Brynjar Níels­son, fyrr­verandi þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, segir að það myndi ekki koma honum á ó­vart þó hér tæki vinstri stjórn við völdum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í við­tali við Brynjar í Dag­mála­þætti Morgun­blaðsins á vef mbl.is.

Við­ræður um myndun ríkis­stjórnar hafa staðið yfir undan­farna daga og hefur margt bent til þess að Sjálf­stæðis­flokkur, Fram­sóknar­flokkur og VG haldi sam­starfi sínu á­fram.

Brynjar er þó þeirrar skoðunar að það geti brugðið til beggja vona í þeim efnum og segir allt eins raun­hæft að Fram­sóknar­flokkurinn halli sér að vinstri flokkunum. „Ég held það sé alveg jafn raun­hæft og hitt en ég hugsa að það sé verra fyrir þjóðina.“

Brynjar kvaðst svart­sýnn á að ríkis­stjórnar­sam­starfið fyrir kosningarnar 25. septem­ber geti haldið á­fram. Nefndi Brynjar til dæmis heil­brigðis­kerfið og virkjunar­á­form í því sam­hengi.

„Já, ég er svart­sýnn á það. Ég trúi því ekki að þing­menn Sjálf­stæðis­flokksins ætli að láta það gerast að hafa ó­breytt form á heil­brigðis­kerfinu. Að menn ætli að fara að ríkisvæða það í heild.“

Þá sagðist Brynjar telja að Sjálf­stæðis­flokkurinn geti ekki sætt sig við að ekki verði fram­leidd meiri orka. „Ramma­á­ætlun er bara dauð, þetta er allt dautt. Það er ekkert að gerast,“ sagði Brynjar sem er þeirrar skoðunar að á­form um stofnun mið­há­lendis­þjóð­garðs séu til þess fallin að koma í veg fyrir að hægt verði að virkja.

„Við þurfum að geta virkjað, við þurfum að geta flutt þetta raf­magn. Ég tala nú ekki um ef við erum að tala um þessa lofts­lags­vá, þetta er allt svo mót­sagna­kennt. Það er ein­hvern veginn þannig að menn eru ekki til­búinir í þetta.“

Brynjar sagði mikil­vægt að settur yrði aukinn kraftur í heil­brigðis­kerfið, meðal annars til að losna við bið­lista. „Losna við að fólk sitji hér mánuðum og árum saman ó­vinnu­fært því þarf að skipta um lið og bryður bara verkja­lyf. Hlutirnir geta ekki gengið svona fyrir sig. Af því að við getum hugsað okkur það að eitt­hvað fólk uppi í Ár­múla geti hugsan­lega hagnast á ein­hverjum rekstri.“