„Þetta virðist bara alltaf stækka og stækka“ segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands um það sem kemur fram þessa dagana úr samskiptum stjórnenda Samherja og „skæruliðadeildar“ fyrirtækisins eins og það er nefnt af þeim sjálfum, þar sem lögfræðingar og kynningarfulltrúar vinna á bak við tjöldin.

„Þetta er búið að vera í gangi í átján mánuði, þessi herferð fyrirtæksins gegn fjölmiðlum og þeim sem eru að skrifa fréttir um þá, á þann hátt sem þeim þóknast ekki.

Herferð í gangi

Kjarninn hefur birt samskipti forráðamanna útgerðarfélagsins Samherja þar sem margt hefur bersýnilega verið vélað til að bæta ásýnd fyrirtækisins. Þar hefur meðal annars komið í ljós að ætlunin var að hafa áhrif á formannskjörið í Blaðmannafélaginu sem fór fram fyrir skemmstu og einnig á prófkjör Sjálfstæðismanna á norðurlandi.

Sigríður Dögg er á Fréttavaktinni í kvöld hjá Sigmundi Erni.

Þú kallar þetta herferð?

„Þetta er herferð, herferð sem er búin að vera í gangi í svona langan tíma er ekkert annað en herferð, þetta er ófrægingarherferð og þetta er tilraun til þöggunar, það er verið að reyna ekki bara að fá þá fréttamenn sem eru að skrifa um Samherja heldur er alla stéttina, til þess að, að minnsta kosti hugsa sig um áður farið er af stað með fréttir gegn Samherja eða um Samherja eða um eitthvað sem að Samherji kemur nálægt,“ segir Sigríður Dögg.

„Þetta er ákveðinn terrorismi og það er bara vitað að þetta er ein leið til þess að reyna að hafa áhrif á umræðuna, hafa áhrif á fjölmiðla,“ segir hún en sem betur fer telji hún fjölmiðla á Íslandi vera nógu sjálfstæða og öfluga svo þetta hafi ekki áhrif en það sé þó ekki hægt að mæla hvort það geri það í raun og veru. „Við eigum ekkert að vera feimin við að kalla þetta það sem þetta heitir.“

„Þetta er ekki að þeir fái ekki að svara fyrir sig, þeir vilja stjórna umræðunni“

„Við sjáum að þarna eru sérhagsmunaöfl að vinna mjög skipulagt, meðvitað og á hættulegan hátt gegn frelsi fjölmiðla, gegn tjáningafrelsinu, gegn félagafrelsi, það er verið að reyna að hafa áhrif á kosningu formanns í félagi, fag- og stéttarfélags á borð við Blaðamannafélagið,“ bætir Sigríður við.

En hvort íslenskri fjölmiðlar séu nógu sterkir, segir Sigríður Dögg að íslenskir fjölmiðlamenn séu mjög öflugir en það sjáist að við séum samt ekki á sama stað á listum um fjölmiðlafrelsi eins og hin Norðurlöndin.

Um fyrirtækið sem vill verja sig segir hún: „Það er eitt að taka til varna en annað að vera með tilhæfulausar árásir og ásakanir,“ segir hún og að færeyskir blaðamenn hafi líka þurft að finna fyrir því og það sé altalað meðal blaðamanna, ekki bara á Íslandi að fyrirtækið svari ekki blaðamönnum þegar þess sé beðið.

„Þetta er ekki að þeir fái ekki að svara fyrir sig, þeir vilja stjórna umræðunni.“