Við náum tali af Gísla þar sem hann er á akstri í Húna­vatns­sýslu við upp­tökur á Sumar­landanum. „Við erum við Hóla í Hjalta­dal þar sem við erum að fara að taka við­töl við upp­rennandi skógar­höggs­menn á skógar­höggs­nám­skeiði. Þar eru menn að læra réttu hand­tökin á keðju­sögina svo trén detti ekki á hausinn á þeim. Þetta er alveg á­byggi­lega flott sjón­varp, enda eitt­hvað rómantískt og fal­legt við skógar­högg,“ segir Gísli, sem er ekki frá því að stétt skógar­höggs­manna sé að rísa hér á landi þó að hún sé kannski ekki fjöl­menn. „Það er það mikið orðið af skógum hér sem þarf að grisja.“

Gísli hefur unnið í sjón­varpi í 20 ár, en árið 2003 hófu göngu sína þættirnir Út og suður undir hans stjórn og gengu þeir í sjö sumur. „Í októ­ber nú í ár eru aftur á móti komin tíu ár frá því Landinn byrjaði. Ég er ekki með tölu á því hvað ég sjálfur hef tekið mörg inn­s­lög fyrir Landann en þau hlaupa á hund­ruðum. Sam­tals höfum við þó tekið um tvö þúsund inn­s­lög á þessum ára­tug.“

Snýst um að hlusta á sögur

Eftir ára­tug á ferð um landið í leit að á­huga­verðum við­mælendum, er ekki úr vegi að spyrja Gísla hvort starfið sé alltaf jafn á­nægju­legt. „Já, það kemur eigin­lega á ó­vart hvað þetta er enn­þá gaman. Ef maður hefur snefil af á­nægju af því að um­gangast fólk þá er þetta drauma­starfið. Þetta snýst auð­vitað bara um sögur, en ég er alinn upp við að hlusta á sögur. Þetta snýst um það: Að hlusta á sögur fólks og koma þeim á­fram. Svo stutta svarið er já,“ segir Gísli í léttum tón.

Gísli segir þau fá mikið af á­bendingum um á­huga­verð við­tals­efni auk þess sem þau leiti uppi sögur, ekki síst ef þeim finnst vissir hópar þurfa að fá meira pláss í um­fjöllun. „Við leitum uppi sögur, ekki síst þegar okkur finnst okkur vanta sögur frá vissum lands­hlutum, vissum aldri eða vissu kyni, enda reynum við að halda jafn­vægi í þessum efnum,“ út­skýrir Gísli.

Hug­sjónin bætti þáttinn

„Við á­kváðum fyrir nokkrum árum að gæta þess að kynja­skipting við­mælenda væri 50/50, en fyrir það voru karlarnir í meiri­hluta. Ef það var farið að halla á konur þá leituðum við bara að konum og við sættum okkur ekki við bara eitt­hvað, heldur leituðum að góðu efni þar sem konur voru í for­svari. Það gerði það að verkum að við fundum alls kyns gott efni sem hefði farið fram hjá okkur annars. Þetta var því ekki bara hug­sjón heldur gerði þetta þáttinn að mínu mati mun betri.“

Eins og fyrr segir er Gísli á ferðinni í Húna­vatns­sýslu þegar við­talið fer fram og ein­hvern veginn sér maður hann alltaf fyrir sér undir stýri brunandi um þjóð­veginn, og að sjálf­sögðu, í­klæddan lopa­peysu.

„Ég segi stundum að ég keyri eins og dýra­læknir eða sæðinga­maður, en þetta eru stéttir sem keyra tals­vert mikið. Ég hef farið yfir 70 þúsund kíló­metra á ári. Þetta árið var það að­eins minna en frá því ég fékk bíl­próf hef ég aldrei keyrt eins lítið, enda var maður mikið bundinn heima og lítið á flakkinu vegna CO­VID.

Um helgina keyrði ég um 1.400 kíló­metra á 26 tímum, ég keyrði Eyja­fjörðinn, austur á Höfn og svo aftur til baka,“ segir Gísli sem viður­kennir að það sé mis­gaman að keyra eftir svæðum og veðráttu. „En í góðu veðri og með fal­legt út­sýni fær maður aldrei nóg af því að keyra um landið. Það er líka nú­vitund í því, þessi tími nýtist mér vel til að hreinsa hugann og slappa af eða þá til að hugsa. Gjarnan notar maður tímann og er í símanum,“ segir hann og bætir við að það sé vert að taka fram að hann noti þá auð­vitað hand­frjálsan búnað.

Ein­kennis­klæðnaður Gísla í þáttunum er á­líka þjóð­legur og þátturinn sjálfur, en oftast er hann klæddur í ís­lenska lopa­peysu við upp­tökur.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hlustar á glæpa­sögur við aksturinn

Á akstri sínum um landið hlustar Gísli á hlað­vörp og glæpa­sögur af Stor­ytel og segir það sér­lega nota­legt. „Síðasta bók sem ég hlustaði á var eftir sænska höfundinn Vivecu Sten. Ég annað­hvort les eða hlusta á allar nor­rænar glæpa­sögur sem koma út á ís­lensku. Ég hlusta á alla ís­lensku höfundana og Jo Nesbo er líka oft í tækinu enda í upp­á­haldi.“

Ein­kennis­klæðnaður Gísla í þáttunum er á­líka þjóð­legur og þátturinn sjálfur, en oftast er hann klæddur í ís­lenska lopa­peysu við upp­tökur.

„Ætli ég eigi ekki tæp­lega 30 lopa­peysur og ég veit að það er ein á leiðinni. Konan mín hefur prjónað þær flestar og dóttir mín hefur ekki síður verið lið­tæk. Svo hafa mér borist tvær eða þrjár eftir öðrum leiðum. Eina fékk ég frá Hand­prjóna­sam­bandinu og eitt sinn var ég kynnir á prjóna­há­tíð í Húna­vatns­sýslunni og fékk þar fal­lega peysu. Ég held að ein­hver mestu verð­mæti sem ég á séu í lopa­peysum.“

Á hátt í þrjú hundruð háls­bindi

Gísli segist stundum klæðast skyrtum í upp­tökum en það er þá helst til að nota eitt­hvað af þeim tvö til þrjú hundruð háls­bindum sem hann hefur safnað í gegnum tíðina og fara ekki eins vel við lopa­peysur og skyrtur. En hvaða söfnunar­á­rátta er þetta eigin­lega? „Ég safna bindum, slaufum og höttum en mest á ég af bindum,“ segir Gísli, sem hefur dá­læti á ó­hefð­bundnum slaufum og segir vel hægt að para þær við lopa­peysur, alla vega mun frekar en háls­bindi. „Ég á slaufur úr fisk­roði, tré og hrein­dýra­skinni og er mikið fyrir eitt­hvað svona hand­gert.“

Göngu­ferðir eru til­tölu­lega nýtt á­huga­mál hjá Gísla en þær stundar hann á­samt eigin­konu sinni, í stærri hópi eða jafn­vel einn. „Ég er alinn upp í sveit og við það að maður þurfi að eiga erindi til að fara á fjöll. Það geri maður til að elta kindur eða rjúpur. Svo kemst maður að því að það er allt í lagi að labba á fjöll bara til eigin á­nægju.

Ör­æfin í upp­á­haldi

Ég hef gengið bæði hér á landi og er­lendis og lengst gekk ég Jakobs­veginn. Það er gaman að ganga fal­legar leiðir eins og Leggja­brjót og Síldar­manna­götur,“ segir Gísli sem er þó lið­tækur í fjall­göngur líka. „Það er gaman að labba í góðum hópi eða einn með sjálfum sér, svo göngum við líka mikið saman, ég og konan. Það er ekki langt síðan við byrjuðum á þessu en við höfum gert mikið af því síðustu ár.“

Gísli er ný­kominn úr göngu­ferð um Ör­æfin og safnaði jafn­framt kröftum fyrir Sumar­landann í sumar­húsi í Eyja­firði. „Ég stefni svo á að ferðast sem mest um landið í sumar, bæði í vinnu og frí­tíma.“

Þegar rætt er við mann sem hefur haft starfa af því í ára­tug að ferðast um landið og spjalla við fólk, er ekki annað hægt en að spyrja um hans upp­á­halds­stað og Gísli er fljótur til svars: „Ég myndi segja Ör­æfin, Skafta­fell og ná­grenni. Það er auð­vitað fullt af fal­legum stöðum og í hverri sveit eru spennandi staðir, en ef maður er að horfa á lands­lagið þá myndi ég nefna Ör­æfin. Það eru bara ein­hverjir töfrar þar og ég fæ aldrei nóg af því að keyra þessa leið austur eftir.“