Stefanía Steins­dóttir sóknar­prestur í Ólafs­fjarðar­kirkju býður í­búum Ólafs­fjarðar til kyrrðar­stundar í kirkjunni í kvöld. Þar mun þeim sem eiga um sárt að binda vegna mann­dráps þar í nótt vera mögu­legt að kveikja á kerti og að ræða við annað hvort prest eða starfsfólk frá Rauða krossinum.

„Þetta er á­fall fyrir sam­fé­lagið. Það er ekkert launungar­mál,“ segir Stefanía.

Kirkjan stendur opin í dag en kyrrðar­stundin hefst form­lega klukkan 20 í kvöld. Auk starfs­fólks kirkjunnar mun á staðnum verða við­bragð­steymi frá Rauða krossinum sem mun geta veitt við­töl.

Hægt er að kveikja á kerti í kirkjunni sem stendur opin í dag.
Fréttablaðið/Garðar

Fjórir í haldi

Eins og fram kemur komið í morgun var karl­maður stunginn til bana í nótt á Ólafs­firði. Fjórir ein­staklingar eru í haldi lög­reglunnar vegna málsins sem allir njóta réttar­stöðu sak­bornings. Í til­kynningu lög­reglunnar um málið kom fram að klukkan 02:34 hafi þeirrar að­stoðar verið óskað vegna manns sem hafði verið stunginn.

„Rann­sókn málsins er á al­gjöru frum­stigi og mikil vinna lög­reglu fram­undan. Vegna rann­sóknar­hags­muna er því ekki hægt að veita frekari upp­lýsingar um það að svo komnu. Á­kvörðun um hvort farið verður fram á gæslu­varð­hald yfir ein­hverjum sak­borninganna verður tekin seinna í dag.“ segir í til­kynningu lög­reglu.