Fjöl­margir hafa safnast saman í Beirút í dag til þess að minnast þess að ár sé liðið frá mann­skæðri sprengingu í borginni en hundruð létust og þúsundir særðust í sprengingunni. Mikil reiði er nú meðal íbúa Líbanon þar sem lítið hefur verið um svör frá yfir­völdum um or­sakir sprengingarinnar.

Á sam­fé­lags­miðlum má finna mynd­bönd af mót­mælum sem fara nú fram víða um borgina auk þess sem að­stand­endur þeirra sem létust standa fyrir minningar­at­höfnum og hefur mörgum stöðum verið lokað, þar á meðal opin­berum stofnunum og sýna­töku­stöðum, í dag. Nokkrir hafa verið hand­teknir í sam­bandi við mót­mælin.

„Þetta er dagur sárs­auka og sorgar. Þetta er dagurinn sem við misstum ást­vini okkar, ættingja og börn,“ sagði I­bra­him Hot­eit, tals­maður fjöl­skyldna sem berjast nú fyrir rétt­læti og að ein­hver beri á­byrgð, en hann missti sjálfur bróður sinn í sprengingunni.

Glíma enn við afleiðingarnar

Hátt settir aðilar innan al­þjóða­sam­fé­lagsins tóku í dag þátt í ráð­stefnu Frakk­lands og Sam­einuðu þjóðanna sem hefur það að mark­miði að safna hundruð milljóna Banda­ríkja­dali til stuðnings fólksins í Líbanon en Frakkar hafa til að mynda heitið 100 milljón Evrum til þeirra á næstu mánuðum.

Að því er kemur fram í frétt AP-frétta­stofunnar um málið létust í heildina 214 manns í sprengingunni en um var að ræða stærstu sprengingu sögunnar sem ekki var til­komin vegna kjarn­orku. Hundruð þúsunda fundu fyrir á­hrifum sprengingarinnar þar sem heimili þeirra voru eyði­lögð.

Sprengingin varð þegar eldur kom að gríðar­legu magni af ammoníum­nítrati sem geymt var á hafnar­svæði borgarinnar en stjórn­völd sögðu van­rækslu á­stæða sprengingarinnar þar sem geymslu­skil­yrði voru ekki við­unandi.

Skömmu síðar kom í ljós að yfir­völd hafi vitað af hættunni og ekkert að­hafst þrátt fyrir í­trekaðar á­bendingar. Fjöl­margir héldu út á götu í kjöl­farið til að mót­mæla spillingu stjórn­valda og sögðu þó nokkrir em­bættis­menn af sér í kjöl­farið. Í dag glíma í­búar Beirút við mikla efna­hags- og stjórn­mála­krísu vegna sprengingarinnar og hefur illa gengið að mynda starf­hæfa ríkis­stjórn.