Hljóðið í Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni er gott í dag. Hann segist ánægður með stöðugar og lágar tölur kórónaveirusmita innanlands en hefur þó áhyggjur af sveiflu á landamærum.

Í gær greindust sex manns innanlands og voru þrír einstaklingar í sóttkví við greiningu. Tala smitaðra hefur farið stöðugt lækkandi frá því að toppi var náð í október þegar um hundrað smit greindust á einum degi og Landspítalinn lýsti yfir neyðarstigi.

Síðustu vikur hafa fleiri verið að greinast nú þegar í sóttkví.

„Við höfum verið að fá lágar tölur og vonandi heldur þetta svona áfarm. Við hvetjum fólk til að passa sig áfram,“ segir Þórólfur í samtali við Fréttablaðið.

Ekki tími fyrir veislur

Í dag tók nú reglu­gerð heil­brigðisráðherra um fjölda­tak­mark­an­ir gildi og mega nú 20 manns koma saman og Heilsugæslan byrjar að bólusetja með bóluefni Moderna.

Eflaust eru margir bjartsýnir og jákvæðir í ljósi tilslakana. Kennsla á vorönn er hafin á öllum skólastigum og landsmenn geta nú kíkt í leikhús og hópatíma til að rækta bæði sál og líkama. En þetta er ekki tími til að fagna eða halda veislur að sögn Þórólfs enda hafa smitin við landamærin verið á uppleið.

„Þetta er ekki tími fyrir veislur. Við höfum áhyggjur af fjölda smita á landamærum sem endurspeglar þessa uppsveiflu erlendis. Það er skrýtið að við séum að slaka á takmörkunum á meðan aðrar þjóðir eru að herða sínar. En þetta er til þess að efla atvinnulíf og ég held að fólk sé að gleðjast yfir því. Í grunninn er þetta einfalt; það þarf að passa upp á hópamyndanir og fólk verðu að passa upp á nándina og að vera ekki að flakka.“