„Við horfum mjög alvarlegum augum á þetta og getum í sjálfu sér ekki séð annað en að þarna liggi að baki fordómar,“ segir Sigþór U. Hallfreðsson, formaður Blindrafélagsins.
Sigþór segir Blindrafélagið hafi gengið í málið strax á föstudaginn fyrir hönd Eyþórs og fjölskyldu, þegar þeim var fyrst meinaður aðgangur að flugi.
„Við settum okkur í samband við þjónustuborð SAS í Kaupmannahöfn og fengum þau svör að þau hafi heimild til að fljúga með þeim í dag. En svo kemur á daginn þegar þau mæta í annað skipti, að þá mega þau ekki einusinni tékka sig inn. En af hverju stendur á því er óljóst,“ segir Sigþór.
Í samtali við Fréttablaðið í dag sagði Eyþór að hann hafi fengið þau svör frá þjónustuaðilum SAS á flugvellinum í Grikklandi að honum og eiginkonu hans væri ekki heimilt að ferðast með ungt barn í sinni forsjá án þess að hafa með sér aðstoðarmann. Slíkt væri öryggisbrestur.
„Það er ekki það sem SAS segir okkur og við höfum í okkar tölvupóstsamskiptum okkar á milli,“ segir Sigþór, og heldur áfram:
„Þau fengu staðfestingu í gær að þau fengju að fljúga með þessu flugi í dag og þegar þessi uppákoma kom upp í morgun var aftur haft samband við viðkomandi aðila á þjónustuborðinu. Hann átti engin svör því hann skildi ekkert í þessu heldur. Þetta er algjörlega óskiljanlegt og í raun er þetta bara hrein og klár mismunun án eðlilegra raka,“ segir Sigþór og setur málið í samhengi.
„Þetta er ungt fólk sem er að ala upp barn. Býr auðvitað bara eitt og sér og með sitt barn sem þau eru með sér allan sólarhringinn. Hver er þessi óskaplega áhætta að þau sitji í flugvél í tvo tíma með barnið? Þau sjá um barnið allan sólarhringinn, alla daga ársins og ala það upp til fullorðinsára. Fyrir mér er þetta algjörlega óskiljanlegt,“ segir Sigþór.
Auk Blindrafélagsins hefur utanríkisráðuneytið og borgaraþjónustan verið sett inn í málið, og segir Sigþór það augljóslega ekki dugað til að koma Eyþóri og fjölskyldu í gegnum flugstöðina.
„Í raun er þetta orðið að tveimur málum núna. Annars vegar að þetta unga fólk komist hingað heim í jólafrí til að hitta fjölskylduna sína og hins vegar að gera allt sem í okkar valdi stendur til að svona lagað bara þekkist ekki,“ segir Sigþór.
Þá geti forsvarsmenn flugfélagsins ekki bent á neinar reglur á hvaða forsendum þessi ákvörðun byggist.
„Þetta virðist því miður vera einhverskonar geðþóttavald flugstjórans. Það er löngu þekkt að flugstjórar og skipstjórar hafa mikil völd í sínum förum, en það þarf alltaf að liggja grundvallarástæða fyrir til að taka svona ákvörðun,“ segir Sigþór, og bætir við:
„Við ætlum að fylgja þessu máli eftir en nú er forgangsatriði að koma þeim heim. Því eins og þetta horfir við okkur byggir þetta alfarið á þeim fordómum að blindir og sjónskertir geti ekki komist um,“ segi Sigþór.