Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, tókust á um heilbrigðismálin, ásamt fleiru, í þættinum Pólitík með Páli Magnússyni, sem sýndur er á Hringbraut í kvöld. Þátturinn er á dagskrá kl. 19.30.

Farið var vítt og breitt yfir hið pólitíska svið í þættinum. Sigmundur Davíð fór hörðum orðum um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu. „Það er verið að senda sjúklinga til útlanda í þrefalt dýrari aðgerðir af einhverri pólitískri ofsatrú að það megi ekki framkvæmda samskonar aðgerðir á Íslandi þannig að ríkið borgar þrefalt meira til að senda sjúklinginn á einkastofu í Svíþjóð,“ sagði Sigmundur.

Mynd/Hringbraut

Katrín sagði að ríkisstjórnin hefði staðið við loforð fyrir síðustu kosningar að lækka útgjöld sjúklinga. „Stóra málið í þessu snýst um samninga við sérgreinalækna. Það er auðvitað ekki gott að þeir samningar hafi enn ekki náðst. Þar þurfum við að huga að þörfunum í kerfinu, þeir byggist þörfum á þjónustu, þeir þurfa að tryggja nýliðun í kerfinu. Auðvitað væri æskilegt að þeir samningar náðust,“ sagði Katrín.

Páll vitnaði í orð Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um að útgjöld til Landspítalans hefðu hækkað um tugi prósenta. Spurði hann Katrínu hvort það væri aðeins litið til peninganna eða hvað fengist fyrir þá, hvort aðgerðum hefði fjölgað eða annað slíkt. Katrín sagði það alveg gilda athugasemd. „Að sjálfsögðu skipta fjármunir máli þegar talað er um beinharða hluti eins og að lækka kostnað sjúklinga, það verður ekki gert nema með auknum fjármunum.“

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, ræddu þjóðmálin hjá Páli Magnússyni.
Mynd/Hringbraut

Fjármagni bætt í heilsugæsluna

Sigmundur fékk Katrínu til að hlægja þegar hann sagðist ekki ætla að ræða við hana um „viðbygginguna við myglaða húsnæðið við Hringbraut“. „Ef ég hefði haldið áfram þá væri risinn nýr spítali á Vífilsstöðum, mun hagkvæmari, ódýrari og betri,“ sagði Sigmundur.

„Birgir Jakobsson, fyrrverandi landlæknir, og núverandi aðstoðarmaður heilbirgðisráðherra sagði að það væri hægt að bæta endalaust við peningum í heilbrigðiskerfið án þess að það gerði gagn, það gæti jafnvel orðið til tjóns ef menn löguðu ekki kerfið sjálft. Ég hefði viljað að heilbrigðisráðherra tæki mið af þessu, og ríkisstjórnin, í stað þess að brjóta niður margt af því góða í því kerfi sem við höfum byggt upp. Eins og að úthýsa nánast sjálfboðaliðafélögum. Krabbameinsfélaginu, SÁÁ. Þetta er bara illa séð í hinu marxíska kerfi sem ríkisstjórn Katrínar, Sjálfstæðisflokks og fleiri hefur reynt að koma á.“

Katrín sagði þetta ekki rétt hjá Sigmundi. „Hvort sem við nefnum SÁÁ eða Reykjalund, það eru allir sammála um að þessir aðilar veita mikilvæga þjónustu. Ég kannast ekki við þetta viðhorf sem Sigmundur lýsir,“ sagði Katrín. Meðal þess sem ríkisstjórnin hafi áorkað væri að gera heilsugæsluna að fyrsta áfangastað í kerfinu, mál sem hafi verið rætt um frá því hún byrjaði á þingi. „Það er það sem hefur gerst á þessu kjörtímabili. Það er búið að bæta fjármagni við heilsugæsluna, það er til að ná árangri, það er verið að bjóða upp á miklu fjölbreyttari þjónustu en áður.“

Mynd/Hringbraut.

Allt skuli vera undir ríkinu

Sigmundur svaraði þá: „Þetta er bara heilbrigðisstefna Marteins Mosdal. Allt skal vera undir ríkinu og ríkið er við Hringbraut í Reykjavík.“

Katrín sagði að horfa þurfi á stöðuna í heild. Þá hafi heilbrigðiskerfið staðið sig frábærlega í heimsfaraldrinum, þar skipti stefnan máli. „Við erum að tala um að fólk þurfi ekki að borga fyrir að mæta í einkennaskimun svo dæmi sé tekið,“ sagði Katrín. „Við höfum frábært starfsfólk. Það er margt mjög gott við okkar kerfi. Ég hef örugglega allra stjórnmálamanna einmitt gert að umtalsefni samstarf opinberra og einkaaðila í gegnum þennan faraldur. Þá kemur hér Sigmundur og lætur eins og hér sé algjör ríkisvæðing á ferð. Það sjá allir að þetta stenst ekki skoðun.“