Ágúst Heiðar Ólafsson, kerfóðrari hjá Norðuráli, er í framboðssæti hjá tveimur flokkum fyrir Alþingiskosningar í tveimur mismunandi kjördæmum. Flokkarnir eru Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn og Flokkur fólksins.
Austurfrétt greinir frá málinu og hefur eftir Ágústi að hann hafi þegið sæti hjá Frjálslynda lýðræðisflokknum eftir að Guðmundur Franklín, formaður flokksins hafði samband við hann.
„Guðmundur Franklín spurði í mig persónu hvort ég hefði áhuga á að taka 14 sæti og ég sagði já. Hann vissi að ég bjó á Akranes þannig ég tel það hafi bara verið mannleg mistök að setja mig á lista fyrir Norðausturkjördæmið,“ segir Ágúst í samtali við miðilinn.
Ágúst segist hinsvegar vera meðlimur í Flokki fólksins og ætla að vera í framboði fyrir þann flokk í Norðvesturkjördæmi. Guðmundur Franklín er ekki hress vegna málsins.
„Þetta er með ólíkindum. Þetta er enn eitt skemmdarverkið frá Flokki fólksins,“ segir Guðmundur. Sonur hans ætlar að hlaupa í skarðið á lista flokksins í Norðausturkjördæmi.