Tinnu Haralds­dóttur, að­gerða­sinna, var byrlað ó­lyfjan í Kaup­manna­höfn árið 2019. Tinna sagði sögu sína í Frétta­vaktinni í kvöld og ræddi bæði þann byrlana-„far­aldur“ sem er sagður geisa á skemmti­stöðum í Reykja­vík í dag og gífur­legan fjölda hóp­nauðgana sem hefur verið til­kynnt um það sem af er ári.

Fjallað var um málið í Frétta­blaðinu í dag en í þættinum er einnig rætt við Birnu Dröfn Jónas­dóttur, blaða­mann, sem hefur kynnt sér mál neyðar­mót­töku fyrir þol­endur kyn­ferðis­ofbeldis í þaula.

Rankaði við sér þremur tímum síðar á gólfinu

Tinna segir að hún hafi verið að gista á upp­á­halds hostelinu sínu og hafi stokkið upp á her­bergi til að sækja ópal-fleyg til að deila honum með nýjum vinum hennar og vin­kvenna hennar.

„Þar eru ein­hverjir gaurar að fara að sofa og er í góðu geimi og spyr hvort þeir vilji smakka. Svo sný ég mér við og tek svo næsta sopa og fer niður og hálf­tíma seinna fer ég út og segist þurfa að fara inn á bað að æla,“ segir Tinna þegar hún er beðin um að lýsa at­vikinu.

Hún segir að hún hafi þá talið að hún hafi verið orðin svona full.

„Og svo rankaði ég við mér þremur tímum síðar á gólfinu þar,“ segir Tinna.

Hún segir að hún fari fram og finni þar vin­konu sína há­grátandi sem hafi verið að leita að henni. Hún segir að það hafi þá alveg verið runnið af henni en að það hafi tekið hana smá­stund að átta sig á því hvað gerðist. En henni hafi þá dottið í hug að um byrlun hafi verið að ræða.

Og svo rankaði ég við mér þremur tímum síðar á gólfinu

Tinna átti flug heim næsta dag og segir að hún hafi ekki viljað fara á spítalann í Kaup­manna­höfn því hennar eina ósk hafi verið að komast í eitt­hvað öryggi. Hún segir að hún hafi haft sam­band við hostelið en að það hafi ekki verið mynda­vélar inni á her­bergjunum og því sé erfitt fyrir hana að sanna að henni hafi í raun verið byrlað á her­berginu, en segir að það sé lík­legast að það hafi gerst þar.

Hún segir að henni hafi verið sagt af hjúkrunar­fræðingi að það sé lítið hægt að gera og að þótt það yrði tekið sýni myndi það lík­lega skila litlu, auk þess sem hún benti Tinnu á að „hún hefði ekki átt að vera að djamma ein í út­löndum“.

Hún segir að hún hafi að­eins orkað að segja henni að hún hafi ekki verið ein en vildi að hún hefði sagt henni að það hefði ekki átt að skipta máli.

Lítið vitað um efnin sem eru notuð

Fram kemur í þættinum að það sé lítið vitað um byrlanir og þann far­aldur sem virðist geisa nú á skemmti­stöðum í Reykja­vík því málin séu ekki rann­sökuð.

Tinna segir að hún telji lík­lega að henni hafi verið byrlað rohypnoli og fer yfir það hvernig það hafi lík­lega bjargað henni að fara inn á bað en ekki aftur upp á her­bergi. Hún segir að frá því að hún drakk sopann og þar til hún endaði á gólfinu hafi verið um hálf­tími og það sé lík­lega tími sem þeir sem byrla ó­lyfjan nýta til þess að taka fólk úr þeim að­stæðum sem það er og í þær að­stæður sem þeir vilji hafa þau í.

„Ég held að það sé mjög al­gengt að það séu fleiri en einn gerandi í hverju máli,“ segir Tinna.

Þær Margrét Erla, Birna Dröfn og Tinna eru allar sam­mála um að byrlanir séu mjög al­gengar og fagna því að þær séu nú í um­ræðunni. Tinna segir að henni hafi liðið eins og hún hafi verið ein þegar þetta kom fyrir hana en bendir þó á að henni þyki undar­legt að tala um að það sé far­aldur núna, þegar það hafi alltaf verið mikið um byrlanir.

„Þetta er ekki far­aldur, þetta hefur alltaf verið svona,“ segir Tinna.

Mikið um­ræða hefur skapast um byrlanir í sam­fé­laginu undan­farna daga. Hulda Hrund Sig­munds­dóttir, leik­kona, hóf um­ræðu um málið á Twitter þegar hún spurði hvar fólki hafi verið byrlað og greindi frá því að henni hafi verið byrlað á skemmti­staðnum Ellefunni. Um 150 hafa svarað Huldu sem hefur birt fjölda færsla á sam­fé­lags­miðli sínum frá fólki sem ekki hefur treyst sér til að stíga fram undir nafni.

Hægt er að horfa á viðtalið við Tinnu hér að neðan.