„Þetta er dauðans alvara og þetta hefur valdið dauða fólks vegna þess að það er ekki verið að sinna því,“ segir Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, um slæma stöðu heilbrigðiskerfisins.
Sævar Daníel Kolandvelu, karlmaður á fertugsaldri, sem glímir við alvarlegan stoðkerfisvanda segir heilbrigðiskerfið hafa brugðist sér. Hann hyggst leita sér dánaðaraðstoðar erlendis ef ekkert breytist en hann ræddi um málið á Fréttavaktinni á Hringbraut í gærkvöldi.
„Ég skil þennan mann rosalega vel vegna þess að ég hef verið í þessari aðstöðu og maður bara algjörlega gefst upp, andlega og líkamlega. Ég man að eina sem ég hugsaði þegar ég var að bíða eftir að komast í aðgerðina var að ég yrði svæfður því þá myndi ég ekki finna til á meðan,“ segir Guðmundur Ingi um mál Sævars Daníels.
Ríkisstjórnin segi af sér
Guðmundur Ingi segir mikilvægt að stokka upp heilbrigðiskerfinu eins og það er í dag. Ríkisstjórnin hafi ekki sýnt neina framtakssemi í málaflokknum og hann hafi enga trú á henni, „held hún ætti bara að segja af sér.“
Að sögn Guðmundar Inga er nauðsynlegt að hleypa öðrum inn í heilbrigðiskerfið þar sem núverandi kerfi hafi ekki undan og vísar hann til einkageirans. Nauðsynlegt sé að semja við hvern þann sem treystir sér til að koma inn. „Það er bara lífsnauðsynlegt.“
Guðmundur Ingi hefur sjálfur verið í þeirri stöðu að bíða á biðlista eftir nauðsynlegri aðgerð eftir að hann lenti í bílslysi. „Þegar maður er kominn í það ástand að vera búinn að bíða í heilt ár eftir aðgerð og gleypa kannski tuttugu töflur, með aukaverkunum, þá er manni orðið algjörlega sama hvort það heitir einkavæðing, sjúkrahús eða hvað. Maður vill bara fá aðgerð.“
Stokka upp heilbrigðiskerfinu
Guðmundur Ingi segir ríkisstjórnina ekki geta falið sig á bak við fráflæðisvanda spítalans. „Fráflæðisvandinn, þetta ljóta orð sem er notað yfir gamalt veikt fólk á sjúkrahúsum. Þetta er skelfilegt því ég veit að það kom tillaga um að búa til hjúkrunarheimili fyrir hundrað einstaklinga sem eru inni á spítalanum til að losa um þessa stíflu þarna en þau höfnuðu því.“
Guðmundur Ingi minnist á neyðarástand bráðamóttökunnar yfir hátíðirnar og spyr hvernig í ósköpunum eigi að vera hægt að sinna þrisvar sinnum fleiri en gert sé ráð fyrir á bráðamóttökunni. „Ekki hleypur fólk þrisvar sinnum hraðar.“
„Ég verð bara að segja að ég yrði skelfingu lostinn ef ég þyrfti að komast á bráðamóttökuna. Í fyrsta lagi er okkur sagt að mæta ekki á bráðamóttökuna og svo nýjasta dæmið um daginn að maður eigi ekki að fara á heilsugæsluna. Síðan kom maður frá heilsugæslunni og sagði: ekki koma á heilsugæsluna, vertu bara heima. Ég meina hvað er í gangi, hvert stefnir þetta. Ég meina við verðum að stokka þetta upp.“
Finna þurfi lausnir á vandamálinu
Að sögn Guðmundar Inga er nauðsynlegt að skoða vanda heilbrigðiskerfisins út frá heildarmyndinni. Hann talar um hugmynda að mennta fleiri hjúkrunarfræðinga.
„Af hverju sest enginn niður með þeim sem eru nú þegar menntaðir og vilja ekki starfa við hjúkrun og spyr af hverju þau vilja ekki vinna við þetta?“ segir Guðmundur Ingi og bætir við að nauðsynlegt sé að finna lausn á því vandamáli. „Það er engin lausn að mennta fólk sem vill svo ekki vinna eða brennur upp.“
Ekki sé hægt að ýta vanda heilbrigðiskerfisins áfram og halda að hann batni á meðan biðlistar lengjast og ástandið verður skelfilegra. „Það engar á að fólk fær ekki þá þjónustu sem þa þarf og fólk deyr að óþörfu. Þá erum við komin í þá stöðu að mér finnst að ríkisstjórnin eigi að segja af sér ef þau treysta sér ekki til að leysa þetta mál,“ segir Guðmundur Ingi jafnframt en hann er ekki bjartsýnn á að núverandi ríkisstjórn geti leyst vandann.
„Við erum búin að hamra á þessu síðan ég kom á þing, á biðlistunum, spyrja um þá og berjast fyrir því að það sé samið við Klíníkina eða einhverja til að reyna koma þessu í lag svo fólk þurfi ekki að bíða í tvö, þrjú ár. En það bara lengjast biðlistar og engin lausn.“
Að sögn Guðmundar Inga þarf ekki fleiri nefndir, starfshópa og fundi um vandamálið. „Það þarf að leysa vandann.“