi, en gegnir þó jafn­vel mikil­vægasta starfinu í ferlinu; hún er ein þeirra sem sér um að sprauta bólu­efninu í sam­starfs­fé­laga sína í dag.

„Þetta er hrika­lega spennandi og skemmti­legt,“ sagði Fríða þegar Frétta­blaðið náði tali af henni milli bólusetninga í morgun. „Við bólu­setjum núna jafnt og þétt þar til við höfum lokið bólu­setningu á öllu starfs­fólki okkar. Allir þurfa að koma í tvær sprautur þannig það tekur nokkrar vikur að klára hópinn, sem er um sex þúsund manns.“

Það verður nóg að gera hjá Fríðu Björg í dag og á morgun. Gert er ráð fyrir að um 770 starfsmenn Landspítalans verði þá bólusettir fyrir veirunni.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hún er ekki viss um hve­nær hún fær loks sjálf bólu­setningu. „Nei, ég veit ekkert hve­nær röðin kemur að mér. Ég bíð bara eftir SMS-inu,“ segir hún létt í bragði.

Mikið mætt á heilbrigðisstarfsfólki


Síðustu mánuðir hafa verið erfiðir fyrir starfs­fólk spítalans. Það virðast allir starfs­menn spítalans sem Frétta­blaðið hefur náð tali af sam­mála um. „Það hefur náttúru­lega mætt mjög á öllu starfs­fólki spítalans á síðustu mánuðum. Og þá helst auð­vitað á þeim einingum þar sem inni liggja mjög veikir sjúk­lingar með Co­vid,“ segir Fríða.

Hannes Hall­dórs­son, læknir á skurð­s­viði sem sjálfur er í Co­vid-teymi spítalans, tekur í sama streng: „Þetta hefur verið skrýtið á­stand, sannar­lega. Mis­slæmt eftir því hvernig bylgjan hefur þróast en sannar­lega mjög ó­vana­legt í alla staði.“

Hann var bólu­settur með bólu­efni Pfizer í morgun. Eftir sprautuna sagðist honum líða mun öruggari í starfi. „Alveg tví­mæla­laust. Starfs okkar vegna getum við verið út­sett fyrir Co­vid-smiti dags dag­lega. Þá er hættan bæði á að smitast sjálfur og að smita aðra sem liggur fyrir. Bólu­setningin hjálpar til í því til­liti.“

Hannes fer varlega í yfirlýsingar sínar. Hann er þó bjartsýnn á að við höfum hafið lokakaflann í baráttunni við veiruna í dag.
Fréttablaðið/Anton Brink

Nína Brá Þórarins­dóttir hjúkrunar­fræðingur var einnig meðal þeirra starfs­manna spítalans sem voru bólu­settir í morgun. „Jú, síðustu mánuðir hafa verið mjög erfiðir, til dæmis fyrir þá sem hafa þurft að sinna Co­vid-sjúk­lingum og þurft að fara inn á þessar stofur. En það eru náttúru­lega allir að reyna sitt besta. Maður fylgir þessum sótt­vörnum eftir inni á spítalanum – það er okkar starf,“ segir hún.

Og starfs­fólkið mun þurfa að halda á­fram að fylgja þeim sótt­vörnum þó það sé búið í bólu­setningu fyrir veirunni: „Þetta er nefni­lega líka spurning um smit milli ein­stak­linga þannig við þurfum að halda á­fram hand­þvotti og ég verð að vera á­fram með grímu þó ég sé bólu­sett. Það verður ekki fyrr en Land­spítalinn gefur það út að við megum hætta því sem við hættum því,“ segir Nína.

Nína hvetur alla til að fara í bólusetningu sem eiga kost á.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fara varlega í yfirlýsingar


Land­spítalinn leggur upp með að klára að bólu­setja um 770 starfs­menn sína í dag og á morgun. Síðan munu fleiri skammtar bólu­efnis Pfizer berast til landsins á næstu vikum, um þrjú þúsund skammtar í viku og verður þá hægt að bólu­setja fleiri. Dagurinn í dag markar kannski upp­hafið að endinum en endirinn gæti þó reynst nokkuð lang­dreginn. Þannig voru bæði Hannes og Nína bjart­sýn á fram­haldið en stigu þó var­lega til jarðar í siguryfir­lýsingum sínum yfir veirunni:

„Já, maður leyfir sér alla­vega að vera bjart­sýnn en hvort maður sjái fyrir endann á þessu strax, ég veit ekki hvort maður getur leyft sér að segja það,“ segir Hannes. Þá segir Nína ein­fald­lega „7, 9, 13,“ þegar hún er spurð hvort bar­áttunni við veiruna sé nú ekki loks að ljúka. „Maður bara vonar að sem flestir mæti í bólu­setningar,“ segir hún. „Það er full á­stæða til að hvetja fólk til þess. Það er ekki alls staðar þar sem er svona gott að­gengi að bólu­efninu og ef þú ættir heima ein­hvers staðar annars staðar þá kannski væri ekki svona auð­velt að fá bólu­setningu. Við erum líka svo fá að það ætti að verða til­tölu­lega auð­velt að ná hjarðó­næmi.“