„Við horfum mjög al­var­legum augum á þetta og getum í sjálfu sér ekki séð annað en að þarna liggi að baki for­dómar,“ segir Sig­þór U. Hallfreðsson, formaður Blindrafélagsins.

Sig­þór segir Blindra­fé­lagið hafi gengið í málið strax á föstu­daginn fyrir hönd Ey­þórs og fjöl­skyldu, þegar þeim var fyrst meinaður aðgangur að flugi.

„Við settum okkur í sam­band við þjónustu­borð SAS í Kaup­manna­höfn og fengum þau svör að þau hafi heimild til að fljúga með þeim í dag. En svo kemur á daginn þegar þau mæta í annað skipti, að þá mega þau ekki einu­sinni tékka sig inn. En af hverju stendur á því er ó­ljóst,“ segir Sig­þór.

Í sam­tali við Frétta­blaðið í dag sagði Ey­þór að hann hafi fengið þau svör frá þjónustu­aðilum SAS á flug­vellinum í Grikk­landi að honum og eigin­konu hans væri ekki heimilt að ferðast með ungt barn í sinni for­sjá án þess að hafa með sér að­stoðar­mann. Slíkt væri öryggis­brestur.

„Það er ekki það sem SAS segir okkur og við höfum í okkar tölvu­póst­sam­skiptum okkar á milli,“ segir Sig­þór, og heldur á­fram:

„Þau fengu stað­festingu í gær að þau fengju að fljúga með þessu flugi í dag og þegar þessi upp­á­koma kom upp í morgun var aftur haft sam­band við við­komandi aðila á þjónustu­borðinu. Hann átti engin svör því hann skildi ekkert í þessu heldur. Þetta er al­gjör­lega ó­skiljan­legt og í raun er þetta bara hrein og klár mis­munun án eðli­legra raka,“ segir Sig­þór og setur málið í sam­hengi.

„Þetta er ungt fólk sem er að ala upp barn. Býr auð­vitað bara eitt og sér og með sitt barn sem þau eru með sér allan sólar­hringinn. Hver er þessi ó­skap­lega á­hætta að þau sitji í flug­vél í tvo tíma með barnið? Þau sjá um barnið allan sólar­hringinn, alla daga ársins og ala það upp til full­orðins­ára. Fyrir mér er þetta al­gjör­lega ó­skiljan­legt,“ segir Sig­þór.

Auk Blindra­fé­lagsins hefur utan­ríkis­ráðu­neytið og borgara­þjónustan verið sett inn í málið, og segir Sig­þór það aug­ljós­lega ekki dugað til að koma Ey­þóri og fjöl­skyldu í gegnum flug­stöðina.

„Í raun er þetta orðið að tveimur málum núna. Annars vegar að þetta unga fólk komist hingað heim í jóla­frí til að hitta fjöl­skylduna sína og hins vegar að gera allt sem í okkar valdi stendur til að svona lagað bara þekkist ekki,“ segir Sig­þór.

Þá geti for­svars­menn flug­fé­lagsins ekki bent á neinar reglur á hvaða for­sendum þessi á­kvörðun byggist.

„Þetta virðist því miður vera ein­hvers­konar geð­þótta­vald flug­stjórans. Það er löngu þekkt að flug­stjórar og skip­stjórar hafa mikil völd í sínum förum, en það þarf alltaf að liggja grund­vallar­á­stæða fyrir til að taka svona á­kvörðun,“ segir Sig­þór, og bætir við:
„Við ætlum að fylgja þessu máli eftir en nú er for­gangs­at­riði að koma þeim heim. Því eins og þetta horfir við okkur byggir þetta alfarið á þeim for­dómum að blindir og sjón­skertir geti ekki komist um,“ segi Sig­þór.