Óbreyttir flokksmenn og aðrir sem hafa sinnt störfum fyrir Samfylkinguna hafa sumir lýst yfir úrsögn úr flokknum. Þetta kemur fram á lokaðri spjallrás flokksmanna þótt enn sé ekki ljóst hve stór sá hópur er sem vill segja skilið við flokkinn. Einnig hefur að minnsta kosti einn annar frambjóðandi ákveðið að draga framboð sín til baka vegna uppstillingarmála flokksins í Reykjavík, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Valgerður Bjarnadóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík sagðist aðeins hafa eitt að segja um uppstillingarmálin: „Þetta er hörmung“.

Einar Kárason, varaþingmaður bendir á eftir að fylgið hrundi og flokkurinn beið herfilegt afhroð 2016 hafi fáir viljað leiða lista flokksins „Fáir höfðu áhuga á að láta bendla sig við hann, enda með engan þingmann í Reykjavík. Þegar komu óvæntar kosningar árið eftir var lítil stemmning, en við Ágúst Ólafur og Jóhanna Vigdís tókum að okkur þrjú efstu sætin í Reykjavík suður og vorum á fullu í kosningabaráttu í sex vikur, fengum einn kjörinn og munaði hársbreidd að Jóhanna færi líka inn. Í síðustu könnun vorum við stærsti fokkurinn í kjördæminu og það er skiljanlegt að aðrir renni á slóðina þegar svo er komið. Og nú var okkur öllum þremur hent út af einhverri uppstillinganefnd án þess að vera spurð, það var aldrei einu sinni hringt í mann“ segir Einar.

Einar Kárason hefur sest á Alþingi fyrir Samfylkinguna. Hann segir sér og fleirum hafa verið hent út af uppstillingarnefnd
Mynd/Sigtryggur Ari

Nýliðar fá framgang

Ágreiningur og óánægja er meðal margra vegna uppstillingarmála í Reykjavíkurkjördæmunum, óreyndir flokksmeðlimir sem hafi ekki unnið í málefnavinnu flokksstarfsins fái góðan framgang eftir að skoðanakönnun var framkvæmd meðal flokksmanna og uppstillingarnefnd hóf störf. Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, varaþingmaður flokksins sagði sig frá öllum trúnaðarstörfum og úr flokknum í gær en hún hefur bæði unnið að innra málefnastarfi flokksins um árabil og einnig setið á þingi og tekið þátt í nefndarstörfum þess. Jóhönnu mun hafa verið boðið þriðja sætið lista í Reykjavík á meðan nýliðar fá efstu sætin ásamt einum reyndum þingmanni, Helgu Völu Helgadóttir. Víst er að Jóhanna varð ofarlega í skoðanakönnuninni í janúar.

„Ég verð þó að viður­kenna að það eru mér von­brigði að upp­stillingar­nefnd í Reykja­vík kjósi að bjóða ný­liðum, hæfu fólki sem sannar­lega er meira en vel­komið til starfa – og þó fyrr hefði verið - að skipa þrjú af fjórum efstu sætum flokksins í Reykja­víkur­kjör­dæmunum fyrir kosningar til Al­þingis næsta haust,“ stóð meðal annars í bréfinu sem Jóhanna Vigdís sendi frá sér í gær til fjölmiðla.

Efst í Reykjavík Suður og hætta bæði: Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður og Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, varaþingmaður.
Mynd/Anton Brink

Áhugaverð taktík“

„Á spjallsíðu Samfylkingarmanna skrifar Þorkell Heiðarsson varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar. "Í síðustu könnun Gallup var Samfylkingin með meira fylgi en sjallar í einu kjördæmi. Reykjavík Suður 19,5 prósent. Nú eru bæði þingmaðurinn þar og varaþingmaðurinn sem sagt farin. Áhugaverð taktík, “

Talið er nokkuð víst að nýliðunum Kristrúnu Frostadóttur, fyrrverandi aðalhagfræðingi Kviku banka og Jóhanni Páli Jóhannssyni, áður blaðamanni á Stundinni bjóðist fyrsta og annað sæti og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður sem er nýgengin í flokkinn úr VG, verði í einum af fjórum efstu í kjördæmunum tveimur. Helga Vala mun án efa leiða annan Reykjavíkurlistanna.

Líklegt þykir að þrír nýir í flokksstarfinu taki efstu sætin í Reykjavík
Kristrún Frostadóttir, Jóhann Páll Jóhannsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir - Mynd/ Andri Marinó

Kornið sem fyllti mælinn

Einn flokksmaður sem vildi ekki láta nafns síns getið og Fréttablaðið ræddi við sagði ógagnsæi meðal ástæðna þess að hann ætli að segja sig úr flokknum: „Aðferðafræðin í kringum uppstillinguna var ógegnsæ og framkoman gagnvart Jóhönnu var svo kornið sem fyllti mælinn. „Grasrót flokksins skiptir engu máli fyrir þennan flokk“, sagði hann.

Fékk rætinn póst frá flokkssystur

Magnús Sigurjón Guðmundsson sem hefur sinnt trúnaðarstörfum fyrir Samfylkinguna á sveitarstjórnarstiginu, m.a. verið varamaður í stjórn í Árborg hefur lýst því að hann ætli að hætta í flokknum og segir að minnsta kosti þrír aðrir sem hann þekki ætli að gera hið sama. Fleiri ástæður koma til hjá Magnúsi en brotthvarf Jóhönnu Vigdísar. „Ég fékk mjög ljótan og rætinn póst frá flokkssystur minni þegar ég ræddi mál Ágústs Ólafs Ágústssonar og spurði hvort hann hefði ekki gert allt rétt í stöðunni, farið í meðferð og tekið sig á. Þá fékk ég hreinlega yfir mig að ég væri meðsekur kynferðisbrotamanni að styðja við bakið á Ágústi Ólafi. Það er verið að draga fólk þarna í dilka og miklir flokkadrættir í Samfylkingunni“, segir Magnús. Framkoman gagnvart Jóhönnu hefði gert út um að hann gæti verið áfram í flokknum. „Það er mikil ólga í grasrótinni núna,“ segir hann.

Dóra Magnúsdóttir varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar hefur unnið margvísleg störf innan flokksins í gegnum árin
Mynd/Samfylkingin

Rauðir dreglar dregnir út

„Nýju fólki virðist vera hampað á kostnað þeirra sem hafa lagt mikið af mörkum,“ segir Dóra Magnúsdóttir, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar um uppstillingu flokksins í Reykjavík fyrir þingkosningarnar í haust. Dóra hefur unnið margvísleg störf innan flokksins um árabil. „Jóhanna Vigdís kom inn af krafti þegar flokkurinn var í sárum og uppsker þriðja sætið. Ég upplifi ósanngirni gagnvart henni á meðan rauðir dreglar eru dregnir fram fyrir nýtt flokksfólk. Nýliðun er eðlileg en þetta er bara of mikið,“ segir Dóra en ítrekar að fram hafi komið frábært og hæfileikaríkt fólk til liðs við flokkinn og fengið framgang, málið snúist ekkert um það heldur að í sumum tilvikum sé fólki ekki umbunað fyrir mikið og óeigingjarnt starf fyrir flokkinn, frambærilegt fólk með reynslu.

Þróun mála er ófyrirséð að því leyti að á morgun hefur verið boðað til allsherjarfundar samfylkingarfélaga í Reykjavík sem kjósa um framboðslistana sem uppstillingarnefnd hefur sett saman í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. Fundurinn hefst Kl.13.

Hörður J. Oddfríðarson er formaður uppstillinganefndarinnar.
Mynd/Facebook Hörður Oddfríðarson