„Þetta er ekki pólitískt mál. Allir sjá það nema þeir,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta og menningarmálaráðherra um andsvar Gunnars Braga um að Lilja hafi misnotað orðið ofbeldi um háttsemi Klaustursmanna í pólitískum tilgangi.

Niðurstaða siðanefndar var að tveir þingmenn Miðflokksins, þeir Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, hafi brotið gegn siðareglum Alþingis.

Gunnar Bragi sagði að eftirfarandi ummæli sín um Lilju, sem hann lét falla á Klausturbar, vera „alíslensk“ og að þau hafi til þessa ekki talist ósiðleg:

„Henni er bara fokking sama um hvað við erum að gera. Hjólum í helvítis tíkina. Það er bara málið. Af hverju erum við að hlífa henni? Ég er að verða brjálaður! Af hverju erum við að hlífa henni?“

Ummælin verði þeim til ævarandi skammar

Lilja segir að ummæli þingmannanna á Klausturbar verði þeim til ævarandi skammar. Hún segir það dapurlegt að þeir sjái ekki sóma sinn til að líta í eigin barm. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Lilja birti á Facebook rétt í þessu.

„Í samræðum sínum á Klausturbarnum kom glöggt í ljós hvaða hug þingmennirnir bera til kvenna. Það var sannarlega dapurlegt. Enn dapurlegra er að þeir hinir sömu skuli nú, átta mánuðum síðar ekki enn sjá að sér heldur reyna að réttlæta ummæli sín. Leitt að þeir sjái ekki sóma sinn að líta í eigin barm. Ummælin verða þeim til ævarandi skammar,“ skrifar Lilja.