„Það er óvenjulegt dellumakarí að heyra svona rugl,“ segir Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands (SGS) og á þá við ummæli Karls Björnssonar, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS), sem hann lét falla í samtali við Fréttablaðið í dag. Karl sagði þar SÍS ætla að fylgja settum leikreglum í kjaraviðræðum og ekki ætla að tjá sig um þær við fjölmiðla.

Aðferð til að takast ekki á við eingreiðsluna

Málið snýr að eingreiðslum sem SÍS bannaði sveitarfélögunum að greiða félagsmönnum SGS eins og Fréttablaðið greindi frá í gær. Karl sagði í dag að SGS hefði vísað deilunum til ríkissáttasemjara og að þar gilti trúnaður um viðræðurnar. „Við bara lútum þeim leikreglum sem þar eru settar. Ef að stéttarfélögin kjósa að reyna að halda uppi viðræðum í gegnum fjölmiðla þá er það þeirra val,“ sagði Karl.

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri SÍS.

Flosi gefur lítið fyrir þessar fullyrðingar Karls. „Þetta er algjört dellumakarí í honum. Samningsaðilar mega ræða saman eins mikið og þeir vilja á öllum stigum kjaradeilunnar þó að það sé búið að vísa henni til ríkissáttasemjara,“ útskýrir hann í samtali við Fréttablaðið. „Og ríkissáttasemjari hefur ekki sett, eins og stundum áður, neitt fjölmiðlabann á menn eða gefið nein tilmæli um það að menn tjái sig ekki um málefnið.“

Hann telur SÍS vera að reyna að skjóta sér undan óþægilegum spurningum. „Þetta er náttúrulega bara aðferð hjá Karli Björnssyni til að takast ekki á við þessa eingreiðslu sem ætti að koma til greiðslu núna 1. ágúst,“ segir hann en aðilarnir eiga ekki bókaðan fund með ríkissáttasemjara fyrr en 21. ágúst.

„Þannig hann virðist ætlast til þess að verkalýðsfélögin sitji hjá núna í einn og hálfan mánuð og segi ekkert á meðan allir okkar félagsmenn eru hlunnfarnir um þessa eingreiðslu. Og það er ekki í samræmi við neinar reglur eða lög sem hann telur sig vera að vinna eftir. Og óvenjulegt dellumakarí að heyra svona,“ segir Flosi að lokum.

Enn og aftur láglaunafólk sem ber byrðina

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tók þá í svipaðan streng og Flosi þegar Fréttablaðið hafði samband við hana vegna málsins. Efling fer þannig með samningsumboð ásamt Verkalýðsfélagi Akraness og SGS fyrir aðildarfélög SGS í kjaraviðræðunum. Hún spyr sig þá einnig hvort tilefni væri einu sinni til að fylgja slíkum reglum, væru þær í gildi.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.

„Þarna opinberast nálgun þeirra sem hafa völd í samfélaginu,“ segir hún. „Þarna á að hlýða einhverjum leikreglum á meðan almennar siðferðisreglur eru bara hunsaðar. Þetta er fólk sem er að leggja gríðarlega á sig og er undir miklu álagi fyrir litlar tekjur. Eru engar leikreglur sem að gilda í samskiptum við þetta fólk?“

Hún fagnar þá fréttum af því að Tjörneshreppur ætli sér að greiða eingreiðslurnar sem SGS fór fram á. Hún hvetur önnur sveitarfélög til að fylgja fordæminu og finnst SÍS sýna forherta afstöðu í málinu gagnvart láglaunafólki.

„Fyrst og fremst er þétta náttúrulega sorglegt og þetta lýsir að mínu mati þessari kerfisbundnu sýn á líf og störf láglaunafólks. Að það megi bara hafa það að einhverjum leiksoppum einhverra valdaafla,“ segir hún.

„Og eins og kemur fram í þessum pósti frá SÍS til sveitarfélaganna er þetta fjárhagslegt mál fyrir sveitarfélögin og þá enn og aftur opinberast þessi stefna sem að viðgengst á Íslandi: að það er láglaunafólkið sem á að bera byrðina,“ segir hún að lokum.