Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það myndi ekki koma honum á óvart þó hér tæki vinstri stjórn við völdum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Brynjar í Dagmálaþætti Morgunblaðsins á vef mbl.is.
Viðræður um myndun ríkisstjórnar hafa staðið yfir undanfarna daga og hefur margt bent til þess að Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og VG haldi samstarfi sínu áfram.
Brynjar er þó þeirrar skoðunar að það geti brugðið til beggja vona í þeim efnum og segir allt eins raunhæft að Framsóknarflokkurinn halli sér að vinstri flokkunum. „Ég held það sé alveg jafn raunhæft og hitt en ég hugsa að það sé verra fyrir þjóðina.“
Brynjar kvaðst svartsýnn á að ríkisstjórnarsamstarfið fyrir kosningarnar 25. september geti haldið áfram. Nefndi Brynjar til dæmis heilbrigðiskerfið og virkjunaráform í því samhengi.
„Já, ég er svartsýnn á það. Ég trúi því ekki að þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætli að láta það gerast að hafa óbreytt form á heilbrigðiskerfinu. Að menn ætli að fara að ríkisvæða það í heild.“
Þá sagðist Brynjar telja að Sjálfstæðisflokkurinn geti ekki sætt sig við að ekki verði framleidd meiri orka. „Rammaáætlun er bara dauð, þetta er allt dautt. Það er ekkert að gerast,“ sagði Brynjar sem er þeirrar skoðunar að áform um stofnun miðhálendisþjóðgarðs séu til þess fallin að koma í veg fyrir að hægt verði að virkja.
„Við þurfum að geta virkjað, við þurfum að geta flutt þetta rafmagn. Ég tala nú ekki um ef við erum að tala um þessa loftslagsvá, þetta er allt svo mótsagnakennt. Það er einhvern veginn þannig að menn eru ekki tilbúinir í þetta.“
Brynjar sagði mikilvægt að settur yrði aukinn kraftur í heilbrigðiskerfið, meðal annars til að losna við biðlista. „Losna við að fólk sitji hér mánuðum og árum saman óvinnufært því þarf að skipta um lið og bryður bara verkjalyf. Hlutirnir geta ekki gengið svona fyrir sig. Af því að við getum hugsað okkur það að eitthvað fólk uppi í Ármúla geti hugsanlega hagnast á einhverjum rekstri.“