Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir eldflaug sem varð tveimur að bana innan landamærum Póllands í gær ekki vera Úkraínu að kenna, þrátt fyrir að líklegast sé að eldflaugin hafi komið frá loftvarnarkerfi landsins. Hann sagði Rússa bera ábyrgð vegna stríðsins sem þeir hófu í Úkraínu.
„Höfum eitt á hreinu, þetta er ekki Úkraínu að kenna. Rússar bera endanlega ábyrgð þegar þeir halda áfram ólöglegu stríði sínu gegn Úkraínu,“ sagði Stoltenberg, en hann hélt blaðamannafund eftir neyðarfund NATO sem Pólland kallaði eftir.
Á blaðamannafundinum sagði hann rannsókn á málinu vera hafna og niðurstöðu hennar verði beðið áður en frekari ákvarðanir verði teknar. Þá sagði Stoltenberg ekki benda til þess að eldflaugarnar hafi verið hluti af viljandi árás.
„Það er ekkert sem bendir til þess að Rússar séu að undirbúa hernaðaraðgerðir gegn NATO,“ sagði Stoltenberg. Hann kallaði eftir því að Rússar hættu þessu „tilgangslausa stríði.“
Aðildarríki vottuðu Póllandi samúðarkveðjur á neyðarfundinum vegna mannfallsins sem varð í kjölfar þess að eldflaugin lenti í Póllandi, en tveir létu lífið. Aðildarríki lýstu þá yfir eindreginni samstöðu sinni með Póllandi og tekið var fram að áfram verður stutt Úkraínu í sjálfsvörn gegn Rússlandi.
NATO hefur veru aukið viðveru herliða í Austur-Evrópu í kjölfar sprengingarinnar í gær. Fleiri hermenn og stórt loft- og flotalið var sent til austurhluta Evrópu.