„Þetta er mjög öflugar til­lögur sem munu leysa úr vanda margra, og ég er á­nægður með það,“ sagði Einar Þor­steins­son, odd­viti Fram­sóknar í Reykja­vík og for­maður borgar­ráðs, eftir kynningar­fund í Ráð­húsinu í dag á nýjum úr­ræðum í dag­vistunar­málum.

Kynntar voru sex til­lögur sem eiga að leysa hluta þess vanda sem hefur skapast í borginni og tafið inn­töku barna í leik­skóla.

Meðal þess sem var lagt er að tíma­bundin leik­skóli verði settur upp í Korpu­skóla og í Bakka en Einar segir að það ráðist al­ger­lega af því hvort að for­eldrar hafi á­huga á því en á fundinum í dag kom fram að for­eldrar hafi hingað til sýnt því lítinn á­huga.

Spurður hversu mörg pláss þessar lausnir eigi að leysa segir Einar að enn eigi eftir að út­færa betur til dæmis til­lögu um að nýta frí­stunda­starf fyrir há­degi.

„Ég veit alveg að það er ekki vilji til að skerða frí­stunda­starfið því það er mikil­vægt líka. Þetta þarf að rýna vel,“ sagði Einar og að ekki væri til út­færð til­laga því ekki hefði unnist tími til þess.

Bæta kjör dagforeldra

Ein til­lagan sem lögð var fram á fundinum sneri að dag­for­eldrum og að auka til þeirra stofn­styrki og hækka niður­greiðslur.

„Niður­greiðslur hafa ekki hækkað í nokkur ár til dag­for­eldra og við ætlum að hækka þessa niður­greiðslur þannig það verði hag­stæðara fyrir dag­for­eldra að standa í þessum rekstri,“ sagði Einar og að jafn­framt yrði stofn­styrkurinn hækkaður svo að það væri auð­veldara fyrir fólk að fara í slíkan rekstur. Hann vonaði að þetta myndi auka fram­boð á dag­for­eldrum en tölu­verður skortur hefur verið á dag­for­eldrum. Hann sagði að starfs­fólk skóla- og frí­stunda­sviðs myndi nú hringja í þá dag­for­eldra sem hafa hætt á árinu til að sjá hvort þau vilji byrja aftur með þessi betri kjör.

„Svo er líka hægt að skoða, og það þarfnast rýni, hvort það eigi að fjölga börnum hjá dag­mæðrum,“ segir Einar og að dag­for­eldrar starfi oft í pörum og að mögu­lega sé að finna svig­rúm á sama tíma og gæði og öryggi sé tryggt.

Forneskjulegt kerfi

Ein af til­lögunum sem lagðar voru fram í dag sneru að auknu gagn­sæi í kerfinu fyrir for­eldra.

„Ég á tvö börn sem hafa farið í gegnum þetta kerfi og fjögurra mánaða dreng sem bíður þess að fara á leik­skóla þegar hann verður eldri,“ segir Einar og að það sé í miklum for­gangi að sam­ræma kerfi Reykja­víkur­borgar og til dæmis sjálf­stætt starfandi leik­skólanna.

„Þetta kerfi gengur ekki. Það er ekki hægt að við höfum ekki yfir­sýn hversu mörg pláss vantar, hvort börn eru á fleiri en einum bið­lista og að for­eldrar þurfi að vera að hringja hingað og þangað um borgina til að kría út pláss. Þetta er forn­eskju­legt og gengur ekki. Þessar upp­lýsingar eiga að vera í raf­rænu formi, á einum stað, í mæla­borði fyrir starfs­fólk borgarinnar og borgar­búa,“ segir Einar og að um ára­mót þegar samningar renna út við sjálf­stætt starfandi leik­skóla verður það sett inn í nýja samninga sem krafa að nota slíkt sam­ræmt kerfi.

Uppfærður á tveggja vikna fresti

Einar segir að lokum að þær til­lögur sem lagðar voru fram í dag eru byrjunin og að það sé enn unnið að fleiri til­lögum.

„Ég hef óskað eftir því að inn í borgar­ráð komi núna á tveggja vikna fresti skýrsla og reifun á því hvernig gengur. Við munum halda þétt utan um þetta verk­efni næstu vikur og mánuði því þetta r ekki leyst með því að smella fingri,“ segir Einar en að hann sé bjart­sýnn á að hægt sé að leysa verk­efnið.

Við­talið við Einar var birt í Frétta­vaktinni á Hring­braut í kvöld og er hægt að horfa hér að neðan í þætti kvöldsins.